Bolli Thoroddsen
Bolli Thoroddsen
Bolli Thoroddsen skrifar um stjórnmálaskóla Heimdallar: "Þannig styrkjum við grundvöll lýðræðisins, sem er orðið tómt án virkrar þátttöku fólks."

NÆSTKOMANDI laugardag kl. 13.00 býðst ungu fólki að taka þátt í fjölbreyttri fræðslu og umræðu um stjórnmál samtímans undir yfirskriftinni: Stjórnmál skipta máli. Að dagskránni standa Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, og Sjálfstæðisflokkurinn. Þar munu forystumenn flokksins m.a. þau Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður og borgarfulltrúi, Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi, Ragnheiður Elín Árnadóttir aðstoðarmaður ráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, ásamt okkur sem stýrum starfi Heimdallar, fræða og ræða við þátttakendur um stjórnmál líðandi stundar: Um stefnu og starf Sjálfstæðisflokksins og Heimdallar, hvernig er hægt að taka þátt og hafa áhrif? Um menntun ungs fólks og þau atvinnutækifæri sem hún skapar. Um hlutverk hins opinbera og hvernig farið er með skattfé almennings. Í málstofum málefnanefnda Heimdallar verður rætt um efnahags- og atvinnumál, borgarmálefni, jafnréttismál og mannréttindi, skólamál og fleira sem brennur á ungu fólki. Við munum enda með samræðum við starfsfólk bandaríska sendiráðsins um komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum og áhrif Írakstríðsins, en eftir það fáum við okkur léttan kvöldverð saman. Allir eru velkomnir og er þátttaka ókeypis. Nánari upplýsingar og skráning á www.heimdallur.is.

Starf Heimdallar: Opið, upplýsandi og skemmtilegt

Við sem nú stýrum starfi Heimdallar hétum því fyrir stjórnarkjörið sl. sumar að opna allt starf Heimdallar. Það höfum við efnt strax á fyrstu starfsvikunum með m.a. kröftugu starfi sex málefnanefnda, en í hverri viku eru opnir fundir í Valhöll um fjölbreytt viðfangsefni í stjórnmálum samtímans.

Við hétum því ennfremur að ungt fólk í Reykjavík gæti átt aðgang að og rætt við þá sem eru í forystu flokksins. Það höfum við efnt með opnum fundum málefnanefnda Heimdallar þar sem þingmenn, borgarfulltrúar og aðstoðarmenn ráðherra koma til fundar við okkur. Í þessari viku hittum við Guðlaug Þór Þórðarson þingmann og Illuga Gunnarsson aðstoðarmann Davíðs Oddssonar. Í síðustu viku Pétur Blöndal þingmann og Steingrím Sigurgeirsson aðstoðarmann Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, svo dæmi séu tekin.

Við sögðum, stjórnmálaflokkar eiga að vera "stjórnmálaháskólar" fyrir ungt fólk. Það erum við að efna með stjórnmálaskólanum nk. laugardag, fundum málefnanefndanna og í undirbúningi eru stærri málþing um brennandi mál eins og hlutverk stéttarfélaga.

Við hétum því að efla upplýsingamiðlun til félagsmanna Heimdallar. Það höfum við þegar gert m.a. með nýrri heimasíðu: www.heimdallur.is þar sem daglega eru uppfærðar upplýsingar um viðburði á vegum félagsins. Þar er opinn vettvangur fyrir greinaskrif og skoðanaskipti, auk fjölbreyttra upplýsinga um áhugaverða fundi í Reykjavík og greinar sem birtast á öðrum vefjum. Þeir sem vilja fá reglulega sendar upplýsingar um viðburði á vegum félagsins í tölvupósti eða með SMS geta skráð sig þar.

Við hétum því líka að gera starf Heimdallar skemmtilegt. Það gerum við með því að blanda saman gamni og alvöru. Við héldum stórt samkvæmi á veitingastaðnum Kaffi Hressó þegar við kynntum vetrarstarfið og við áformum ásamt ýmsu fleiru að halda skákmót í Valhöll.

Þú ert velkominn, þú skiptir máli

Allt þetta er liður í því meginmarkmiði okkar að efla Sjálfstæðisflokkinn til góðra verka og efla ungt fólk til þátttöku í stjórnmálum, hvort tveggja með virku grasrótarstarfi og fjölgun virkra félagsmanna. Þannig styrkjum við grundvöll lýðræðisins, sem er orðið tómt án virkrar þátttöku fólks.

Við bjóðum öllu ungu fólki í Reykjavík að starfa með okkur. Hvernig væri að kynnast okkur á laugardaginn í stjórnmálaskólanum? Allir eru velkomnir, skráning á heimasíðu okkar: www.heimdallur.is.

Bolli Thoroddsen skrifar um stjórnmálaskóla Heimdallar

Höfundur er formaður Heimdallar.