Platan Guerilla Disco með Quarashi kemur út í dag: Tiny og Ómar skæruliðast við Héraðsdóm í gær.
Platan Guerilla Disco með Quarashi kemur út í dag: Tiny og Ómar skæruliðast við Héraðsdóm í gær. — Morgunblaðið/Kristinn
Hljómsveitin Quarashi sendir frá sér plötuna Guerilla Disco í dag. Inga Rún Sigurðardóttir ræddi við Tiny, nýjasta meðlim sveitarinnar, af því tilefni.

Nýjasta plata Quarashi nefnist Guerilla Disco og kemur í verslanir í dag. Áður hafa komið út plöturnar Jinx, Xeneizis og Quarashi en sveitin hefur verið ein vinsælasta hljómsveit landsins frá því að stuttskífan Switchstance kom út snemmveturs árið 1996. Smellirnir hafa verið ófáir og er líklegt að þeir verði margir á Guerilla Disco. Til sönnunar þarf aðeins að nefna "Stun Gun", "Stars" og "Payback" kom nýtt inn á lista á X-inu í gær.

Egill Ólafur Thorarensen, rapparinn Tiny, nýjasti liðsmaður Quarashi segir að ágætlega hafi gengið að gera plötuna. "Við vorum aðeins lengur en við ætluðum okkur," segir hann en vinna við plötuna hófst í byrjun árs en fór í fullan gang í sumarbyrjun.

Steinar ekki með á plötunni

Á Guerilla Disco fær Steinar Orri Fjedsted einungis pláss í þakkarlistanum en til hliðar stendur að Quarashi skipi auk Tiny, Sölvi Blöndal, og Ómar Swarez. "Hann er ekki beint hættur. Hann er ekki á þessari plötu en verður á tónleikum með okkur," segir hann en eftir stendur að Steinar tekur ekki þátt í að semja neitt laganna. Hann verður þó með á tónleikunum á föstudaginn þegar Quarashi hitar upp fyrir Prodigy öðru sinni en fyrra skiptið var vorið 1998. Steinar verður líka með á Airwaves þegar Quarashi spilar á Nasa laugardagskvöldið 23. október og síðast en ekki síst er ljóst að hann fer með sveitinni út til Japans að kynna plötuna í byrjun nýs árs.

Að öðru leyti var platan mikil samvinna Quarashi-liða. Sjö lög af ellefu sömdu Ómar, Sölvi og Tiny saman og tvö lög skrifast á Sölva og Tiny, þ.á m. fyrrnefnt lag, "Stars".

Góðir gestir

Margir gestir koma líka við sögu eins og Villi Naglbítur og Pétur Örn, sem stundum er kenndur við Jesú. Bakraddir eru í höndum Jóhanns G. Jóhannssonar og gamlir kunningjar Quarashi, Smári Jósepson og Gaukur Úlfarsson, spila á gítar og bassa á plötunni, svo einhverjir séu nefndir.

Tiny virðist hafa haft mikil áhrif á hljómsveitina þótt hann sé aðeins búinn að vera í liðsmaður í tæpt ár. Hann segir Guerilla Disco öðruvísi en það sem Quarashi hefur áður gert. "Þetta er meira í hipp hopp-stílnum en það eru líka nokkur lög þarna af gamla skólanum. Tónlistarsmekkurinn hans Sölva er að þróast í aðra átt og áhrifavaldarnir eru aðrir en áður."

Tiny svarar því eftir nokkra umhugsun hvert sé aðalsmerki sveitarinnar. "Ætli það sé ekki að það er spilað á alvöru hljóðfæri í öllum lögum og pródúseringin er mjög góð og það er Sölvi sem stendur fyrir því. Hann er mjög duglegur að fá hljóðfæraleikara til að koma og spila inn það sem er í hausnum á honum."

Tiny er maður tungunnar en vill ekkert ræða um boðskap texta sinna. "Ég vil bara halda því fyrir mig. Ég vil ekkert vera að persónugera alla texta sem ég skrifa," segir hann en engir textar fylgja með í plötuumslaginu. "Það er markviss ákvörðun af minni hálfu. Ég vil að fólk hlusti á lagið með texanum en sé ekki að lesa textann og hugsa þetta sem eitthvað ljóð. Textarnir í rappi eru svo stór hluti af tónlistinni sjálfri," segir Tiny sem hefur fengist við rapp og textasmíð frá ellefu ára aldri.

Mennt er máttur

Á þessum tíma hefur hann eins og gefur að skilja þróast mikið, ekki síst síðustu mánuði enda búinn að leggja hart að sér. "Maður er búinn að skrifa hellling og maður verður alltaf betri og betri með æfingunni. Það er nóg að gera. Ég er í byggingavinnu á daginn og kvöldskóla á kvöldin. Það getur verið mjög tæpt á köflum," segir Tiny, sem langar til að klára skólann. "Já, mennt er máttur."

Tónleikarnir á morgun með Prodigy leggjast vel í hann. "Ég og Sölvi erum miklir aðdáendur grúppunnar. Við tökum megnið af nýju plötunni. Þetta verður klukkutíma prógramm býst ég við. Fólk fær forskot á það að heyra þessi lög á tónleikum," segir hann en þó liggur fyrir að útgáfutónleikar verða haldnir þó ekki sé ljóst hvar eða hvenær.

Quarashi veitti dyggum aðdáendum forskot á sæluna í gærkvöldi og var að árita nýju plötuna við Skífuna á Laugaveginum. Þeir sem misstu af því fá annað tækifæri því Quarashi verður að árita í Skífunni í Kringlunni kl. 15 á laugardaginn kemur.

ingarun@mbl.is