Björgólfur Jóhannsson
Björgólfur Jóhannsson
BJÖRGÓLFUR Jóhannsson, formaður LÍÚ, segir í tilefni yfirlýsingar áhafna nokkurra skipa í uppsjávarveiðiflotanum að munurinn á heildarlaunakostnaði útgerða íslenskra og erlendra uppsjávarveiðiskipa, sjáist best með því að bera saman það hlutfall af...

BJÖRGÓLFUR Jóhannsson, formaður LÍÚ, segir í tilefni yfirlýsingar áhafna nokkurra skipa í uppsjávarveiðiflotanum að munurinn á heildarlaunakostnaði útgerða íslenskra og erlendra uppsjávarveiðiskipa, sjáist best með því að bera saman það hlutfall af aflaverðmæti sem fer í laun til sjómanna. Fyrir liggi að launahlutfall á íslenska uppsjávarflotanum sé mun hærra en í þeim löndum sem sjómenn nefna í yfirlýsingu sinni, þ.e. í Færeyjum, Noregi og Danmörku.

"Á íslenska flotanum er hlutfallið um 35% en 22-27,5% í samanburðarlöndunum. Íslenskir sjómenn fá því mun hærra hlutfall aflaverðmætis í sinn hlut en sjómenn í áðurnefndum löndum.

Þessi munur er m.a. vegna þess að mönnun skipanna er mismunandi, þannig að mun fleiri eru um borð í íslensku skipunum en í hinum erlendu. Laun einstakra erlendra sjómanna geta verið hærri en íslenskra, þótt heildarlaunakostnaður erlendu útgerðanna sé mun lægri.

Það er ánægjulegt að sjómenn á uppsjávarveiðiskipunum sjái færi á að fækkað sé í áhöfn skipanna. Fyrir liggur vilji útvegsmanna til þess að ágóðanum af fækkun í áhöfn verði skipt á milli útgerðarmanna og sjómanna, báðum til hagsbóta.

Í samningum sjómanna á uppsjávarveiðiskipum eru ákvæði sem tryggja þeim ákveðin frí, en ekki er skilyrði að skip sé stöðvað á meðan einstaka sjómenn taka sín frí. Það er því ekki rétt sem haldið er fram að útvegsmenn hafi afnumið hafnarfrí.

Varðandi löndun á afla er fullyrðingin að hluta til rétt, en dæmi eru um að sjómenn í Noregi, Danmörku og Færeyjum landi sjálfir aflanum."