Paprikur og chili valið í graskerssúpuna: Fjölskyldan er enda ævintýragjörn í matseldinni.
Paprikur og chili valið í graskerssúpuna: Fjölskyldan er enda ævintýragjörn í matseldinni. — Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Við tökum svona syrpur og prufum þá kannski indverskan mat, líbanskan, eða hvað annað sem hugurinn girnist."

Það er mikið spáð í mat í mínu starfi, enda gerum við mikið af tilraunum sem lúta að því hvaða vín gangi með hinum og þessum matartegundum og það hefur óneitanlega áhrif á matarinnkaup fjölskyldunnar," segir Júlíus Steinarsson. Hann starfar hjá innkaupadeild ÁTVR, auk þess að vera í smakkhóp fyrirtækisins sem m.a. vinnur að því að tengja margskonar mat hinum ýmsu víntegundum.

"Við erum töluvert matarleg í smakkhópnum og sjálfur hef ég lengi haft áhuga á matseld. Núna er ég hins vegar að spá í helgina," útskýrir Júlíus þar sem hann gengur meðal hlaðinna hillurekka í verslun Nóatúns við Hringbraut. "Við kona mín, Sigrún Guðmundsdóttir, eigum von á matargestum og ég var búinn að ákveða smá þema sem mig langar líka að prufa nýtt vín með. Það er líbanskur réttur, kjúklingabollur með pistasíuhnetum og góðu kryddi, sem ég hef ekki eldað áður. En kryddaður matur, sérstaklega sumir austurlenskir réttir, geta reynst sannkallaður höfuðverkur þegar kemur að vali á vínum með matnum."

Að sögn Júlíusar eiga mjúk og ávaxtarík líbönsk rauðvín vel við líbanska matargerð. "Þau eru hins vegar ekki til hér á landi þessa stundina og því ætla ég að prufa mjúkt og ávaxtaríkt kaliforníuvín, hvítvín úr þrúgunni Viognier, sem ég held að ráði vel við kryddið." Hann bætir við að ávaxtarík hvítvín úr Gewurztraminer-þrúgunni henti þá ekki síður vel með krydduðum mat.

Kjúklinginn er þegar búið að kaupa og því heldur Júlíus beint í grænmetisdeildina þar sem hann velur sítrónur og skannar kryddhilluna í leit að sítrónumelissu. "Líbanir nota mikið kóríander, sítrónu, kjúkling og lamb við sína matargerð," segir Júlíus og kveður sannkallaðar flóðgáttir hafa opnast eftir að hann kynnist líbönskum mat á veitingastað í London fyrir nokkrum árum. "Líbanon er líka gamalt menningarsetur og því er þetta mjög skemmtilegur matur sem þaðan kemur."

Paprika og chili rata næst ofan í matarkörfuna, en leit að graskeri skilar ekki árangri.

"Ég geri ekki mikið af því að flakka á milli verslana en þarf þó líklega núna að gera mér ferð í Hagkaup eftir graskerinu," segir Júlíus og útskýrir að hann ætli einnig að bjóða upp á graskerssúpu. "Hún á að vera með chili og vel krydduð.

Annars er þessi Nóatúnsverslun hverfisverslunin mín og þar sem þeir hafa mikið af góðum asíuvörum og kryddi þarf ég sjaldan að fara annað."

Frosin smábrauð með súpunni eru gripin úr frystinum og næsti viðkomustaður eru kryddhillurnar þar sem Júlíus bætir cummin í innkaupakörfuna.

"Þau eru góð þessi íslensku Pottagaldrakrydd. Ég finn að það er gott hráefni í þeim og mér finnst kryddjurtirnar þeirra oft ferskari en aðrar."

Kaffibaunir hverfa næst ofan í körfuna, en baunirnar vill Júlíus mala sjálfur til að halda ferskleikanum. Þá koma pistasíuhnetur og að lokum eitt stykki af spönskum osti.

"Ég lét freistast og náði mér í eitt stykki af Manchego osti, en hann er eitt af því skemmtilegasta sem þú færð með góðu rauðvíni. Þetta er þurr spánskur sauðaostur og í ferð minni til Spánar nýlega var þessi ostur með því besta sem við fengum."

Júlíus játar að mikil tilraunastarfsemi eigi sér oft stað í eldhúsinu heima, enda sé fjölskyldan óhrædd við nýjungar. "Við tökum svona syrpur og prufum þá kannski indverskan mat, líbanskan, eða hvað annað sem hugurinn girnist. Konan segir þó stundum stopp: "Nú vil ég hefðbundnar fiskibollur", eða annað í þeim dúr og sjálfum finnst mér stundum sérlega gott að fá bara soðna ýsu með kartöflum. Tilraunamennskan heillar okkur þó yfirleitt meira og synir okkar tveir hafa hvatt okkur áfram á því sviði í gegnum tíðina með því að hafa verið duglegir að borða afrakstur tilraunanna. Þeir elda líka sjálfir nú orðið og er Steinar, sá eldri, raunar orðinn mjög góður kokkur og yngri sonurinn - Oddur er ekki síður efnilegur."

annaei@mbl.is