Síðdegistónleikar útvarpsþáttarins Karate (X-ið, 97.7). Fram komu The Foghorns, Jan Mayen, Þórir, Retron og Isidor. Hellirinn er nýr tónleikastaður við Hólmaslóð 2, Granda og er rekinn af Tónlistarþróunarmiðstöðinni. Laugardagurinn 9. október 2004.

HELLINUM er ætlað að sinna því mikilvæga hlutverki að bjóða upp á tónleika sem opnir eru öllum aldurshópum. Það er bölvanlegt fyrir sautján ára áhugamenn um tónlist að komast hvergi inn til að sjá uppáhaldshljómsveitirnar sínar.

Engu að síður var mæting á þessa tónleika slök, einhverra hluta vegna. Inni í salnum voru þeir Benni, umsjónarmaður Karate, og Villi úr I Adapt með sölubás þar sem hægt var að kaupa blöð, plötur og diska og er þetta jákvæð nýlunda í tónleikahaldi.

Tónleikarnir hófust rétt eftir 17.00 með leik The Foghorns. Gítarleikari og söngvari er Bart nokkur Cameron, blaðamaður á Grapevine og var honum liðsinnt af trymbli, sem lék á þvottabala af mikilli list. Tónlistin sæmilega forvitnileg, strípað og gróft kassagítarrokk með skringilegum vinklum og Cameron leiddi settið af öryggi.

Jan Mayen voru næstir en fyrsta breiðskífa þeirra, Home of the Free Indeed, kemur út í vikunni. Jan Mayen skipti um stefnu fyrir nokkrum misserum, fór úr naumhyggjulegu síðrokki yfir í kröftugt og hressilegt nýbylgjurokk sem er nokkuð órætt og með fæturna beggja vegna Atlantsála hvað áhrifavalda varðar. Sveitin rokkar af krafti og er vel þétt en það sem dregur hana helst niður er að sum lögin eru óþarflega flöt og óspennandi. Næstur á svið var söngvaskáldið Þórir, en fyrsta breiðskífa hans er væntanleg á næstu dögum. Þórir er með einhverja náttúrulega tónlistartaug, lögin eru melódísk og heillandi. Söngröddin fær mann til að sperra upp eyrun og þrátt fyrir viðkvæmnisleg og brothætt lög dettur hann aldrei niður í væmni. Mjög lofandi. Honum til aðstoðar var trommarinn Óli (sem er með Þóri í harðkjarnasveitinni Fighting Shit).

Retron er undarlegt band, svona eins og Fucking Champs blandað með tónlist úr tölvuleik úr Sinclair Spectrum 48K (eða Amstrad eða Commadore). Tveir gítarleikarar, Kolli (sem eitt sinn var í hinni stórkostlegu hljómsveit Graveslime) og Kári voru ákveðnir á svip þar sem þeir spiluðu hetjugítarstef að hætti Manowar og tilkynntu lög sem hétu nöfnum eins og "Return of the Iron Goblet" (eða eitthvað svoleiðis) og "Bloodlines". Retron voru einfaldlega frábærir, súrrealísk snilld sem var að ganga skemmtilega upp. Settið þeirra var samt heldur langt. Síðastir voru Isidor, sem nýverið gáfu út plötu, Betty Takes a Ride. Lög sveitarinnar voru þó afskaplega stefnulaus, á tímabili eins og verið væri að semja þau á staðnum. Ástríða meðlima leyndi sér ekki, rokkið mikið og kröftugt, en lagasmíðahliðin í einkennilegu limbói.

Arnar Eggert Thoroddsen