ENGAR eftirlitsflugvélar af gerðinni P-3 Orion eru til taks á vegum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli til að halda úti eftirliti með ferðum herskipa úr rússneska flotanum norðaustur af landinu.

ENGAR eftirlitsflugvélar af gerðinni P-3 Orion eru til taks á vegum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli til að halda úti eftirliti með ferðum herskipa úr rússneska flotanum norðaustur af landinu. Slíkar vélar hafa ekki verið á landinu frá því um áramót en fram að því voru fjórar til fimm slíkar vélar hér að staðaldri.

Ekki tíðkast að senda herþyrlur til eftirlits af því tagi sem hér um ræðir en varnarliðið ræður hins vegar yfir fjórum orrustuþotum sem hægt væri að senda til eftirlits væri þess þörf. Varnarliðið segist reyndar ekki sjá neina ástæðu til þess, en aðgerðir þar sem orrustuþotur eru notaðar eru að jafnaði ögrandi og eru ekki framkvæmdar nema brýna nauðsyn beri til.

Tóku flugvél á leigu

Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar hefur verið send á slóðir herskipanna í könnunarskyni en nú er hún í skoðun og hefur því verið gripið til þess ráðs að leigja flugvél Flugmálastjórnar til að halda uppi eftirliti á svæðinu.

Um er að ræða umfangsmestu heræfingar rússneska norðurflotans í áratug.

Íslenskir stjórnmálamenn eru ekki á eitt sáttir um viðveru herskipanna og hefur Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, óskað eftir utandagskrárumræðum um málið á Alþingi.

Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, sagði í gær að þetta einstaka mál hefði ekki áhrif á skoðun stjórnvalda á nauðsyn þess að hafa loftvarnir á Íslandi.