Símon Hjaltason
Símon Hjaltason
Símon Hjaltason fjallar um utanríkisstefnuna: "Innrásin í Írak var rugl, og Halldór Ásgrímsson hefur verið að reyna að rugla sér leið út úr vandræðunum í rúmt ár."

Á FÖSTUDAGINN, 17. september sl., gerðist tvennt athyglisvert: Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði blekkingar hafa verið viðhafðar af BNA og bandamönnum þeirra í aðdraganda Íraksstríðsins, og Halldór Ásgrímsson hóf forsætisráðherratíð sína á því að detta um tungu sína. Viðbrögð hans við ummælum Annans voru þau að hann vildi ekki gangast við því að hafa verið blekktur, en þó hafi þær upplýsingar sem hann hafði fengið ekki staðist.

Hvers konar röksemdafærsla er þetta? Er það sem sagt ekki blekking að gefa rangar upplýsingar? Þetta ætti Halldór aðeins að skoða. Og ef hann á við að hann hafi fengið "bestu upplýsingar sem fáanlegar voru á þeim tíma" fellur það á dauf eyru. Það vita allir sem hafa kynnt sér málið að þessi fullyrðing stenst ekki.

Bandaríkjaforseti sagði á sínum tíma að Saddam Hussein ætti risahlöss ("massive stockpiles") af gereyðingarvopnum. Þar var hann að ýkja niðurstöður NSE-skýrslu CIA ("National Security Estimate"), en í henni stóð aðeins að Saddam hefði á borðum áætlanir um vopnaframleiðslu. Höfundar þeirrar skýrslu voru þar reyndar líka að ýkja þær vísbendingar sem þeir höfðu, enda hefur síðan komið á daginn að engin gereyðingarvopn er að finna í Írak. En fyrir utan þennan ýkjusnjóbolta, og marga fleiri, sem Bush hnoðaði ásamt leyniþjónustu sinni, varð hann oftar en einu sinni uppvís að helberri lygi. Hann fullyrti m.a. að Saddam Hussein hefði keypt úraníum af Nígeríumönnum, en þessa ásökun voru hans eigin menn þó búnir að rannsaka og afskrifa áður en hann hélt ræðuna.

Í ljósi þessa finnst mér skiljanlegt að Halldór Ásgrímsson vilji ekki að við "dveljum við fortíðina" og tölum um það sem er "búið og gert", en því miður fyrir hann er þetta mál síður en svo útrætt. Ef hann heldur að hægt sé að bendla lýðræðisríki við ólöglegt árásarstríð án þess að þurfa að svara fyrir það, þá veit hann ekki hvað "lýðræði" þýðir. Og ef hann telur sig geta losnað við þessa umræðu með þeirri þreyttu röksemd að Írakar séu "betur settir án Saddams", þá ætti hann að fylgjast með fréttum af þeim hörmungum sem nú eru daglegt brauð í Írak, en voru ekki til staðar undir harðstjórn Saddams. Sá var að vísu enginn fyrirmyndarleiðtogi, en fyrir innrásina skorti þó fáa hinar brýnustu nauðsynjar eins og vatn og rafmagn, og engin borgarastyrjöld geisaði.

Nei, það er sama hvað nýbakaður forsætisráðherra veinar og vælir; við ætlum ekki að sópa þessu ljóta máli út á gangstétt svo að við getum labbað ofan í það aftur síðar. Reyndar eru það fleiri en hann sem vilja þagga niður í gagnrýnisröddum, og margir eru mikið ruddalegri en hann; Bandaríkjamenn sem lýsa sig andsnúna þessari öfgakenndu utanríkisstefnu eru jafnan útmálaðir föðurlandssvikarar. George Orwell hitti aldeilis naglann á höfuðið þegar hann sagði að á tímum alheimsblekkingar yrði sannsögli að byltingarverknaði. Innrásin í Írak var rugl, og Halldór Ásgrímsson hefur verið að reyna að rugla sér leið út úr vandræðunum í rúmt ár. Nú er mál að ruglinu linni.

Símon Hjaltason fjallar um utanríkisstefnuna

Höfundur er tónlistarmaður.