Dóra Guðrún Magdalena Ásta Guðbjartsdóttir fæddist að Laugavegi 30b í Reykjavík 4. ágúst 1915. Hún lést föstudaginn 3. september síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Dómkirkjunni 14. september.

Með örfáum orðum langar okkur systkinin að minnast Dóru Guðbjartsdóttur að leiðarlokum eftir áratugalöng og farsæl kynni.

Dóra var fædd í Reykjavík 4. ágúst 1915 og var því nýlega orðin 89 ára gömul er hún lést. Hún ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur ásamt systkinum sínum, börnum Guðbjarts Ólafssonar skipstjóra og ÁstbjargarJónsdóttur.

Snemma kom í ljós að Dóra var búin góðum námshæfileikum og um tvítugt lauk hún stúdentsprófi frá MR þó engan veginn þætti sjálfsagt að stúlkur stunduðu slíkt nám á þeim árum og naut þar skilnings foreldra sinna. Að stúdentsprófi loknu tók hún að sér heimiliskennslu vetrarlangt austur í Rangárvallasýslu en hóf síðan störf við Atvinnudeild Háskólans, sem var til húsa í kjallara aðalbyggingarinnar. Hún minntist oft skemmtilegra atvika á Atvinnudeildinni og eftirminnilegs samstarfsfólks. Til að ná betri tökum á starfi sínu stundaði Dóra nám samhliða vinnu sinni í efnafræði með læknastúdentum og námsárangurinn varð glæsilegur, en á þessum árum stóð hugur hennar þó fremur til náms í guðfræði, sem ekki gat kallast sérstaklega árennileg grein fyrir ungar stúlkur á þeim tíma. Eftir að Dóra og Ólafur giftust sneri hún sér hins vegar alfarið að heimilinu.

Kynni okkar við fjölskylduna eru til komin vegna ættartengsla og vinuáttubanda við dóttur Dóru og Ólafs. Þegar fjölskylda okkar hins vegar flutti á Oddagötu 10, skammt frá heimili Dóru, leið ekki á löngu þar til við vorum öll þrjú orðin meira og minna heimagangar þar.

Og þó um stjórnmálamanninn Ólaf Jóhannesson blésu óhjákvæmilega pólitískir vindar var á Aragötu 13 sérstakur heimur út af fyrir sig, fjarri þeim sviptingum sem störfum Ólafs gátu fylgt. Dóra hafði ótrúlegt lag á að láta erilinn stöðvast við útidyrahurðina, og á heimilinu ríkti óvenjuleg friðsæld. Dóra virtist alltaf hafa nægan tíma til að lesa sögu fyrir yngri kynslóðina eða spjalla við gesti og gangandi, þó hún hefði síst færri störfum að sinna en aðrir. Einnig sátum við löngum stundum og spiluðum við hana á spil og lögðum fyrir hana flóknar spurningar um lífsgátuna sem hún hafði jafnan skorinorð svör við. Af undirrituðum er til sú saga, að móðir okkar hafi ætlað að stilla heimsóknum hans á Aragötu í hóf, sennilega um það leyti sem hann var að byrja í skóla, en uppskorið heldur snúðugt svar: "Ég má nú líklega heimsækja vinkonu mína!"

Dóra Guðbjartsdóttir og Ólafur Jóhannesson voru mæt hjón sem reyndust samferðamönnum sínum vel. Og það er nú einu sinni svo, að Dóru verður tæplega minnst án þess að nefna Ólaf í sömu andrá, svo samrýnd voru þau og samhent í öllu sem þau gerðu, allt þar til Ólafur féll frá um aldur fram. Nú eru þau gengin sömu leið og Guðbjartur sonur þeirra sem andaðist ungur. Við sendum Dóru yngri, Kristrúnu, Einari Gunnari, Ólafi Jóhannesi og Guðbjarti Jóni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Gunnvör, Bergþóra

og Þorkell.