Húsið rifið Reiknað er með að um tvær vikur taki að rífa húsið.
Húsið rifið Reiknað er með að um tvær vikur taki að rífa húsið. — Morgunblaðið/Kristinn
Vesturbær | Verið er að rífa hús Járnsteypunnar við Ánanaust til að rýma fyrir íbúðarhúsnæði sem sérstaklega verður hannað fyrir fólk á efri árum, þar sem hægt verður að bjóða upp á hjúkrunarþjónustu.

Vesturbær | Verið er að rífa hús Járnsteypunnar við Ánanaust til að rýma fyrir íbúðarhúsnæði sem sérstaklega verður hannað fyrir fólk á efri árum, þar sem hægt verður að bjóða upp á hjúkrunarþjónustu.

Starfsemi Járnsteypunnar fluttist úr húsinu í nýtt húsnæði í Garðabæ um áramót, en vinna við niðurrif hússins hófst ekki af fullum krafti fyrr en fyrir stuttu. Sveinbjörn Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri Sveinbjörns Sigurðssonar byggingarverktaka, segist reikna með að um tvær vikur taki að rífa húsið, en það var byggt upp úr 1940.

Sveinbjörn segir að vonir standi til að hægt verði að byrja að byggja á reitnum í kringum áramót, en eftir er að fullvinna skipulag og fá það samþykkt hjá Reykjavíkurborg. Hann segir að þarna muni rísa fjölbýlishús sem verði sérstaklega sniðið að þörfum fólks sem komið er yfir fimmtugt, og miðað verði við að öll þjónusta verði í húsinu til að hægt sé að eyða ævikvöldinu án þess að þurfa að flytja. Hann segir að ef allt gangi að óskum megi reikna með að húsin verði tilbúin árið 2007 eða 2008.

Hjúkrunaraðstaða í húsinu

"Þetta verður íbúðablokk með hjúkrun á neðstu hæðum [...] og félagslegri þjónustu. Það er miðað við að fólk sem fer þarna inn sé sjálfstætt, það ráði sínum ellilífeyri sjálft og greiði fyrir sína þjónustu, og greiði meira eða minna eftir því hversu mikla þjónustu það vill," segir Sveinbjörn. "Það er gífurleg þörf fyrir húsnæði af þessu tagi, það verður einkaframkvæmd á hjúkruninni, svo það er bara verið að létta undir með skattgreiðendum. Svo ég ætla bara að vona að þetta gangi."