Ásgeir Sigurvinsson og Logi Ólafsson landsliðsþjálfarar voru alvörugefnir á Laugardalsvellinum.
Ásgeir Sigurvinsson og Logi Ólafsson landsliðsþjálfarar voru alvörugefnir á Laugardalsvellinum. — Morgunblaðið/Golli
"ÞESSIR haustmánuðir hafa alls ekki verið okkur hagstæðir," sagði Logi Ólafsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, vonsvikinn að leikslokum eftir 1:4 tap íslenska landsliðsins fyrir Svíum á Laugardalsvelli í gærkvöldi.

"ÞESSIR haustmánuðir hafa alls ekki verið okkur hagstæðir," sagði Logi Ólafsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, vonsvikinn að leikslokum eftir 1:4 tap íslenska landsliðsins fyrir Svíum á Laugardalsvelli í gærkvöldi. Logi segir sænska liðið vera frábært en það sé ekki afsökun fyrir að tapa svo stórt sem raun ber vitni um. Varnarleikurinn sé langt frá því að vera viðunandi og ljóst sé að nokkrir leikmenn liðsins séu ekki í eins góðu ásigkomulagi og þeir voru í fyrir ári þegar betur gekk, það sé ein ástæða fyrir því að nú gangi íslenska landsliðinu flest í mót og það hafi aðeins náð einu stigi úr fjórum fyrstu leikjum sínum í undankeppni heimsmeistaramótsins.

Til að byrja með í þessum leik gekk allt nokkuð vel og við vorum hægt og rólega að vinna okkur inn í leikinn án þess að Svíarnir næðu að ógna svo nokkru næmi. Síðan fékk Indriði [Sigurðsson] höfuðhögg og fór út af, á meðan fengum við á okkur fyrsta markið. Eigi að síður voru nógu margir menn inni í vítateignum til að hreinsa boltann frá. Síðan urðu okkur á önnur mistök sem leiddu til annars marksins, rothöggin sem við fengum voru tvo fyrstu mörkin, eftir það var eftirleikurinn Svíum auðveldur," sagði Logi. "Svona var þetta, Svíarnir eru með hörkulið sem refsar andstæðingnum grimmilega fyrir hver mistök sem hann gerir. Hvað sem því liður þá er ljóst að við getum ekki gefið andstæðingum okkar svona auðveld mörk eins og við höfum gert í síðustu leikjum. Að þessu sinni átti heldur betur að koma í veg fyrir það með því að leika með þrjá miðverði, en samt tókst ekki að koma í veg fyrir mörkin," segir Logi sem telur að sá lærdómur sem íslenska liðið getur dregið af leiknum sé fyrst og fremst sá að læra af Svíunum.

"Ég dreg enga fjöður yfir það að þetta var afskaplega illa að verki staðið hjá okkur í þessum leik, einkum í fyrri hálfleik. Það jákvæða var að strákarnir héldu áfram að berjast og fóru ekki út í neina vitleysu þegar staðan var orðin vonlaus."

Spurður hvort það væri ekki að koma betur og betur í ljós að varnaraðferð íslenska landsliðsins hentaði ekki vildi Logi ekki viðurkenna að svo væri. "Ég held því fram að við séum ekki að fá þessi mörk á okkur vegna leikkerfisins, í tveimur fyrstu mörkunum voru nógu margir varnarmenn fyrir hendi til þess að koma í veg fyrir mörkin."

Eru varnarmennirnir þá svona lélegir?

"Það er alveg ljóst að varnarmenn okkar eiga í vandræðum með sóknarmenn eins og þá sem Svíarnir hafa á sínum snærum. Með þessu er ég þó ekki að segja að okkar varnarmenn séu lélegir."

Stendur eitthvað til hjá þér og Ásgeiri Sigurvinssyni að endurmeta stöðu ykkar sem landsliðsins þjálfara í ljósi úrslita síðustu leikja?

"Það hafa engar ákvarðanir verið teknar í þeim efnum, en það er ekki á döfinni að hætta. Að þessu sinni töpuðum við fyrir mjög góðu liði, töpuðum reyndar alltof stórt."

Ísland hefur nú aðeins eitt stig að loknum fjórum leikjum í undankeppni HM og víst er að það er nokkuð frá þeim væntingum sem gerðar voru þegar keppnin hófst í haust. Logi viðurkennir fúslega að svo sé og einnig að sú lukka sem hafi verið yfir íslenska landsliðinu á síðasta ári sé á bak og burt, einkum þá í varnarleiknum. "Fyrst og fremst er varnarleikurinn slakur og langt frá því að vera viðunandi. Ef við ætlum að ná árangri þá verður þessi þáttur að vera mun betri en nú er."

Er ástand varnarmanna slakara nú en í fyrra?

"Við höfum farið gaumgæfilega yfir þetta atriði meðal annars. Þar með er hægt að leiða að líkum að því að það sé vegna þess að okkar menn eru almennt ekki í eins góðu ásigkomulagi og þeir voru í fyrra og þar af leiðandi nái þeir sér ekki á strik. Þetta á ekki aðeins við um öftustu varnarmennina, þetta á einnig við um þá sem eru fyrir framan. Ég hugsa að þetta sé ein af ástæðunum fyrir því að okkur gengur verr nú en í fyrra. Í þessum orðum mínum eru ákveðnar þversagnir vegna þess að þá voru margir þessara manna varamenn í sínum liðum, ólíkt því sem er nú. Keppnistímabilið er nýlega hafið og ég vona að þessum mönnum eigi eftir vaxa ásmegin hjá sínum og liðum og þeir komi tvíefldir til leiks á næsta ári með íslenska landsliðinu," sagði Logi Ólafsson, annar landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu.

Eftir Ívar Benediktsson