Eygló Óskarsdóttir var í gær að kaupa kennslubækur fyrir barnabörnin sín þrjú sem hún passar til klukkan eitt á daginn í kennaraverkfallinu.
Eygló Óskarsdóttir var í gær að kaupa kennslubækur fyrir barnabörnin sín þrjú sem hún passar til klukkan eitt á daginn í kennaraverkfallinu. — Morgunblaðið/Golli
ENGIN forsenda var fyrir því að boða til sáttafundar í kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaganna í þessari viku, að sögn Ásmundar Stefánssonar ríkissáttasemjara, og hefur næsti fundur viðsemjenda verið boðaður á mánudag.

ENGIN forsenda var fyrir því að boða til sáttafundar í kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaganna í þessari viku, að sögn Ásmundar Stefánssonar ríkissáttasemjara, og hefur næsti fundur viðsemjenda verið boðaður á mánudag. Ríkissáttasemjari hitti deilendur hvora í sínu lagi í gær og sagði eftir fundina að afstaða hvorra tveggja hefði verið mjög eindregin og óbreytt frá því viðsemjendur slitu viðræðum á sunnudag. Á mánudag verða fjórar vikur liðnar frá því kennaraverkfall hófst.

Ein undanþágubeiðni af 21, sem teknar voru fyrir á fundi undanþágunefndar vegna kennaraverkfalls í gærkvöldi, var samþykkt, að sögn Sigurðar Óla Kolbeinssonar, fulltrúa sveitarfélaganna í nefndinni. Það var beiðni frá Langholtsskóla, sérdeild fyrir einhverf börn. Þá var afgreiðslu frestað frá Hafralækjarskóla vegna skorts á upplýsingum og 19 undanþágubeiðnum var hafnað. Sigurður Óli segir það vonbrigði að fleiri undanþágubeiðnir skyldu ekki vera teknar til greina.

"Gríðarleg eftirspurn"

Í Skólavörubúðinni, sem selur m.a. námsefni sem notað er við kennslu í grunnskólum, hefur sala á fræðsluefni fyrir grunnskólabörn til foreldra eða forráðamanna fimmfaldast frá því verkfall grunnskólakennara hófst.

"Nokkrum dögum eftir að verkfall hófst fór þetta að aukast verulega. Við finnum að það er gríðarleg eftirspurn eftir fræðslunámsefni fyrir börnin," segir Rafn Benedikt Rafnsson, framkvæmdastjóri Skólavörubúðarinnar.

Rafn segir foreldra barna á öllum aldri kaupa skólabækur fyrir börn sín, bæði bækur sem kenndar eru í grunnskólum og aukaefni.

"Mér sýnist fleiri og fleiri foreldrar vera að átta sig á því hvað þeir gegna miklu hlutverki, og geta skipt algerum sköpum um hvort börn nái tökum á náminu eða ekki," segir Rafn.

Væntu samkomulags

Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, segir að miðað við viðbrögð sem samninganefnd kennara fái frá viðsemjendum sínum "þá held ég að það sé eins gott fyrir þjóðfélagið að búast við því að það gerist ekki neitt á næstu vikum", segir hann.

Að sögn Birgis Björns Sigurjónssonar, formanns samninganefndar Launanefndar sveitarfélaganna, fékk launanefndin heimild í síðustu viku til að gera kennurum nýtt tilboð sem fól í sér "áþreifanlega hreyfingu" frá fyrra tilboði sveitarfélaganna sem fól í sér tæpan 19% kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Vonir hafi verið bundnar við að það myndi leiða til þess að samningar næðust milli þeirra og grunnskólakennara.