Steinadans förukonu í Skaftfelli Christine Muehlberger gengur uns hún rennur saman við landslagið.
Steinadans förukonu í Skaftfelli Christine Muehlberger gengur uns hún rennur saman við landslagið. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Seyðisfjörður | "Ég teikna sjálfa mig í landslag," segir Christine Muehlberger og nefnir sig göngulistamann. Hún hefur dvalið á Íslandi yfir sumartímann undanfarin tvö ár, m.a. á Seyðisfirði og er nú með sýninguna Steinadans í Skaftfelli.

Seyðisfjörður | "Ég teikna sjálfa mig í landslag," segir Christine Muehlberger og nefnir sig göngulistamann. Hún hefur dvalið á Íslandi yfir sumartímann undanfarin tvö ár, m.a. á Seyðisfirði og er nú með sýninguna Steinadans í Skaftfelli.

Hluti sýningarinnar er jafnframt í gömlu frystihúsi Norðursíldar skammt utan við bæinn.

Christine er svissnesk, fædd árið 1964 og nam myndlist í London, New York og Þýskalandi. Hún hefur haldið sýningar víða um heim og m.a. verið í Kína, Brasilíu, Marokkó, á Grikklandi og Íslandi við listsköpun sína.

"Ég er hef verið í listsköpun, málun og teiknun í yfir tuttugu ár," segir Christine í samtali sem fram fór í Skaftfelli á dögunum. "Ég lærði á mörgum stöðum og lauk aldrei neins konar gráðum. Ég var að mestu erlendis árin 1986 til 1996 og á því tímabili breyttist ég í eirðarlausa förukonu sem hentar mér ágætlega."

Christine staðnæmdist m.a. um hríð í Brasilíu, þar sem hún setti upp sýningu og framdi göngugjörning.

"Á hverjum degi í mánuð fór ég á nákvæmlega sama stað, á stóra sandöldu. Ég gekk þar um í þrjá klukkutíma, alltaf í sömu spor, sem mynduðu spíral. Með því að gera þetta daglega myndaðist teikning í sandölduna, í landslagið og þarna byrjaði ég í alvöru að einbeita mér að því að ganga gæti verið teikning í landslag."

Þráhyggjuganga við Galtarvita

Í sumar var förukonan Christine á Galtarvita í nokkrar vikur og á þar ófá skref í umhverfinu.

"Að fara í gönguferðirnar og eyða fleiri klukkustundum úti við gerir það að verkum að ég opna mig fyrir vindinum og hverju sem kann að verða á vegi mínum. Á einhvern máta er þessi hálfgerða þráhyggjuganga mikilvæg fyrir mig, að fara stöðugt að sama punktinum í landslagi í ákveðinn tíma. Á þeim tíma verður nokkurs konar bráðnun milli mín og landslagsins, við rennum saman ég og náttúran. Í fyrstu sér maður aðeins yfirborð hlutanna í hendingu; fallegt hér, fallegt þar. Þegar líður á gönguferðina verður maður smærri og skilur betur, næmari á hina fíngerðari og smáu hluti.

Grjótið í umhverfi Galtarvita vakti auðvitað mesta athygli mína, því þarna er nánast ekkert annað, lítill gróður og aðeins stök kind á rjátli. Ég skoðaði nánar afstöðu steinanna á jörðinni og smám saman urðu þeir mér eins og ímynd lífsins alls; litlir og stórir steinar, sumir fallegir og aðrir ljótir, afstaða þeirra og samband vakti hugrenningar. Ég komst talsverðan spöl inn í þýðingu hluta með því að nema af grjótinu.

Á Galtarvita var allt mjög þrungið mætti náttúrunnar og til hlítar ótruflað. Nema kannski af mér á stundum. Þar skóf ég þarfir mínar utan af mér smám saman og einfaldaði allt niður. Einhverjir myndu kalla það meinlæti, en svo er þó ekki."

Þungir steinar verða léttir

"Sýningin mín í Skaftfelli er um að dansa á steinum. Það byrjaði með göngunni og eftir því sem ég gekk lengra varð hún á einhvern hátt léttari. Á einhverjum hverfipunkti fannst mér ég aðeins dansa á steinunum. Í undirmeðvitundinni vildi ég umbreyta steinunum úr þungum hlutum, eins og við lítum gjarnan á grjót, og í eitthvað undurlétt. Ég lærði að líta á hlutina frá öðru sjónarhorni; þrátt fyrir sögulega vitneskju okkar um að eitthvað sé til dæmis þungt eins og grjót, mætti líta á það frá öðru sjónarhorni og hugsa sér grjót létt.

Sýningin er því um ráf frá upphafsaugnabliki hugmyndar að uppgötvunum sem þú bjóst ekki við. Um þunga steina sem dansa við þig."

Christine er farin til Sviss og ætlar að setja Steinadans upp í Zürich þegar sýningunni verður lokað í Skaftfelli í enda mánaðarins.