— Reuters
RÉTTARMEINAFRÆÐINGAR sem unnið hafa að rannsóknum í Írak hafa fundið a.m.k. 120 lík í fjöldagröf í norðurhluta landsins en talið er að hún hafi einkum að geyma lík kvenna og barna.

RÉTTARMEINAFRÆÐINGAR sem unnið hafa að rannsóknum í Írak hafa fundið a.m.k. 120 lík í fjöldagröf í norðurhluta landsins en talið er að hún hafi einkum að geyma lík kvenna og barna. "Ég hef aldrei séð neitt í líkingu við þetta á þeim tíma sem ég hef unnið að uppgreftri fjöldagrafa," sagði Bandaríkjamaðurinn Greg Kehoe, sem stýrt hefur rannsóknum nálægt bænum Hatra, skammt sunnan við Mosul. Eitt líkanna er af litlum dreng sem heldur enn á knetti sem hann hélt á er hann var drepinn.

Talið er að líkin hafi legið í ómerktri gröfinni frá því 1987 og/eða 1988 en þá lét Saddam drepa hundruð Kúrda í því skyni að berja niður alla mótspyrnu gegn stjórn sinni. "Þessum líkum var einfaldlega ýtt hér ofan í. Þetta voru allt konur og börn, engir karlar. Allt þetta fólk var skotið til bana," sagði Kehoe sem á myndinni sést sýna blaðamönnum fjöldagröfina.

Ljóst þykir að fleiri fjöldagrafir eru á þessu svæði og líkin gætu því verið mun fleiri. Má nefna sem dæmi að talið er að 5.000 manns hafi dáið í eiturgasárás herja Saddams á borgina Halabja 1988.

Kehoe sagði fjárskort valda því að teymi hans sæktist vinnan seint. Hann sagði að reyndir réttarmeinafræðingar frá Evrópu, sem m.a. hafa unnið sambærileg störf í Bosníu, væru tregir til að koma til Íraks, enda óttuðust þeir að vinna þeirra myndi auka líkurnar á því að Saddam yrði látinn sæta dauðarefsingu - en sem kunnugt er hefur Evrópusambandið úthýst dauðadómum úr evrópsku réttarkerfi.