Einnig er bent á að ráðuneytið fylgist vel með t.d. stangveiði, mati á áburði, fræjum, kjöti og ull. Og loks það sem við vitum að er aðalhlutverkið; á könnu landbúnaðarráðuneytisins er "verðmyndun og innflutningur".

Er það nokkur hemja hvað illa var búið að vörslu forngripa á Íslandi fram á þetta ár og er jafnvel enn? Ljóst er hver orsök vandans er: skortur á sérstöku ráðuneyti. Ef fyrir hendi væri ráðuneyti fyrir þau hundruð karla og kvenna sem hafa starfa sinn af fornminjum hefði þessum málum verið betur sinnt. Og þannig mætti halda áfram að telja upp fjölmörg viðfangsefni sem væru best komin hjá sérstöku fagráðuneyti. Ráðuneyti sem liti svo á að það hefði það hlutverk að standa vörð um sitt svið og hagsmuni ákveðins hóps í samfélaginu. En ekki hagsmuni allra landsmanna.

Þetta hljómar eins og hvert annað endemis rugl og er það auðvitað. En fyrirmyndin er þegar til: landbúnaðarráðuneytið okkar gamla og gróna og reyndar má segja að það sama eigi við um önnur atvinnuvegaráðuneyti. Best væri að sjálfsögðu að aðeins eitt slíkt væri til og hagsmunasamtök hefðu þar engan fulltrúa.

Á heimasíðu landbúnaðarráðuneytisins stendur meðal annars: "Landbúnaðarráðuneytið vinnur að því að bæta kjör bænda og fólks sem starfar að landbúnaði, tryggja gæði og öryggi í matvælaframleiðslunni og beina rannsóknum að lausn tæknilegra og efnahagslegra vandamála landbúnaðarins." Einnig er bent á að ráðuneytið fylgist vel með t.d. stangveiði, mati á áburði, fræjum, kjöti og ull. Og loks það sem við vitum að er aðalhlutverkið; á könnu landbúnaðarráðuneytisins er "verðmyndun og innflutningur". Þetta er langdýrasti liðurinn en alls kostar ráðuneytið okkur um átta milljarða á ári í styrki og niðurgreiðslur. Um 8.000.000.000.000 kr. nettó, þá er víst búið að draga frá tekjur sem koma á móti útgjöldunum.

Þetta er ekki ráðuneyti sem á að standa vörð um hagsmuni neytenda ef undanskilið er ákvæðið um gæði og öryggi. Því er vafalaust ætlað að vera fyrir neytendur. En varla þarf að hafa sérstakt ráðuneyti til að koma í veg fyrir matareitranir. Við erum ekki með sérstakt ráðuneyti til að fylgjast með hættulegu rafmagnsdóti, þótt slysin séu mörg. Gæðin á vörunni getum við sjálf metið þegar við borðum matinn, engin þörf er á ráðuneytismanni til að horfa yfir öxlina á okkur.

Hvers vegna sérstakt ráðuneyti fyrir landbúnað en ekki ferðaþjónustuna? Rökin sem menn nota eru þau að svona hafi þetta verið svo lengi. Efnisleg rök eru ekki lengur til. Landbúnaður var einu sinni undirstaða þjóðlífs í landinu en sá tími er löngu liðinn. Við getum velt því fyrir okkur að slæmt væri að láta byggð í sveitum leggjast algerlega af en þurfum ekki sérstakt ráðuneyti til að halda í gamalt byggðamynstur.

Satt að segja ætti að geta náðst mun meiri samstaða um forngripina vegna þess að allur þorri Íslendinga vill áreiðanlega að fornmunir séu áfram varðveittir og stundaðar séu rannsóknir, fornleifar grafnar úr jörðu. En margir líta hins vegar svo á að íslenskur landbúnaður sé allt of þungur baggi og draga beri úr styrkjum til hans, jafnvel leggja þá niður.

Við getum keypt ódýrari mat frá öðrum löndum á sama hátt og við kaupum þaðan bíla og flugvélar vegna þess að of dýrt yrði fyrir okkur að framleiða þessa hluti hér heima. Eitthvað yrði sagt ef við yrðum öll skikkuð til að kaupa eingöngu íslenska bílinn Sjálfrenning, 20 milljón króna jeppling með sex hátölurum og startara, sagt að ella myndu bílasmiðirnir okkar kannski verða að leita að öðru starfi. Við myndum segja að okkur dygðu vel ódýru, útlendu bílarnir.

Er ekki rétt að huga að svipuðum rökum varðandi matinn? Þýðingarlaust er að benda á að aðrar þjóðir niðurgreiði líka landbúnaðinn hjá sér. Við eigum ekki að apa alla vitleysu eftir öðrum þjóðum og auk þess erum við nærri því heimsmeistarar í styrkjum til landbúnaðar. Ef fólk vill styðja innlendan landbúnað getur það gert það með því að ákveða sjálft að kaupa íslenskt.

Einhverjir munu segja að þetta sé atlaga að bændum. En þannig er málið ekki vaxið. Ekki þekki ég nokkurn sem vill bændum illt. En bændur eiga ekki fremur skilið eigið ráðuneyti en blaðamenn.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra er gamansamur maður en stundum minnir spaugið meira á blöndu af undarlegri gátu og hrollvekju. Eins og til dæmis nýja embættið, Umboðsmaður íslenska hestsins. Ekki hef ég enn hitt nokkurn mann sem skilur hver röksemdafærslan er á bak við þessa stórfurðulegu hugmynd, nema þá að fundist hafi í ráðuneytinu gamall peningasjóður sem menn hafi þurft að losna við. En reyndar hef ég aldrei spurt hestana.

Ráðherrann varpaði nýlega fram þeirri hugmynd að öllum fermingarbörnum yrði tryggð minnst hálfs mánaðar dvöl í sveit. Kostnaðurinn yrði um 135 milljónir. Hann sagði að vísu að samtök bænda ættu líka að koma að málinu en ekki kæmi á óvart ef ríkissjóður eða sveitarfélög borguðu að mestu brúsann.

Hefðbundin sveitastörf eru vafalaust góð og holl fyrir marga, þrátt fyrir alla hávaðamengun frá traktorum og öðrum tækjum bænda. En ekki dettur mér í hug að fara fram á að Blaðamannafélagið fái opinbera aðila til að verja stórfé á næsta ári til að gera öllum fermingarbörnum kleift að vinna létt störf á fjölmiðli í hálfan mánuð. Samt efast ég ekki um að þetta gæti verið gagnleg reynsla fyrir börnin. Þau myndu kynnast mikilvægum þætti í þjóðlífinu. En það er ekki hlutverk opinberra aðila að standa í svona hlutum. Foreldrar og börn geta sjálf tekið ákvörðun um sumarleyfin sín.

Kristján Jónssonkjon@mbl.is