Margrét Pálsdóttir
Margrét Pálsdóttir
Margrét Pálsdóttir fjallar um kennaraverkfallið: "Á undanförnum árum hefur réttindakennurum fjölgað þrátt fyrir að það sé algjörlega óarðbært nám."

ÞEGAR þetta er skrifað er fjórða vika verkfalls grunnskólakennara að hefjast. Ég er undrandi á að ekki skuli búið að gera könnun á hvað þjóðin vill í skóla- og kjaramálum. Ég ætla því að leyfa mér að viðra þær skoðanir sem ég tel að allur fjöldinn hafi í þessum efnum.

Í fyrsta lagi tel ég að allir vilji góða skóla. En hvað er góður skóli? Er það skólinn sem er næstur heimili þínu eða einkaskóli. Mikið er rætt um einkavæðingu nú á dögum, allt skuli einkavæðast. Ég tel að í raun hafi þjóðin hafnað einkaskólum sem einhverri allsherjarlausn. Ísaksskóli og Landakotsskóli voru starfræktir þegar ég var barn og eru enn. Sárafáir aðrir hafa bæst við. Viljum við einkavæðingu eins og hún birtist t.d. í Bandaríkjunum með styrktaraðilum? Fyrir fjórum árum fór stór hópur úr skólanum mínum til Washington D.C. Markmiðið var að skoða það besta sem völ var á í skólamálum. Við fengum fyrirlestur og kynningu í menntamálaráðuneyti Bandaríkjanna. Síðan skoðuðum við þrjá skóla, einn á hverju skólastigi í Virginíufylki. Sem dæmi um velsældina fengu öll börn fartölvu sem þau unnu verkefni sín á bæði heima og í skólanum. Bekkjarstærðir voru svipaðar og hér. Í skólanum voru um 800 nemendur, líka fatlaðir, og öll stoðþjónusta til fyrirmyndar. Að auki voru ein til tvær mæður til staðar í hverjum bekk eða um hundrað sjálfboðaliðar flesta daga vikunnar og á annað hundrað á bakvakt ef eitthvað kæmi upp á eða unnið væri að einhverjum sérstökum verkefnum. Sama var að segja um miðskólann og framhaldsskólann sem við heimsóttum. Allt til fyrirmyndar. Stöndug fyrirtæki studdu við bakið á sínum hverfisskólum og nota bene mæður til aðstoðar eftir þörfum. Í þessum kynnisferðum var okkur ekið milli staða af svörtum bílstjóra. Hann taldi réttast að fara með okkur í einn eða tvo skóla í sjálfri höfuðborginni þar sem engir styrktaraðiljar fengjust í skólana í fátækrahverfunum og þar af leiðandi vantaði allt til alls. Fyrir fjórum árum fannst mér svona kerfi fráleitt, en er þetta kannski það sem koma skal? Alla vega yrði munurinn ekki eins mikill milli skóla hér eins og þarna úti, þökk sé velferðarkerfinu að ekki eru nein eiginleg fátækrahverfi hér á landi, þó að manni finnist munur milli ríkra og fátækra breikka. Eitt er þó víst, ekki mun hægt að treysta á mæður sem sjálfboðaliða hér á landi. Ég tel því að hverfisskólinn sé æskilegasti kosturinn.

Í öðru lagi tel ég að allir vilji vel menntaða kennara sem sinna nemendum af alúð. Nú eru flestir grunnskólakennarar með þriggja ára nám frá Kennaraháskóla Íslands. Á undanförnum árum hefur réttindakennurum fjölgað þrátt fyrir að það sé algjörlega óarðbært nám. Í þessu verkfalli heyrast háværar raddir yngri kennara um uppsagnir verði ekki bætt úr kjörum þeirra hið snarasta. Kennaraháskóli Íslands er metnaðarfull stofnun og vill lengja kennaranámið í fimm ár. Ég er hrædd um að ef það á að ganga eftir verði að hækka launin umtalsvert ef nokkur á að fást í slíkt nám.

Í þriðja lagi vilja allir að skólahúsnæði og að allur aðbúnaður barna sé í góðu lagi. Það er óumdeilt að þegar sveitarfélögin tóku við grunnskólanum þá hafi verið mikill metnaður meðal þeirra að gera vel. Eitt er samt sem ég get ekki áttað mig á. Fyrir örfáum dögum var því slegið upp að kennurum og öðru starfsfólki skóla hefði fjölgað mikið og var að því látið liggja að bágur fjárhagur sveitarfélaganna væri því að kenna. Allir hljóta að sjá að við einsetningu skólanna hlýtur að fjölga starfsfólki þegar öll börnin eru á sama tíma í skólanum. Ekki eru mörg ár síðan margir kenndu tveimur bekkjum. Alla vega voru alltaf tveir bekkir um stofu. Nú er einsetningin orðin að veruleika og ættu sveitarfélögin að vera stolt af sínu framlagi til þess.

Ljóst er að mörg lítil sveitarfélög voru illa í stakk búin að taka við grunnskólanum af ríkinu og háværar raddir heyrast að ekki hafi fylgt nægjanlegt fé frá ríki til sveitarfélaganna. Augljóst þykir mér að ríki sem hefur efni á að lækka tekjuskatt um 1% hefur efni á að styrkja sveitarfélögin betur. Glöð í bragði samþykki ég að sleppa þessari lækkun ef það yrði til að liðka fyrir fjárvana sveitarfélögum.

Eitt vil ég benda á að lokum. Á undanförnum árum hefur skólaár grunnskólanna lengst um einn mánuð á ári, þ.e. heilt skólaár á tíu ára skyldunámi. Ég fæ ekki annað séð en að gefa ætti öllum kost á að ljúka grunnskóla á níu árum sem því valda og hinum eins vetrar viðbótarnámi, þannig að þeir séu betur undir framhaldsskólann búnir. Fyrst við höfum lengt skólann verðum við að hafa eitthvert markmið annað en að teygja lopann.

Ég er sannfærð um að ég hef rétt fyrir mér, þjóðin vill góða skóla og góða kennara. Því skora ég á menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, að láta sig málin varða og útvega það fé sem á skortir frá ríki til sveitarfélaga til þess að leysa þann hnút sem deiluaðilar virðast vera komnir í.

P.S. Hvað þarf langt verkfall til þess að rétta af fjárhag sveitarfélaganna?

Margrét Pálsdóttir fjallar um kennaraverkfallið

Höfundur er kennari í Víðistaðaskóla.