Verk eftir Peace, Piazzolla og Albéniz. James Peace píanó. Laugardaginn 9. október kl. 20.

Aðeins sólarhring eftir fyrri af tvennum tónleikum í Norræna húsinu um síðustu helgi hrapaði aðsóknin úr húsfylli niður í átta manns. Sem endranær veit enginn hvað dró fyrst að, né heldur hvað fældi síðar frá. Nema hvað laugardagskvöld hafa jafnan þótt vonlítil til tónleikahalds, og svo sem ekki vandskilið hvers vegna.

Skozki píanóleikarinn James Peace (f. 1963), er leikið hefur og kennt í Þýzkalandi síðan 1991, var hér á ferð um daginn í leikför um Noreg og Ísland og hafði í farteski suðræna tangótónlist eftir Isaac Albéniz og Astor Piazzolla, en þó enn meira eftir sjálfan sig - 13 stykki af alls 18. Er slíkt næsta fáséð á píanótónleikum í dag og minnti óneitanlega á löngu liðna tíma, þegar flestir kompónistar voru píanistar og nánast enginn píanisti ekki jafnframt kompónisti. Hefði fornri venju verið fylgt út í hörgul hefði einnig verið boðið upp á spuna, líkt og altítt var fram á seinni helming 19. aldar. Því var þó ekki að heilsa að sinni.

Svo tekin séu fyrst verkin eftir kunnari höfunda voru tvö eftir Astor Piazzolla; hið alþekkta Escualo og síðan Adiós Nonino. Albéniz átti hjartnæman Tangó Op. 165 nr. 2 og frekar svæfandi (a.m.k. hvað flutning varðar) Serenötu, en hins vegar dásprækan Tangó nr. 2 úr Op. 164. Verk píanistans voru á svipuðum nótum; að vonum misjafnlega hrífandi en samt þokkalega skrifuð og spönnuðu frá skyndiörstykkjum upp í allviðamikil verk. Að stíl hefðu flest þeirra getað verið samin á tímabilinu 1870-1920, en þó að sum létu nokkuð lýtast af klisjum, voru innan um áheyrilegar tónsmíðar með töluverða tilhöfðun.

Píanóleikurinn var víða skapþrunginn við hæfi, en ósjaldan frekar harður í efri enda styrkskalans og á köflum jafnvel groddalegur. Hefði það út af fyrir sig sómt sér ágætlega í tangósveit undir dansi, en síður í einleikskonsertflutningi - jafnvel þótt auðheyrð innlifun skozka píanistans bætti fyrir ýmsa fágunarlega vankanta.

Ríkarður Ö. Pálsson