ÁRNI Magnússon félagsmálaráðherra beindi þeim tilmælum til aðila vinnumarkaðarins á Alþingi í gær að þeir sæju til þess að kjarasamningar yrðu gerðir um störf blaðbera. "Þeim væri sómi að því.

ÁRNI Magnússon félagsmálaráðherra beindi þeim tilmælum til aðila vinnumarkaðarins á Alþingi í gær að þeir sæju til þess að kjarasamningar yrðu gerðir um störf blaðbera. "Þeim væri sómi að því." Kom þetta fram í svari hans við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um kjör og vinnuskilyrði blaðbera.

Ráðherra sagði að einhverra hluta vegna virtist sem engir kjarasamningar hefðu, lengi vel, verið í gildi hjá aðilum vinnumarkaðarins sem tækju til starfa blaðbera. "Hins vegar hefur verið gerð bragarbót á þessu því Verzlunarmannafélag Reykjavíkur og Landssambands íslenskra verzlunarmanna annars vegar og Samtök atvinnulífsins vegna Árvakurs hf. hins vegar hafa gert með sér sérkjarasamning sem gildir fyrir starfsmenn fyrirtækisins sem starfa við blaðburð. Fagna ég þessu framtaki aðila en um leið vil ég að það liggi fyrir að ég tel það ekki til fyrirmyndar að þau fyrirtæki sem hafa látið hjá líða að gera slíka samninga skuli láta svo vera. Á þetta ekki síst við þegar um ungmenni er að ræða," sagði hann.

Í ólestri ár eftir ár

"Ég hef engar valdheimildir í krafti embættis míns sem félagsmálaráðherra að skylda samtök aðila vinnumarkaðarins til gerðar á almennum kjarasamningi sem næði til alls blaðburðarfólks. Ég vil þó engu að síður nota þetta tækifæri til að hvetja aðila vinnumarkaðarins, sem og önnur þau fyrirtæki sem í hlut eiga, til að gera með sér kjarasamning, sem ætlað væri að kveða á um kaup og kjör blaðburðarfólks, hvort sem um væri að ræða almennan kjarasamning eða sérkjarasamninga."

Jóhanna Sigurðardóttir sagði m.a. í þessari umræðu að kjör og vinnuskilyrði blaðbera hefðu ár eftir ár verið í ólestri. "Það er ágætt," sagði hún, "að hér úr þessum ræðustól komi hvatning frá hæstvirtum ráðherra til aðila vinnumarkaðarins um að taka nú þegar á þessu máli. Það gengur ekki að ár eftir ár séu þessi mál í ólestri."