Sniðugt: Smíðar m.a. trommur úr álfelgum.
Sniðugt: Smíðar m.a. trommur úr álfelgum. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Geir Jóhannsson trommuleikari hefur alla tíð hrifist af handverki hvers konar. Nú smíðar hann trommur úr óvenjulegu efni, þó aðallega sneriltrommur úr álfelgum. "Það er aðallega eðlislægt fikt sem kom mér út í þessa smíði," sagði Jón Geir.

Jón Geir Jóhannsson trommuleikari hefur alla tíð hrifist af handverki hvers konar. Nú smíðar hann trommur úr óvenjulegu efni, þó aðallega sneriltrommur úr álfelgum.

"Það er aðallega eðlislægt fikt sem kom mér út í þessa smíði," sagði Jón Geir.

"Er ekki draumur hvers hljóðfæraleikara að smíða sín eigin hljóðfæri?

Þetta tvennt og tilviljun réð því að fyrsta tromman af þessu tagi varð til. Álfelgur eru afar misjafnar og ég hef prófað að nota ýmsar gerðir. Þær eru mismunandi stórar og þykkar og líklega hef ég hent helmingnum af þeim sem ég hef prófað." Jón Geir spilar enn á fyrstu trommuna sem hann smíðaði og óneitanlega vekur trommusettið hans mikla athygli.

"Já, það er mjög sérstakt að mörgu leyti. Bassatromman er til dæmis búin til úr pappatunnu sem ég fékk á Sólheimum í Grímsnesi. Hún er einn og hálfur metri að lengd og minnir helst á fallbyssu. En það er ekki bara lagið á settinu sem vekur athygli heldur hef ég eytt miklum tíma í lakkvinnuna. Trommusettið mitt er til dæmis gyllt með glimmeri og óneitanlega vakna margar spurningar hjá þeim sem sjá það og hafa á annað borð áhuga á trommum."

Föndrið svínvirkar

Jón Geir segir þessa smíði vera sitt föndur. Hann hafi alla tíð dáðst að handverki og öfundað fólk sem hefur getað unnið við hvers konar handverk. "Það er skemmtilegt að þetta föndur mitt skuli svínvirka," segir hann. "Ég komst fljótlega að því að álið er mjög skemmtilegur efniviður í trommur. Þetta er mjúkur málmur og hefur viðarkenndari hljóm en aðrir málmar. Svo hefur þetta stundarglasform sem er á felgunum heilmikið að segja. Ég læt það halda sér en renni kantinn í burtu."

Eftir að hafa verið trommari í nokkrum hljómsveitum og unnið í trommuverslun þekkir Jón Geir marga trommuleikara. Hann segist hafa verið óspar á að leita álits hjá þeim.

"Ég fékk nokkra til að prófa trommur frá mér og það var mér mikils virði að heyra hversu ánægðir þeir voru en jafnframt gáfu þeir mér góðar ábendingar sem ég tek tillit til við smíðina."

Jón Geir er byrjaður að selja trommur en fyrsta tromman sem hann seldi hefur verið í stanslausri útleigu. Hann hefur einnig verið í sambandi við trommara í útlöndum í gegnum Netið.

"Ég held að ég sé fyrsti trommusmiðurinn hér á landi sem hefur smíðað trommur til að selja. Mig langar til að nota Netið í þeim tilgangi að koma trommunum á framfæri. Ég hef þegar orðið var við áhuga á trommunum mínum meðal annars vegna þess að þær eru gerðar úr endurunnum bílfelgum. Það fer sérstaklega vel í Bandaríkjamenn."

Á næstunni ætlar Jón Geir að kynna trommurnar sínar í Hljóðfærahúsi Reykjavíkur þar sem fólk getur skoðað "föndrið" hans með eigin augum.

asdish@mbl.is