— Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
JÓN Kristjánsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að koma á vinnuhópi til að skoða gaumgæfilega málefni alzheimersjúklinga, sem eru yngri en 67 ára. Skýrði hann frá þessu á Alþingi í gær eftir að Ásta R. Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hafði spurt hann að því hvort hann hygðist beita sér fyrir því að alzheimersjúklingar, yngri en 67, fengju aðgang að hjúkrunarheimilum.

Ráðherra kvaðst myndu óska eftir því að vinnuhópurinn skilaði áliti um þetta málefni, ásamt tillögum um úrbætur og framtíðarfyrirkomulag. Ásta sagði að alzheimersjúkdómurinn væri hrörnunarsjúkdómur og talið væri að hann hrjáði um 35% þeirra sem orðnir væru 85 ára. "Sjúkdómurinn er þó ekki aðeins bundinn við eldra fólk. Er talið að um 100 til 150 manns á aldrinum 45 til 65 ára séu með heilabilun hér á landi miðað við tölur frá nágrannalöndunum. Árlega koma um 15 manns á þeim aldri til greiningar á minnismóttöku Landspítala og einhverjir fá greiningu hjá tauga- og geðlæknum."

Ásta sagði að aðstæður þessara yngri og miðaldra sjúklinga væru aðrar en aldraðra. Þeir væru t.d. með börn og væru í vinnu. "Öll þjónusta fyrir alzheimarsjúklinga hér á landi miðast við aldraða," sagði hún ennfremur. "Því er staða yngri sjúklinganna mun verri en ella. Þeim og aðstandendum þeirra finnst þeir ekki eiga samleið með öldruðum s.s. á dagdeildum og á hvíldarinnlögnum, þannig að aðstandendur eiga erfitt með að þiggja þessa þjónustu og ganga mjög nærri eigin heilsu til að annast sjúklinga heima enda geta sjúklingarnir verið hættulegir bæði sjálfum sér og öðrum. Þeir þurfa mikla gæslu." Bætti hún því við að samkvæmt sínum heimildum væri engin sérhæfð þjónusta fyrir þennan sjúklingahóp.

Neitað um hjúkrunarvist

Ásta sagði að þessi hópur hefði heldur ekki aðgang að hjúkrunarheimilum, þegar sjúkdómurinn yrði verri, eins og áður. "Þeim hefur verið lokað fyrir sjúklingum undir 67 ára og ekki er unnt að sækja um fyrir þá þótt þeir séu með vistunarmat," sagði hún. "Unnt er að sækja um undanþágu til ráðherra en þrátt fyrir það að hún fáist neita heimilin jafnvel þeim um hjúkrunarvist. Þetta fólk þarf þá að bíða í rándýrum sjúkrarúmum til 67 ára aldurs. Þá getur það komist á biðlista eftir hjúkrunarheimili. Þetta er auðvitað gjörsamlega óviðunandi ástand. Hér á aldur auðvitað ekki að skipta máli heldur hjúkrunarþörf þess einstaklings sem á við þennan sjúkdóm að stríða."

Ráðherra sagði í svari sínu að margir aðilar sinntu málefnum heilabilaðra, þar á meðal alzheimarsjúklinga. "Sé horft til þjónustu við heilabilaða utan öldrunarstofnana stendur öllum sama þjónustan til boða óháð aldri." Hann sagði að þegar grunur vaknaði um heilabilunarsjúkdóm væru heilsugæslulæknar gjarnan fyrsti viðkomustaðurinn. Þá væri sjúklingum oft vísað á minnismóttöku LSH, þar sem fram færi greining á því hvort um heilabilun væri að ræða. "Minnismóttakan er starfrækt á öldunarsviði sjúkrahússins en er þó ekki bundin við ákveðna aldurshópa."

Þyrfti 60 til 70 hjúkrunarrúm

Ráðherra sagði að í lögum um málefni aldraðra væru aldraðir skilgreindir sem þeir sem væru 67 ára og eldri. Stofnanir aldraðra væru því strangt til tekið einungis ætlaðar þeim sem væru eldri en 67 ára. Eigi að síður hefði fólk, yngra en 67 ára, sem þjáðist af öldrunarsjúkdómum á borð við alzheimar fengið vistun á öldrunarstofnunum. Ráðuneytið veitti undanþágu fyrir slíkri vistun. "Skiptar skoðanir eru þó um það hvort rétt sé að vista einstaklinga yngri en 67 ára á stofnunum fyrir aldraða." Sagði ráðherra því næst að hann hefði ákveðið að skipa fyrrgreindan vinnuhóp til að skoða þessi málefni gaumgæfilega. Ásta ítrekaði undir lok umræðunnar að þrátt fyrir undanþágur fengi fólk yngra en 67 ára ekki inngöngu á hjúkrunarheimili. Sagði hún að í raun þyrfti um 60 til 70 hjúkrunarrúm fyrir þennan hóp. Mjög brýnt væri að ráða úr vanda hans. Ráðherra ítrekaði að hann vildi gera sitt til að hraða starfi vinnuhópsins. "Ég vil eigi að síður fá upp á borðið tillögur um hvernig hinir færustu menn vilja haga þessari þjónustu til framtíðar."