BRESKIR vísindamenn telja að tungumálanám "efli" heilann, að því er fram kemur á fréttavef BBC . Vísindamenn við University College í London rannsökuðu heila 105 manna og 80 þeirra voru tvítyngdir.

BRESKIR vísindamenn telja að tungumálanám "efli" heilann, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

Vísindamenn við University College í London rannsökuðu heila 105 manna og 80 þeirra voru tvítyngdir.

Rannsóknin leiddi í ljós að tungumálanám breytti svokallaðri gráfyllu, svæði í heilanum sem vinnur úr upplýsingum, með svipuðum hætti og líkamsæfingar styrkja vöðvana. Fólk, sem var mjög ungt þegar það lærði annað tungumál, var líklegra til að vera með þróaðri gráfyllu en þeir sem lærðu síðar.

Vísindamennirnir tóku myndir af heila 25 Breta sem töluðu aðeins ensku, 25 sem lærðu annað evrópskt mál áður en þeir urðu fimm ára, 33 Breta sem lærðu annað mál á aldrinum 10-15 ára og 22 Ítala sem lærðu ensku.

Rannsóknin leiddi í ljós að þéttleiki gráfyllunnar var meiri í heila tvítyngda fólksins en í þeim sem kunnu aðeins ensku og mestur í þeim sem lærðu annað tungumál áður en þeir urðu fimm ára.