ÖRNUM hefur fjölgað jafnt og þétt á síðasta áratug og í vor verptu rúmlega 60 pör hér á landi. Þetta er mikil framför frá síðustu öld þegar arnarpörin urðu fæst 21.

ÖRNUM hefur fjölgað jafnt og þétt á síðasta áratug og í vor verptu rúmlega 60 pör hér á landi. Þetta er mikil framför frá síðustu öld þegar arnarpörin urðu fæst 21. Assa hefur nýlega verpt á Norðurlandi þar sem ernir höfðu varla sést í heila öld og stutt er síðan arnarpar kom upp ungum á Suðurlandi eftir um 50 ára fjarveru tegundarinnar þaðan. Stofninn á þó enn langt í land til að ná fyrri stærð.

Þetta kom fram í fyrirlestri Kristins Hauks Skarphéðinssonar, dýravistfræðings á Náttúrufræðistofnun Íslands, á stofnuninni í gær.

Á þessu ári eru 90 ár liðin frá því ernir voru alfriðaðir. Á þeim tíma hefur varppörum fjölgað úr 38 í 63. Kristinn Haukur sagði að á undanförnum árum hefðu arnarbyggðir orðið þéttari en ernir lítið leitað út fyrir uppeldisstöðvarnar. Á næstu árum mætti á hinn bóginn búast við að stofninn dreifði úr sér. Hann býst við að eftir áratug verði 90 arnarpör í landinu og í raun ekkert því til fyrirstöðu að hér verði 200 arnarpör.