SJÖ af hverjum tíu erlendum ferðamönnum á Íslandi í sumar komu á eigin vegum, samkvæmt könnun Rannsókna og ráðgjafar ehf. sem gerð var við brottför í Leifsstöð og á Seyðisfirði.

SJÖ af hverjum tíu erlendum ferðamönnum á Íslandi í sumar komu á eigin vegum, samkvæmt könnun Rannsókna og ráðgjafar ehf. sem gerð var við brottför í Leifsstöð og á Seyðisfirði. Að sögn Rögnvaldar Guðmundssonar hjá Rannsóknum og ráðgjöf hefur hlutfall þeirra sem ferðast á eigin vegum hækkað nokkuð á liðnum árum en á móti kváðust 30% hafa komið í skipulagðri hópferð.

Meðalgistináttafjöldi erlendra ferðamanna í sumar var 9,8 nætur og hefur gistinóttum heldur fækkað, voru rúmlega 10 í fyrra og 11 árið 1998. Þeir sem ferðast á eigin vegum dvelja að jafnaði lengur á landinu en þeir sem koma í hópferð, skv. könnuninni.

Segir gistináttatölur Hagstofu gefa ranga mynd

Að sögn Rögnvaldar komu um 167 þúsund ferðamenn til Íslands um Leifsstöð frá byrjun júní til loka ágúst en við bætast farþegar með Norrönu og farþegar frá Færeyjum og Grænlandi sem fóru um Reykjavíkurflugvöll, eða alls um 176 þúsund ferðamenn. Samkvæmt könnuninni má gera ráð fyrir að gistinætur hafi verið 1,7 milljónir talsins. Rögnvaldur bendir á að skv. gistináttatölum Hagstofunnar frá í fyrra hafi fjöldinn numið 1,6 milljónum allt árið þótt vitað sé að tölurnar eru mun hærri. Misræmið kunni að skýrast af því að hóteleigendur sendi ekki inn réttar upplýsingar til Hagstofunnar auk þess sem hluti gistinátta fari einfaldlega framhjá skráningu af öðrum orsökum.

Í könnuninni kemur fram að ferðamenn frá meginlandi Evrópu dvelja að jafnaði lengur á Íslandi (11-13 nætur) en ferðamenn frá Norðurlandaþjóðunum (7-8 nætur) og þeir sem yngri eru dvelja lengur á landinu. Þá stoppa ferðamenn lengur eftir því sem líður á sumarið.

Spurt var í könnuninni hvar fólk hefði fengið upplýsingar um Ísland og kemur fram að einungis 6% fengu upplýsingar í gegnum auglýsingar en 60% með aðstoð Netsins.