Svona getur farið þegar leikið er á móti heimsklassaliði," sagði Hermann Hreiðarsson, vonsvikinn, eftir tapið fyrir Svíum í gærkvöld. "Við vorum einum færri í tvær mínútur í fyrri hálfleik og þá var okkur refsað um leið.

Svona getur farið þegar leikið er á móti heimsklassaliði," sagði Hermann Hreiðarsson, vonsvikinn, eftir tapið fyrir Svíum í gærkvöld. "Við vorum einum færri í tvær mínútur í fyrri hálfleik og þá var okkur refsað um leið. Annað markið kom síðan fljótlega á eftir upp úr hröðu upphlaupi. Þá var staðan orðin slæm," segir Hermann sem bætir við að varnarleikurinn hafi verið í lagi fyrstu 20 mínúturnar. "Okkur leið vel í vörninni en vorum kannski ekki að gera mikið í sókninni en um leið og við fórum framar þá var okkur refsað," segir Hermann og bætir því við í síðari hálfleik hafi spurningin aðeins snúist um að halda virðingunni, halda áfram að berjast.

"Þessi úrslit eru gífurleg vonbrigði og upphaf okkar í þessari riðlakeppni hefur verið skelfilegt. Nú verðum við bara að byrja upp á nýtt á nýju ári og vona að heppnin verði aðeins á okkar bandi. Við verðum allir að líta í eigin barm, við höfum verið lengi saman og ég hef fulla trú á að okkur takist að sækja í okkur veðrið á nýjan leik," segir Hermann Hreiðarsson sem hefur ennfremur fulla trú á þjálfurum landsliðsins, Ásgeiri Sigurvinssyni og Loga Ólafssyni. "Þeir hafa fullan stuðning frá öllum hópnum."

Arfaslakir í fyrri hálfleik

"Í upphafi tókst okkur að leika eins og lagt var upp með, héldum stöðum okkar og þreifuðum um leið á þeim, könnuðum hvaða möguleika við hefðum. Síðan fórum við að láta ekki draga okkur út úr stöðum, þvert ofan í það sem um var rætt fyrirfram," sagði Pétur Hafliði Marteinsson, einn varnarmanna íslenska landsliðsins, að leikslokum á Laugardalsvelli í gærkvöldi. "Þegar Indriði [Sigurðsson] meiddist fórum við fram á völlinn í stað þess að bíða eftir að varamaður kæmi inn á. Í þeirri stöðu kom fyrsta markið. Í kjölfarið fórum við að sækja, sem ekki var skynsamlegt, og annað markið kom í bakið á okkur upp úr einni sókninni. Hreint út sagt þá lékum við alveg arfaslakan fyrri hálfleik, gerðum taktísk mistök og það er nokkuð sem við verðum að lifa með. Almenningur og fjölmiðlar gagnrýna okkur eflaust með því að segja að við leggjum okkur ekki fram í leiknum en þeirri fullyrðingu er ég ekki sammála. Það er okkar í liðinu að lifa með þessum úrslitum," sagði Pétur Hafliði og bætti því við að það hefði verið ömurleg tilfinning að fara inn í búningsklefa í hálfleik og vera fjórum mörkum undir. "Við lékum betur í síðari hálfleik en því má heldur ekki gleyma að Svíarnir slökuðu þá nokkuð á klónni. En það verður ekki létt að kyngja þessum úrslitum."

Eftir Ívar Benediktsson