Hjörtur Hjartarson
Hjörtur Hjartarson
Hjörtur Hjartarson skrifar í tilefni af Alþjóðlega staðladeginum: "Væntanlegur staðall snertir gamalkunnug málefni sem enginn getur með réttu horft framhjá."

ALÞJÓÐLEGI staðladagurinn er 14. október. Af því tilefni vill Staðlaráð Íslands vekja athygli á merku verkefni sem Alþjóðlegu staðlasamtökin ISO hafa tekist á hendur. Þar er um að ræða undirbúning að gerð leiðbeinandi staðals um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Markmiðið er að búa til almennar leiðbeiningar um þetta efni á skýru og einföldu máli. Ekki stendur til að fyrirtæki verði vottuð samkvæmt staðlinum, og eins og venja er með staðla, þá ákveða fyrirtækin sjálf hvort þau nota staðalinn eða ekki. Væntanlegur staðall snertir gamalkunnug málefni sem enginn getur með réttu horft framhjá. Með gerð hans er ISO hins vegar, að margra mati, að fara inn á nýtt svið, en samtökin hafa hingað til fyrst og fremst látið sig varða hinar verklegu og tæknilegu hliðar mannlífsins. Aðrir segja sem svo að siðferðileg álitaefni verði ekki skilin frá verklegum og tæknilegum þáttum, síst á tímum alþjóðavæðingar. Áhrif fyrirtækja eru ekki aðeins hagfræðileg heldur einnig landfræðileg, félagsleg og pólitísk. Því sé þetta eðlilegt skref í þróun alþjóðlegrar stöðlunar.

Samfélagsábyrgð

Ákvörðun ISO um gerð staðalsins var tekin á ráðstefnu í Svíþjóð síðastliðið sumar. Þar voru saman komin yfir 300 manns frá öllum heimshornum; fulltrúar fyrirtækja og vinnumarkaðar, frjálsra félagasamtaka, neytendasamtaka og opinberra aðila. Alls voru þátttakendur frá 66 löndum. Fá sjálfstæð alþjóðasamtök geta dregið svo fjölbreyttan hóp jarðarbúa saman á einn stað, en slíkar samkomur eru dæmigerðar fyrir ISO. Í lok september var svo valin stjórn vinnuhóps sem ætlað er að stýra vinnu við gerð frumvarps að staðlinum. Þeir sem fara fyrir vinnuhópnum eru fulltrúar Brasilíu og Svíþjóðar. Lögð verður sérstök áhersla á að tryggja þátt þróunarlanda við gerð staðalsins, enda eru þau 110 af þeim 140 ríkjum sem eiga aðild að ISO.

Í skýrslu ráðgjafahóps á vegum samtakanna er ítarlega rætt um hvað felst í samfélagsábyrgð fyrirtækis og saga hugtaksins rakin. Til að gefa hugmynd um það í mjög stuttu máli má vitna til fyrirlesturs sem Thomas Bergmark hjá IKEA hélt á fyrrnefndri ráðstefnu. Um 76.000 manns vinna í tengslum við fyrirtækið, verslanir IKEA eru 165 í 22 löndum, 32 verksmiðjur eru starfræktar í 9 löndum og 27 dreifingarmiðstöðvar í 16 löndum. Birgjar fyrirtækisins eru 1600 í 55 löndum. IKEA leggur metnað í að fylgja settum lögum og reglum í öllum þessum löndum, að sjálfsögðu, en lætur ekki þar við sitja. Bergmark nefnir fjölmörg svið sem snerta samfélagsábyrgð fyrirtækisins er meta þarf á sjálfstæðan og skipulegan hátt, vilji fyrirtækið axla ábyrgð sína. Þar koma til álita vinna barna, félagafrelsi, þrælahald, hvers kyns mismunun, öryggi á vinnustað og vinnuaðstaða, refsingar fyrir agabrot, laun og vinnutími, umhverfisáhrif starfseminnar og svo mætti áfram telja. Væntanlegum staðli er ekki ætlað að koma í stað laga þjóðríkja og alþjóðlegra sáttmála sem snerta þessi efni. Hugmyndin er að leggja fyrirtækjum í hendur verkfæri til að uppfylla slík lög og sáttmála - og ganga lengra af fúsum og frjálsum vilja. Í orðsendingu til Alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO segir Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, að þetta framtak falli afar vel að sáttmálum samtakanna um mannréttindi, vinnumarkaðsmál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu.

Staðallinn gæti litið dagsins ljós árið 2007. Nánari upplýsingar um samfélagsábyrgð fyrirtækja og undirbúning væntanlegs staðals er að finna á vefslóðinni: http://www.iso.org/iso/en/info/Conferences/SRConference/home.htm. Sérstaklega má benda á ítarlega og fróðlega skýrslu ráðgjafahópsins.

Hjörtur Hjartarson skrifar í tilefni af Alþjóðlega staðladeginum

Höfundur vinnur hjá Staðlaráði Íslands.