Sveinn Einarsson
Sveinn Einarsson
SVEINN Einarsson var nýverið heiðraður af menningarmálaráðherra Frakklands, Renaud Donnedieu de Vabres, en Sveinn var verkefnisstjóri hinnar viðamiklu íslensku menningarkynningar sem hófst í París þann 27. september og lauk síðastliðinn sunnudag.

SVEINN Einarsson var nýverið heiðraður af menningarmálaráðherra Frakklands, Renaud Donnedieu de Vabres, en Sveinn var verkefnisstjóri hinnar viðamiklu íslensku menningarkynningar sem hófst í París þann 27. september og lauk síðastliðinn sunnudag. Á lokakvöldinu, þar sem Kammersveit Reykjavíkur lék í Mogador-tónlistarhöllinni í París, var Sveini veitt orða við litla athöfn, sem útnefnir hann "officier de l'Ordre des arts et lettres".

Það var fulltrúi menningarmálaráðherra Frakka, Bernard Paumier, sem afhenti Sveini orðuna og hélt hann ræðu við tækifærið.

Orðuna hlaut Sveinn annars vegar fyrir framlag sitt til íslensku menningarkynningarinnar, og hins vegar fyrir ýmis önnur menningarstörf á alþjóðavettvangi, sérstaklega menningartengsl milli Íslands og Frakklands.

"Mér finnst þetta að sjálfsögðu mikill heiður. Þegar erlendar þjóðir sýna manni slíkan virðingarvott tekur maður það ekki bara til sín, heldur til Íslendinga til heildar, sérstaklega þeirra sem hafa unnið að þessari menningarkynningu. Ég lít svo á að ég hafi tekið við henni fyrir hönd okkar allra sem að henni stóðum, bæði heima og hér úti.

En mér þótti líka vænt um að þess var getið að ég hefði eitthvað unnið til þessa á öðrum sviðum líka," sagði Sveinn í samtali við Morgunblaðið og bætti við að þar sem hann hefði verið Frakklandsvinur frá unga aldri væri það honum tvöföld ánægja að taka við viðurkenningunni.