Þykki horinn græni og hræðilegur óvættur var meðal þess sem Marta G. Halldórsdóttir söng um á tónleikum í Listasafni Sigurjóns á sunnudaginn var. Það var svo sannarlega ólystugt, en engu að síður sjarmerandi, því tónlistin var ljóðræn og á köflum fyndin; hefði jafnvel sómt sér ágætlega í Disneymynd. Lögin voru úr lagaflokknum Búðin hans Mústafa (texti úr samnefndri bók eftir Jakob Martin Strid) og voru eftir Gunnstein Ólafsson; sérlega líflegar tónsmíðar; tilgerðarlausar og grípandi, án þess að vera ódýrar. Tónmálið var hefðbundið - en hver segir að nútímatónlist þurfi alltaf að vera torskilin? Örn Magnússon píanóleikari spilaði með Mörtu og gerði það ákaflega vel; áslátturinn var hlýlegur og mjúkur og hann fylgdi söngkonunni fullkomlega. Voru tónleikarnir á vegum Tónskóla Sigursveins í tilefni 40 ára afmælis skólans fyrr á árinu.
Á efnisskránni var bæði íslensk og erlend tónlist; þar á meðal lög eftir Gunnar Reyni Sveinsson sem nefnast Fimm númer á íslenskum þjóðbúningi. Þau voru fremur ofhlaðin; vissulega byggð á ágætum hugmyndum, en úrvinnslan var of tilgerðarleg, eins og tónskáldið hefði ekkert að segja - en vildi samt segja eitthvað djúpviturt og merkilegt. Hugsanlega hefðu bæði söngkonan og píanóleikarinn átt að draga aðeins úr belgingnum í tónlistinni.
Annað á efnisskránni var yfirleitt prýðilegt, en það voru lög eftir Mozart, Haydn og Mendelssohn. Reyndar hentar skær, jafnvel hvöss rödd Mörtu best endurreisnar- og barokktónlist, auk þess sem hún þarf meiri endurómun til að njóta sín, en mögnuð túlkunin bætti upp fyrir tæknilega annmarka. Neue Liebe eftir Mendelssohn, sem fjallar um hrollvekjandi álfareið í tunglskininu í skóginum, var t.d. einstaklega áhrifamikið, ekki síst fyrir tilstilli Arnar; maður gat bókstaflega heyrt hófadyninn í glæsilegum píanóleiknum.
Þetta voru skemmtilegir tónleikar með innblásnu listafólki og hafi ég ekki gert það þá óska ég Tónskóla Sigursveins til hamingju með afmælið.
Jónas Sen