Hermann Hreiðarsson stekkur hærra en aðrir og skallar knöttinn að sænska markinu.
Hermann Hreiðarsson stekkur hærra en aðrir og skallar knöttinn að sænska markinu. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
ÍSLENSKA landsliðið í knattspyrnu var kjöldregið í fyrri hálfleik gegn Svíum í undankeppni heimsmeistaramótsins á Laugardalsvelli í gær. Á tuttugu mínútna kafla skoruðu Svíar fjögur mörk þar sem þeir skáru íslensku vörnina í sundur eins og smjör.

ÍSLENSKA landsliðið í knattspyrnu var kjöldregið í fyrri hálfleik gegn Svíum í undankeppni heimsmeistaramótsins á Laugardalsvelli í gær. Á tuttugu mínútna kafla skoruðu Svíar fjögur mörk þar sem þeir skáru íslensku vörnina í sundur eins og smjör. Grafarþögn á 7.000 manna samkomu, stuðningssöngvarnir vel faldir í rassvasanum enda engin ástæða til þess að gleðjast yfir tilburðum íslenska liðsins. Eiður Smári Guðjohnsen lagaði stöðuna í síðari hálfleik með fallegu marki en íslensku landsliðsþjálfararnir þurfa að svara mörgum spurningum á næstu dögum - enda byrjun íslenska landsliðsins í 8. riðli afskaplega rýr.

Eitt stig úr fjórum leikjum líkt og Malta, sem er fyrir neðan með slakara markahlutfall. Tvær smáþjóðir á botni riðilsins og kannski er Malta það viðmið sem íslenska landsliðið ætti að hafa í framhaldi riðlakeppninnar. Þétt liðsvörn voru skilaboð landsliðsþjálfaranna Ásgeirs Sigurvinssonar og Loga Ólafssonar fyrir leik Íslendinga gegn Svíum. Leikaðferð liðsins, 5:3:2, kom því engum á óvart. Þrír miðverðir í hjarta varnarinnar gegn tveimur sænskum framherjum. Tveir íslenskir bakverðir. Þrír miðjumenn og Eiður Smári Guðjohnsen ásamt Heiðari Helgusyni fremstir.

Vissulega var varnarleikurinn í fyrirrúmi en liðsvörn og færslur íslenska liðsins náðu aldrei takti.

Enda var íslenska liðið kjöldregið í fyrri hálfleik fyrir framan daufa 7.000 áhorfendur.

Henrik Larsson kom Svíum yfir á 24. mínútu eftir fyrirgjöf frá hægri frá Christian Wilhelmsson. Marcus Allbäck bætti við marki tveimur mínútum síðar eftir að Árni Gautur Arason hafði varið skot frá Larsson. Í báðum tilfellum höfðu íslensku leikmennirnir brugðið sér í sóknina og sóttu Svíar hratt upp völlinn eftir að hafa unnið af þeim boltann.

Besta færi íslenska liðsins í fyrri hálfleik kom á 29. mínútu er Hermann Hreiðarsson skallaði að marki en Nilsson bjargaði á línu.

Larsson nuddaði salti í sárin með glæsilegu marki á 38. mínútu. Frábært samspil. Fjórar sendingar úr öftustu vörn og fram völlinn. Wilhelmsson sló ekki feilnótu er hann hamraði knöttinn í netið á 44. mínútu. Viðstöðulaust skot utan vítateigs eftir hornspyrnu. Draumamark.

Eiður Smári Guðjohnsen lagaði sálartetur stuðningsmanna Íslands með fallegu marki á 65. mínútu. Fjórar sendingar í þríhyrningsspili og skot utan af velli frá Eiði Smára.

Það er ljóst að þjálfarar íslenska landsliðsins þurfa að setjast niður og fara vandlega yfir málin.

Hentar leikskipulagið þeim leikmönnum sem íslenska liðið hefur úr að moða?

Hvers vegna skora tveir framherjar sænska liðsins þrjú mörk gegn þremur miðvörðum íslenska liðsins?

Er kominn tími til þess að fara aftur til fortíðar og leggja upp með aðra leikaðferð en hefur verið notuð að undanförnu?

Áhorfendur stóðu upp og fögnuðu á árum áður þegar íslenska liðið fékk horn eða innkast við endalínu. Áhorfendur fögnuðu vart glæsilegu marki Eiðs Smára í gær. Og hann gerði það reyndar ekki sjálfur. Kröfurnar eru meiri og stærri en áður.

Leikmenn íslenska liðsins virkuðu sem höfuðlaus her sem virkaði óöruggur og andlaus í öllum sínum aðgerðum.

Miðvallarleikmenn komust aldrei í það návígi sem þeir vildu við sænsku leikmennina á miðsvæðinu. Þegar bakverðir sænska liðsins fengu boltann þurftu Gylfi Einarsson og Jóhannes Karl Guðjónsson að hlaupa 20-30 metra út á kantinn til þess að setja pressu á boltamanninn. Svíarnir léku sér að því að senda boltann sín á milli á meðan Gylfi og Jóhannes hlupu úr sér lungun. Fín hlaupaæfing.

Ólafur Örn Bjarnason og Pétur Marteinsson náðu aldrei vel saman og Ólafur Örn virtist ekki vera með neitt sjálfstraust eftir fyrsta mark sænska liðsins.

Hermann Hreiðarsson hefur oft leikið mun betur en í gær og kunni ekki vel við sig í "hjartanu" á vörninni.

Kristján Örn Sigurðsson komst skammlaust frá sínu hlutverki en Hjálmar Jónsson var eini ljósi punkturinn í varnarlínu Íslands. Hann kom inn á sem varamaður á 25. mínútu eftir að Indriði Sigurðsson meiddist á höfði. Reyndar skoruðu Svíarnir fyrsta mark leiksins á meðan gert var að sárum Indriða og Hjálmar beið eftir því að komast inn á, en hann lét mikið að sér kveða.

Brynjar Björn Gunnarsson barðist að venju eins og ljón á miðjunni en skorti hraða gegn liprum leikmönnum Svía. Heiðar Helguson var lítið áberandi í framlínunni en Eiður Smári minnti á sig með glæsilegu marki en var annars í strangri gæslu varnarmanna.

Árni Gautur réð ekkert við skot sænska liðsins í markinu og varði vel í upphafi síðari hálfleiks.

Það virðist vera liðin tíð að íslenska landsliðið hræði líftóruna úr andstæðingum sínum á Laugardalsvelli - með baráttuna að vopni. Framganga íslenska liðsins í fyrri hálfleik var til skammar og maður spyr sig hvort sú kynslóð sem skipar íslenska liðið sé í undirmeðvitundinni "sátt" við sinn hlut hjá sínu félagsliði. Framtíðin gulltryggð með góðum samningum undanfarinna ára og landsliðið er því ekki lengur nauðsynlegur sýningargluggi og stökkpallur fyrir væntanlega atvinnumennsku. Hörð návígi, skallaeinvígi, tæklingar, horn- og aukaspyrnur hafa verið lifibrauð íslenskra knattspyrnumanna undanfarin ár. Og þann þátt þarf að endurvekja hjá íslenska landsliðinu - og er það verkefni stjórnar Knattspyrnusambandsins að finna réttu leiðina til þess.

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar