Það er ekkert ákaflega algengt að stjórnarandstöðuþingmenn knúsi ráðherra ríkisstjórnarinnar í þingsölum.

Það er ekkert ákaflega algengt að stjórnarandstöðuþingmenn knúsi ráðherra ríkisstjórnarinnar í þingsölum. Það átti sér þó stað er Rannveig Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra féllust í faðma á Alþingi í fyrradag - og var full ástæða til. Menntamálaráðherra tilkynnti í utandagskrárumræðum, sem Rannveig hafði farið fram á, að ríkisstjórnin hefði samþykkt tillögu hennar um að hækka fjárveitingu til túlkaþjónustu heyrnarlausra um tvær milljónir á þessu ári og úr fjórum milljónum í tíu á fjárlögum næsta árs.

Þetta er sú upphæð sem Félag heyrnarlausra hefur talið að þyrfti til að heyrnarlausir gætu fengið táknmálstúlkun í daglegu lífi. Í Morgunblaðinu í gær sagði Hafdís Gísladóttir, framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra, að ákvörðun menntamálaráðherra væri tímamótaskref í sögu heyrnarlausra. "Það [félag heyrnarlausra] á eftir að minnast þessa dags lengi," sagði Hafdís og benti á að þetta væri í fyrsta sinn sem tekin væri ákvörðun um hvernig haga ætti túlkaþjónustu heyrnarlausra í daglegu lífi.

Eins og sagði hér í leiðara blaðsins á þriðjudaginn er ákvörðun um að verja nægilegu fé til túlkaþjónustu heyrnarlausra ekki fyrst og fremst spurning um hagkvæmni og peninga, heldur um manngildi. Með ákvörðun sinni hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir stigið mikilvægt skref í átt til þess að viðurkenna rétt heyrnarlausra til fullrar þátttöku í samfélaginu. Hún hefur tekið af skarið í máli, sem alltof lengi hefur velkzt í kerfinu og verið viðfangsefni hverrar nefndarinnar á fætur annarri án niðurstöðu. Stundum þarf ekki annað en eina manneskju, sem er óhrædd við að taka ákvarðanir, til að leysa slík mál. Þorgerður átti faðmlagið skilið.