Hraði: "Það er ekki alltaf hollt að beita fljótlegustu aðferðinni til að komast að niðurstöðu," segir Finn Thorbjørn Hansen.
Hraði: "Það er ekki alltaf hollt að beita fljótlegustu aðferðinni til að komast að niðurstöðu," segir Finn Thorbjørn Hansen. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Málið er að læra hægar og nálgast hlutina á tilvistarlegan hátt, læra að hugsa saman og glíma við gildi en ekki aðeins að finna svarið," segir Finn Thorbjørn Hansen, dósent í heimspeki menntunar við Kennaraháskóla Danmerkur.

Málið er að læra hægar og nálgast hlutina á tilvistarlegan hátt, læra að hugsa saman og glíma við gildi en ekki aðeins að finna svarið," segir Finn Thorbjørn Hansen, dósent í heimspeki menntunar við Kennaraháskóla Danmerkur. Hann flytur á föstudag erindi um hvernig kenna megi um mannleg gildi í fjölmenningarlegum skólum. Blaðamaður ræddi við Finn Thorbjørn Hansen um nýsókratíska kennsluaðferð sem hann hefur tekið þátt í að þróa. Aðferð sína rekur hann til kenninga þýska heimspekingsins Leonards Nilsens frá 1922.

Aðferðin sem Finn Th. Hansen hefur þróað felst í því að skapa hópsamræður. Kennarinn er þá ekki miðpunkturinn heldur stendur hann líkt og þjálfari boltaliða utan vallar. Hann stjórnar ekki leiknum heldur hefur auga með leikmönnum og hvetur þá áfram með sókratískum spurningum.

"Hraðferð" - "Hægferð"

"Þær aðferðir sem nú eru helst notaðar til að nálgast lýðræðisleg gildi eru byggðar á félagsvísindum," segir hann, "gamla aðferðin er í raun tæknileg nálgun á vandamálum, en ég vil virkja aðferð sem er reist á heimspeki." Hann segir mikinn mun á þessum aðferðum til að nálgast gildi eins og þau sem búa í lýðræðisskipulagi; jafngildi, virðing, samábyrgð. Sú vinsæla er hraðvirk en hin sókratíska er hægvirk. Ekki er alltaf hollt að beita fljótlegustu aðferðinni til að komast að niðurstöðu.

Þegar kennarar fjalla um gildi spyrja þeir gjarnan hvaða gildi eigi að velja, og hvernig eigi að kenna þau, en það er ekki víst að þeir kveiki áhuga nemanda með nálgun sinni," segir Finn Th. Hansen.

Aðferð Finns er ekki dæmigerð "vísindaleg" nálgun, hún snýst ekki um að stjórna eða ná tökum á aðstæðum eða umhverfi, markmiðið er ekki að ná utan um hugtökin heldur að fara á kaf inn í þau.

"Spurning eins og "Hvers konar líf er eftirsóknarvert?" er ekki tæknileg spurning , ekki heldur spurning eins og: "Hvað er ást?" segir Finn Th. "Tæknileg nálgun eyðileggur spurninguna, því það þarf að nálgast hana út frá mörgum sjónarhornum."

Málið er að glíma við tilvistarspurningar án þess að nota aðferðir (meðferðir) sálfræðinnar eða að predika. "Heimspekileg nálgun felst í því að vekja undrun og að geta efast án þess að þurfa að vísa í heimildir eða vald," segir Finn.

Nemendur fá að hugsa og ræða gildi á opinskáan hátt, og það vekur þeim áhuga. Föst hugtök og viðhorf nægja ekki nútímanemendum, þeir verða að fá tækifæri til að leggja sjálf í púkkið. "Nútímanemendur hafa áhuga á því sem tengist þeim persónulega og sem þeir telja sig hafa gagn af. Aðferðin sem ég mæli með felst í að kenna þeim að móta eigin viðhorf og um leið að taka þátt í eigin sköpun," segir Finn Th.

Að undrast saman og efast

Hugsunaraðferðin var þróuð fyrir fjölmenningarlega hópa í lýðræðisríkjum, en aðrir nemendur og faghópar geta beitt henni í hópvinnu; kennarar, hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar, viðskiptafólk. Finn nefnir að lokum dæmi um hvernig þetta getur farið fram:

Sex til tíu manna hópur, t.d. kennarahópur, spyr sig: "Hvað er góður kennari?" Þeir ræða spurninguna og komast t.d. að því að góður kennari hafi m.a. sterka ábyrgðarkennd og þroskaða samkennd. Þá er spurningin: "Hvað er ábyrgð?" og hópurinn fær tvö verkefni. Annars vegar að fílósófera um mögulegt svar og hins vegar að skrifa niður dæmi úr eigin lífi um ábyrgð. Næst þegar hópurinn hittist þá sýnir hver öðrum sitt dæmi á blaði. Þá kemur iðulega í ljós að skilningurinn á ábyrgð er mismunandi eftir einstaklingum. Hópurinn glímir þá við spurninguna: "Hvað er besta dæmið fyrir kennara um ábyrgð?" Hópurinn undrast og efast, og velur saman dæmi. Þá er komið að því að gagnrýna dæmið sem var valið: "Hverjir eru gallarnir?" Þannig kemur hópurinn auga á "blinda blettinn" í eigin svari. Málið er að spurningin var ekki tæknileg heldur tilvistarleg.

"Hópurinn leggur ekki stund á hugarflug heldur lærir að hugsa saman og að hugsa hægt um eigin gildi og annarra," segir Finn Th og að það sé ekki svarið sem er höfuðatriðið, heldur að halda inn í óvissuna og skoða hugtökin að innan: Að undrast með öðrum og fyrir framan aðra, það er þýðingarmikið í fjölmenningarsamfélagi og lýðræði.

Erindið er flutt á málþinginu "Tækifæri í fjölbreyttu samfélagi: Lýðræði - jafnrétti - fjölmenning". Það er á vegum Rannsóknarstofnunar KHÍ og hefst kl. 14 í Kennaraháskólanum föstudag. Sjá heimasíðu Kennaraháskólans: http://www.khi.is.

guhe@mbl.is