Eiður Smári Guðjohnsen sést hér skora mark Íslands með þrumuskoti.
Eiður Smári Guðjohnsen sést hér skora mark Íslands með þrumuskoti. — Morgunblaðið/Golli
"ÉG er sársvekktur með þennan leik og stöðuna í riðlinum. Ég fer í alla leiki til að vinna og eina sárabótin var að mér tókst að skora og bæta þannig aðeins þá vondu stöðu sem við vorum komnir í," sagði Eiður Smári Guðjohnsen, fyrirliði íslenska landsliðsins, við Morgunblaðið en Eiður skoraði sitt 13. landsliðsmark.

Við vorum mjög lélegir í fyrri hálfleik og það er ákveðið reynsluleysi að láta þá skora þegar við vorum manni færri. Við áttum að lesa leikinn betur og ekki bjóða þeim upp á að komast í skyndisókn þrír á móti þremur. Það var allt annað lið sem mætti til leiks hjá okkur í seinni hálfleik. Þá kom loks baráttan og krafturinn sem var ekki til staðar í fyrri hálfleik og við náðum svona aðeins að bjarga andlitinu," sagði Eiður.

Nú er uppskeran eitt stig eftir fjóra fyrstu leikina. Þarf ekki eitthvað að breytast áður en næsti leikur í keppninni verður í mars?

,,Ég vil ekki hlusta á þá umræðu að það þurfi að skipta um þjálfara því við erum ekki nógu stór þjóð til að standa í þjálfaraskiptum eftir þrjá tapleiki. Ef á að fara gera slíkt þá verður aldrei til neinn stöðugleiki í liðinu. Við verðum bara að setjast niður og skoða þennan leik sérstaklega því ég held að hann gefi frábæra mynd af hvað vantar hjá okkur. Við sýndum í seinni hálfleik hvað vantaði og mér er alveg sama þó svo að Svíarnir hafi ekki leikið af fullum styrk."

Nú er langt í næsta leik. Finnst þér rétt að hleypa yngri mönnum inn í hópinn og gefa þeim tækifæri og byggja þannig upp nýtt lið?

"Það er ekki mitt að ákveða það. Ég hef ekki séð mikið til 21 árs liðsins en auðvitað má alltaf gefa ungum og efnilegum strákum tækifæri þegar þeir eiga það skilið," sagði Eiður.

Arnór Guðjohnsen: Stemningsleysi í liðinu og áhorfendum

Arnór, faðir Eiðs Smára, var eins svekktur og allir þeir Íslendingar sem lögðu leið sína á Laugardalsvöllinn.

"Mér fannst liðið hefja leikinn af gríðarlegu óöryggi og við leyfðum Svíunum að gera það sem þeir vildu. Menn hafa spurt sig mikið út í leikaðferðina og í sjálfu sér er ekkert að henni en það er alveg ljóst að ef lið spilar með tvo miðverði og einn fríherja fyrir aftan þá eiga skilaboðin fyrir miðverðina að vera þau að þeir eigi að dekka framherjana. Það var því miður ekki gert enda skoruðu framherjarnir þrjú af fjórum mörkum Svíanna," sagði Arnór Guðjohnsen við Morgunblaðið.

,,Fyrsta markið var mikið kjaftshögg og það virtist algjörlega slökkva í liðinu. Úrslitin minna mig töluvert á það þegar ég var að byrja með landsliðinu. Þá fengum við á stundum skelli en það er ansi langt síðan."

Nú er staða Íslendinga afar slök. Eitt stig í fjórum leikjum. Hvað á til bragðs að taka til að rétta við gengi liðsins?

,,Ásgeir og Logi þekkja þetta best og þeir munu eflaust vinna hörðum höndum að því að finna einhverjar lausnir. Þetta sama lið hefur sýnt að það getur gert góða hluti en það er eitthvert stemningsleysi ríkjandi í liðinu og ekki bara hjá því heldur í Íslendingum. Ég ætlaði ekki að trúa því þegar ég settist upp í stúku að sjá og heyra hversu stemningin hjá áhorfendum var lítil. Ég man það sjálfur hvað það var gaman að koma heim og spila fyrir þjóðina enda var stemningin í "gamla daga" frábær og áhorfendur okkar tólfti maður. Þessu þurfum við að breyta."

Guðmundur Hilmarsson skrifar