George W. Bush
George W. Bush
Í Bandaríkjunum er farið að sýna mynd um George W. Bush Bandaríkjaforseta og virðist hún hugsuð sem mótvægi við "Fahrenheit 9/11", mynd Michaels Moores.

Í Bandaríkjunum er farið að sýna mynd um George W. Bush Bandaríkjaforseta og virðist hún hugsuð sem mótvægi við "Fahrenheit 9/11", mynd Michaels Moores. Í henni er Bush lýst sem nýmóðins Messíasi, sem berst hinni góðu baráttu gegn því illa á jörðinni.

"George W. Bush: Trúarsannfæring í Hvíta húsinu" heitir myndin og er eins og biblíuleg frásögn af þroskaferli forsetans. Segir fyrst frá honum sem ungum og ráðvilltum manni, sem hallaði sér að flöskunni, eða þar til hann rís upp endurfæddur og tekur að sér forystuna í stríðinu við hin illu öfl.

Er Bush ekki aðeins lýst sem trúuðum forseta, heldur manni, sem guð hafi falið að vinna verk sín hér á jörð. Sést hann oft ásamt mynd af Jesú Kristi og að því er segir í New York Times, er stefið ekki síst baráttan gegn hryðjuverkum og Íraksstríðið.

"Ég held ekki, að Bush hafi ráðist inn í Írak vegna gereyðingarvopna, heldur vegna þess, að hann komst að þeirri niðurstöðu, að Saddam Hussein væri vondur maður," sagði höfundur bókarinnar "Trúarsannfæring George W. Bush" í viðtali við blaðið.

Hefur myndin verið sýnd á mörgum kristnum sjónvarpsstöðvum í Bandaríkjunum og nokkur hægrisinnuð samtök ætla að dreifa 300.000 eintökum af henni til kirkna í landinu.