Guðmundur Kristjánsson
Guðmundur Kristjánsson
Guðmundur Kristjánsson skrifar um Sólbaksdeiluna: "Almennt virðist sem hvorki launþegar né atvinnurekendur hafi áttað sig á því að hér á landi er félagafrelsi."

AÐ undanförnu hefur margt verið rætt og ritað um svokallaða Sólbaksdeilu. Oft hefur mér fundist umræðan vera afvegaleidd og aðalatriðum málsins vikið til hliðar. Mér þykir því rétt að draga hér fram um hvað þessi deila í rauninni snýst.

Hinn hefðbundni ísfiskskuttogari á Íslandi þarf að stoppa 30 klukkustundir eftir hverja veiðiferð. Útgerð og skipverjar á Sólbak fóru fram á við stéttarfélög skipverja að skipið fengi að fara á veiðar strax að löndun lokinni, gegn því að skiptiáhöfn væri á skipinu. Þannig var við það miðað að í hverjum mánuði reri hver skipverji ca 20 daga og fengi 10 daga frí. Því miður neituðu stéttarfélög sjómanna þessari ósk okkar. Annað atriði, sem útgerðin og skipverjarnir vildu breyta, var að fá einn launaseðil fyrir hvern mánuð í staðinn fyrir uppgjör eftir hverja veiðiferð. Þetta töldu bæði skipverjar og útgerð til hagsbóta fyrir báða aðila.

Áttum við einhvern annan möguleika? Svarið er já. Og það er stóra málið. Almennt virðist sem hvorki launþegar né atvinnurekendur hafi áttað sig á því að hér á landi er félagafrelsi. Það er ákvörðun hvers launþega hvort hann kýs að vera í stéttarfélagi og að sama skapi er það ákvörðun hvers atvinnurekanda hvort hann er í samtökum atvinnurekenda. Sjómenn á Sólbaki EA kusu að vera utan stéttarfélaga og Brim hf. stofnaði Útgerðarfélagið Sólbak ehf., sem er utan félags atvinnurekenda.

Í þessu sambandi er rétt að vísa til 74. greinar stjórnaskrár Íslands, en þar segir orðrétt:

"Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi. Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra."

Þá er rétt til frekari upplýsingar að vísa til 1. greinar laga númer 55 frá 1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda:

"Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir." (Samanber lög nr. 50 frá 1980 um félagafrelsi).

Forustumenn stéttarfélaga höfðu strax uppi stór orð og því miður féll miðstjórn ASÍ í þá gildru að álykta um málið án þess að kynna sér alla málavexti. Allt tal um hótanir og atvinnumissi er úr lausu lofti gripið eins og margoft hefur komið fram í fjölmiðlum síðustu daga. Það er alvarlegt mál þegar jafn virt og stór samtök og ASÍ og Starfsgreinasambandið fara fram með slíku offorsi eins og gerst hefur í Sólbaksmálinu. Hvatt er til ólöglegra aðgerða og beitt þeirri gömlu úreltu aðferð að stoppa vinnustaðinn án þess að hafa til þess lagalegan rétt.

Allt tal um að sjómenn á þessu ákveðna skipi vinni undir lágmarkskjörum er úr lausi lofti gripið. Það var alveg skýrt þegar sjómenn á Sólbaki undirrituðu ráðningarsamning við útgerðina að við það var miðað að þeir væru á betri kjörum en almennir kjarasamningar ákvarða. Væri eitthvað í þeirra ráðningarsamningi undir lágmarkskjörum þá yrði það leiðrétt. Þetta hefur alltaf verið alveg skýrt í hugum bæði sjómannanna og útgerðarinnar. Sem betur fer er ennþá til traust milli launþega og atvinnurekenda í sjávarútvegi á Íslandi.

Er Sólbaksmálið til þess fallið að vega að skipulagi á íslenskum vinnumarkaði? Svarið er nei. Á íslenskum vinnumarkaði er einfaldlega frelsi um að vera innan eða utan stéttarfélaga og innan eða utan félags atvinnurekenda og semja um kaup og kjör innan ramma laga á hverjum tíma. Undirritaður hefur síður en svo á móti skipulögðum vinnumarkaði og að fólk og fyrirtæki séu í samtökum, hvort sem það eru stéttarfélög eða atvinnurekendafélög. En forustumenn þessara félaga verða að gæta sín að fjarlægjast ekki of mikið sína félagsmenn og grasrótina. Þessi félög eiga að sinna þörfum félagsmanna og átta sig á því að þjóðfélagið er á fleygiferð og er síbreytilegt. Þarfir félagsmanna eru sífellt að breytast í takt við tímann.

Í Sólbaksmálinu kristallast þetta einmitt. Sjómenn vildu ákveðna leiðréttingu á sínu vinnuumhverfi sem við töldum ekki skaða neinn en er aftur á móti til mikilla hagsbóta fyrir áhöfn og útgerð. Það er félagafrelsi á Íslandi. Lýðræðið verður að virka á báða vegu í okkar samfélagi. Félög og einstaklingar geta valið um að vera í félagasamtökum eða vera ekki í félagasamtökum.

Guðmundur Kristjánsson skrifar um Sólbaksdeiluna

Höfundur er útgerðarmaður.