Bætt þjónusta  Segulómskoðunartækið híft inn á svalir á fyrstu hæð FSA.
Bætt þjónusta Segulómskoðunartækið híft inn á svalir á fyrstu hæð FSA. — Morgunblaðið/Kristján
NÝTT segulómtæki Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri kom á áfangastað í gærmorgun, eftir langt ferðalag. Tækið er af gerðinni Siemens og kom frá Þýskalandi, en þaðan var því ekið í veg fyrir Norrænu.

NÝTT segulómtæki Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri kom á áfangastað í gærmorgun, eftir langt ferðalag. Tækið er af gerðinni Siemens og kom frá Þýskalandi, en þaðan var því ekið í veg fyrir Norrænu. Upphaflega átti það að koma með síðustu ferðinni í september, en þá var veður svo vont að ekki var hægt að leggjast að bryggju og skipinu snúið að nýju til Færeyja þar sem segulómtækið var í viku. Það kom svo til Seyðisfjarðar í liðinni viku og var ekið með það til Akureyrar, en það vegur 5,5 tonn og kostar um 130 milljónir króna. Fulltrúar framleiðenda hafa fylgt tækinu alla leið og munu nú, eftir að það er komið í hús, vinna við uppsetningu þess.

Þorvaldur Ingvarsson lækningaforstjóri FSA sagði stefnt að því að taka tækið í notkun 1. nóvember næstkomandi. Búið er að innrétta húsnæði en eftir á að koma því fyrir, setja það í gang og prófa það. "Það tekur alltaf einhvern tíma," sagði hann.

Með tilkomu segulómtækisins aukast möguleikar sjúkrahússins á að sinna hlutverki sínu til mikilla muna. Þorvaldur sagði að árlega færu allt að 500 manns frá upptökusvæði FSA suður til Reykjavíkur til rannsókna, en gætu nú fengið þjónustu í heimabyggð eða nær henni en áður.

"Þetta verður bylting hvað varðar greiningu ýmissa sjúkdóma bæði í stoð- og taugakerfi og eins varðandi krabbameinsrannsóknir og eftirlit með krabbameinssjúklingum," sagði Þorvaldur. Hver ferð fyrir sjúkling milli landshluta gæti kostað um það bil 50 þúsund krónur þannig að sparnaðurinn á ári nemur um 25 milljónum króna. "Tækið mun því algjörlega standa undir sér," sagði Þorvaldur.