HENRIK Larsson þurfti ekki mikið rými eða tíma til þess að skora tvívegis í 4:1 sigri sænska liðsins á Laugardalsvelli í gær. Larsson skoraði fyrsta markið á 24. mínútu með skalla af stuttu færi og bætti við öðru marki á 38. mínútu. Barcelona-framherjinn fór af velli á 51. mínutu en hann fékk prýðisfæri til að bæta við þriðja markinu á 46. mínútu er hann slapp einn í gegnum vörn Íslands.

Henrik sagði eftir leikinn að hraður sóknarleikur sænska liðsins hefði verið lykilatriði kvöldsins. "Við náðum að sækja hratt á mörgum mönnum þegar færi gafst til. Fyrirgjafirnar voru margar og góðar. Og það er okkar hlutverk að skora úr slíkum færum. En það var gaman að við skyldum skora fjögur mörk, en í raun voru stigin mun mikilvægari og okkur hefði verið sama þótt leikurinn hefði endað 1:0."

Hann var ánægður með samvinnu sína við Marcus Allbäck sem var í fremstu víglínu liðsins ásamt Larsson. "Við höfum leikið oft saman og þetta gekk allt saman upp eins og í sögu. En við erum ánægðir með stöðu okkar eftir þessa leikjatörn og það verður gott fyrir "gamla" leikmenn eins og mig að fá langa hvíld fram að næstu landsleikjatörn á næsta ári," sagði Larsson en hann fór af velli á 51. mínútu og sagðist vera stífur í vöðvum víða í líkamanum. "Það var besta lausnin að hvíla sig áður en maður meiddist."

Íslendingar pökkuðu í vörn

Anders Svensson, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Southampton, var áberandi á miðjunni en þar var ekki að finna hávaxna eða líkamlega sterka leikmenn. "Við vissum að íslenska liðið myndi leika aftarlega á vellinum. "Pakka í vörn" og við gátum því leikið hratt okkar á milli og fært boltann á milli svæða án vandræða. Það voru margar gular skyrtur að velja úr þegar við áttum að senda boltann. En 5:3:2 leikaðferð íslenska liðsins kom nokkuð á óvart enda var mikið pláss á köntunum fyrir okkar leikmenn. Bakverðirnir gátu tekið þátt í sóknarleiknum og við lögðum upp með hraðar sendingar til þess að íslensku leikmennirnir gætu ekki komist í návígi við okkur. Þetta gekk allt saman upp að þessu sinni," sagði Svensson.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson