Anna Pálína Jónsdóttir fæddist í Klakksvík í Færeyjum 14. október 1929. Hún lést á Selfossi 15. ágúst síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Vídalínskirkju í Garðabæ 24. ágúst.

Í dag, 14. okt., hefði móðir mín Pálína Jónsdóttir orðið 75 ára en hún lést 15. ágúst. Hún var stórbrotin kona sem geislaði af, hreinskiptin og glettin. Lífið fór ekki mjúkum höndum um hana þegar hún var ung stúlka en hún kom til Íslands frá Færeyjum með þrjú lítil börn í leit að vinnu. Leiðir foreldra minna lágu síðan saman og bjuggu þau myndarbúskap á Sauðhúsum þar til 1993 er þau brugðu búi. Mamma var mikill dugnaðarforkur. Jafnframt því að sjá um stórt heimili vann hún í kaupfélaginu í Búðardal í mörg ár. Síðast en ekki síst var áhugamálið hennar garðrækt, en hún var með glæsilegan garð. Oft kom það fyrir á sumrin að næturnar hjá henni fóru í garðvinnu er hana vantaði nokkra klukkutíma í sólarhringinn. Mamma var gestrisin og fór enginn svangur frá henni. Hún lá nú heldur ekki á skoðunum sínum og oft var glatt á hjalla er þjóðmálin voru rædd við eldhúsborðið eða þegar hún var að lesa pistilinn yfir ungunum sínum. Hún var mikill félagi okkar krakkanna og stundum sögðu vinirnir í gríni að það væri lítið í það varið að koma í heimsókn nema mamma væri heima.

Mamma var mikill grínisti, já, leikari. Oft var hún beðin um að skemmta. Þá skellti hún sér upp á sviðið og lék við hvurn sinn fingur.

Árin liðu, ég eignaðist fjölskyldu og flutti vestur á firði. Alltaf voru sterk böndin á milli okkar þó lengri væri leiðin. Árið 1996 keyptum við Binni hús ásamt foreldrum mínum á Sunnuflöt. Þá voru dæturnar orðnar tvær og sú þriðja bættist við síðar. Sambúðin með mömmu og pabba var yndisleg. Fyrir stelpurnar var það ómetanlegt að búa með afa og ömmu. Þú hvarfst út í garð á vorin og komst inn aftur á haustin. Seinni árin okkar saman þurftum við oft að hringja á sjúkrabíl fyrir þig. Það var sárt að horfa á hvernig heilsunni hrakaði en lífsviljinn var mikill hjá þér. Það var erfið ákvörðun hjá okkur Binna er við ákváðum að flytja með dætur okkar til annarrar heimsálfu vorið 2002, ekki var síður sorg hjá þér að horfa á eftir okkur.

Mamma, ég kveð þig með söknuði en þú varst ekki aðeins mamma mín heldur einn minn besti vinur.

Þín

Herdís.