SÍMINN hefur aukið hlut sinn í Skjá einum verulega, auk þess að tryggja sér samstarf við aðra hluthafa, að því er heimildir Morgunblaðsins herma.

SÍMINN hefur aukið hlut sinn í Skjá einum verulega, auk þess að tryggja sér samstarf við aðra hluthafa, að því er heimildir Morgunblaðsins herma. Ásamt Íslandsbanka ræður Síminn nú beint eða óbeint um 50,4% í Íslenzka sjónvarpsfélaginu, sem rekur Skjá einn.

Þessar ráðstafanir Símans eru til komnar eftir að það vitnaðist í hluthafahópi Íslenzka sjónvarpsfélagsins fyrir síðustu helgi að Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, sem á um þriðjungshlut í Norðurljósum, hefði sýnt áhuga á að kaupa 46% hlut þeirra Margeirs Péturssonar, Jóns og Sigurðar Gísla Pálmasona og fleiri fjárfesta í félaginu.

Þessir hluthafar hafa viljað losna út úr rekstri Skjás eins og hafa talið að sá áhugi á hlutabréfunum, sem lá fyrir, styrkti a.m.k. stöðu þeirra í viðræðum við Símann og aðra hluthafa um að kaupa hlut þeirra í félaginu, en Síminn hafði leitað eftir slíku. Það liggur hins vegar ekki fyrir að þessir aðilar hafi verið reiðubúnir að selja Jóni Ásgeiri eða félögum sem honum tengjast bréfin.