Tvær tillögur liggja nú fyrir Alþingi, sem varða ráðherra og þingmenn. Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks, hefur lagt fram lagafrumvarp þess efnis, að gegni þingmaður ráðherrastarfi taki varamaður hans sæti á Alþingi á meðan.

Tvær tillögur liggja nú fyrir Alþingi, sem varða ráðherra og þingmenn. Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks, hefur lagt fram lagafrumvarp þess efnis, að gegni þingmaður ráðherrastarfi taki varamaður hans sæti á Alþingi á meðan. Rökin að baki slíkri tillögu eru væntanlega þau, að nauðsynlegt sé að hafa kjörna þingmenn eða ígildi þeirra í fullu starfi við löggjafarstarfsemi.

Össur Skarphéðinsson og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram á Alþingi tillögu þess efnis, að nýtt atvinnuvegaráðuneyti komi í stað þeirra, sem fyrir eru og segja má að séu fjögur. Yrði sú tillaga samþykkt er fyrirsjáanlegt að ráðherrum mundi fækka.

Morgunblaðið hreyfði svipuðum hugmyndum í leiðara hinn 19. ágúst sl. og Samfylkingin hefur nú lagt fram tillögu um á Alþingi. Þá var bent á, að mjög hefði dregið úr umsvifum þeirra ráðuneyta, sem fjalla um málefni atvinnuveganna. Ástæðan er einfaldlega sú, að opinberir aðilar hafa ekki sömu afskipti af málefnum atvinnuveganna og áður tíðkaðist og var talið nauðsynlegt. Þess vegna má spyrja í alvöru, hvort ráðherrastarf í þeim einstöku atvinnuvegaráðuneytum, sem nú eru til staðar, sé í raun og veru fullt starf.

Ástæða er til að fagna því að tillaga um þetta efni er komin fram á Alþingi. Þingið á að ræða hana af alvöru.

Siv Friðleifsdóttir og meðflutningsmenn hennar virðast hins vegar vera þeirrar skoðunar, að störf þingmanna hafi aukizt svo mjög, að nauðsynlegt sé að taka upp þann hátt, að varaþingmenn komi inn á þing í stað þeirra, sem hverfa til starfa í ríkisstjórn.

Í fyrrnefndri forystugrein Morgunblaðsins í ágústmánuði sl. var á það bent, að sú þjóðfélagsþróun, sem hefur haft þau áhrif, að ekki sé endilega nauðsynlegt að hafa sérstakan ráðherra yfir ráðuneyti hverrar atvinnugreinar um sig, hefði líka haft áhrif á starfsvettvang þingmanna. Siv og félagar hennar telja nauðsynlegt að hafa ígildi kjörinna þingmenn í fullu starfi. Morgunblaðið spyr hins vegar hvort til greina komi að fækka þingmönnum verulega. Siv telur ástæðu til að skoða þann möguleika. Í eina tíð höfðu þingmenn mikla fyrirgreiðslu við kjósendur með höndum. Það er liðin tíð. Hins vegar má segja, að nú orðið séu meiri kröfur gerðar til gæða löggjafar. En er nauðsynlegt að hafa svo marga þingmenn til þess að tryggja þau gæði? Getur ekki komið til greina að fækka þingmönnum verulega en bæta starfsaðstöðu færri þingmanna mjög og fjölga aðstoðarmönnum þeirra?

Það er ástæða til að þingmenn ræði þessa hlið á málinu líka,