Björg Þorsteinsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir vatnslitamyndir sínar.
Björg Þorsteinsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir vatnslitamyndir sínar. — Morgunblaðið/ÞÖK
Björg Þorsteinsdóttir hlaut nýverið viðurkenningu fyrir vatnslitamyndir sínar á alþjóðlegri vatnslitamyndasýningu sem nú stendur yfir í Samogitianlistasafninu í Plunge í Litháen.

Björg Þorsteinsdóttir hlaut nýverið viðurkenningu fyrir vatnslitamyndir sínar á alþjóðlegri vatnslitamyndasýningu sem nú stendur yfir í Samogitianlistasafninu í Plunge í Litháen. Þátttakendur eru tæplega fjörutíu og verkin á sýningunni rúmlega eitt hundrað.

Alls fengu sjö listamenn viðurkenningu, "Diploma", og fékk Björg viðurkenninguna fyrir nýstárlega sýn á vatnslitina og hæfileika til að kanna möguleika þeirra.

Alþjóðlega vatnslitasýningin, "Liturinn, pappírinn, vatnið". ("The international watercolour exhibition. The colour, the paper, the water".) var opnuð 4. september sl. og mun standa fram í nóvember.

Hún er tileinkuð þekktum litháískum vatnslitamálara, Igno Budrio og er til minningar um hann. Budrio féll frá 1999 en hann hafði mikil áhrif á þessa listgrein í heimalandi sínu. Mörg verk Budrios eru varðveitt í Plunge og var sýningarstaðurinn valinn með það í huga.

Tilgangur sýningarinnar er að leggja áherslu á óvenjulega notkun vatnslita og stöðu þeirra í nútíma myndlist. Sýningin hefur vakið mikla athygli og aðsókn. Samband myndlistarmanna í Litháen "The Lithuanian Artist's Association" stóð fyrir sýningunni og bauð til þátttöku.