— Morgunblaðið/Jim Smart
GRÍNÞÁTTURINN Svínasúpan kláraðist á föstudaginn síðasta og það vonandi bara í bili. Þetta hafa verið umdeildir þættir og sannarlega ekki allra enda var þeim aldrei ætlað að vera allra.

GRÍNÞÁTTURINN Svínasúpan kláraðist á föstudaginn síðasta og það vonandi bara í bili. Þetta hafa verið umdeildir þættir og sannarlega ekki allra enda var þeim aldrei ætlað að vera allra. Ýktur og annarlegur húmorinn hefur sumum - jafnvel mörgum - þótt fullrætinn og grófur. Sum atriðanna ku jafnvel hafa misboðið einhverjum viðkvæmum áhorfandanum.

Ekkert að því. Sumt sjónvarpsefni, meira að segja íslenskt sjónvarpsefni, má alveg ögra áhorfendum. Svo framarlega sem ekki er reynt að gefa annað í skyn. Svo framarlega sem áhorfendur eru varaðir við því að umrætt sjónvarpsefni sé ekki við allra hæfi. Aldrei var það gefið í skyn að Svínasúpan væri fyrir alla. Þess vegna var þátturinn tiltölulega seint á dagskrá og þess vegna var Stöðvar 2-merkið í horninu haft rautt.

Ljósvaki hefur í heildina verið sáttur við Svínasúpuna og kann betur að meta slíkan húmor en þann sem Spaugstofumenn hafa boðið upp í gegnum tíðina. Efnistökin í Svínasúpunni hafa verið hressileg og formið gengur alveg upp. Stuttir og snaggaralegir brandarar, flestir ef ekki allir vel geggjaðir, jafnvel langsóttir. Þótt maður hafi sjaldnast hlegið upphátt þá hafa þetta verið fyndnir þættir, fínasta afþreying sem aldrei fór í taugarnar á manni fyrir húmorsleysi, eins og oft vill verða þegar sams konar gamanþættir eiga í hlut. Rennslið var gott, þættirnir héldu dampi út í gegn, nokkuð sem hlýtur að skrifast á styrka leikstjórn hins snjalla Óskars Jónassonar en fáum ferst betur úr hendi að stýra gamanþáttum en honum - eins og hann sannaði með skaupunum tveimur sem hann leikstýrði hér um árið.

Þá stóðu "leikararnir" sig vel, allir sem einn, voru allir fyndir, hver á sinn hátt. Gæsalappirnar eru tilkomnar vegna þess að aðeins þær Edda og Guðlaug geta talist leikarar, samkvæmt ströngustu kröfum um að allir leikarar verði að vera lærðir í faginu. En þótt strákarnir, Sigurjón Kjartans, Jón Gnarr, Auddi, Sveppi og Pétur Jóhann, hafi ekki setið á leiklistarskólabekk þá pluma þeir sig fínt í svona þætti - og vel það. Þeir hafa nefnilega til að bera nokkuð sem verður ekki numið í neinum leiklistarskóla, sama hversu góður skólinn gerist; þeir eru fyndnir. Þeir eru bullarar af guðs náð. Um leið og slíkum mönnum er gefið svigrúm til athafna þá kemur einhver snilld út því - kunni maður á annað borð að meta bull. Sjáið bara bresku Monty Python. Þeir eru bullara bestir.

Skarphéðinn Guðmundsson