Meðlimir Hugarafls kynntu nýsköpunarsjóðsverkefnið ásamt verkefnisstjórum. Talið frá hægri: Sigrún Gréta Einarsdóttir Hugarafli, Valdís Brá Þorsteinsdóttir og Harpa Ýr Þorsteinsdóttir verkefnisstjórar, Jón Ari Arason, Berglind Ólínudóttir, Garðar Jónasson,
Meðlimir Hugarafls kynntu nýsköpunarsjóðsverkefnið ásamt verkefnisstjórum. Talið frá hægri: Sigrún Gréta Einarsdóttir Hugarafli, Valdís Brá Þorsteinsdóttir og Harpa Ýr Þorsteinsdóttir verkefnisstjórar, Jón Ari Arason, Berglind Ólínudóttir, Garðar Jónasson, — Morgunblaðið/Golli
"ÞETTA er fyrsta stóra framleiðsluvaran okkar.

"ÞETTA er fyrsta stóra framleiðsluvaran okkar. Í okkar huga afar dýrmæt bæði vegna þess að það var verið að gera þetta í fyrsta skipti á Íslandi og viðbrögð hafa verið ótrúlega jákvæð hjá geðsviði Landspítala - háskólasjúkrahúss, starfsmönnum deildanna og síðast en ekki síst þeirra skjólstæðinga sem tóku þátt. Án þátttöku þeirra hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika," segir Trausti Traustason, meðlimur Hugarafls, á blaðamannfundi sem haldinn var til kynningar á gæðaeftirlitinu sem ber heitið "Notandi spyr notanda"

Verkefninu er ætlað að meta gæði þjónustu við geðsjúka, og var verkstýrt af þeim Hörpu Ýr Erlendsdóttur og Valdísi Brá Þorsteinsdóttur í samstarfi við meðlimi Hugarafls. Valdís Brá og Harpa Ýr eru iðjuþjálfanemar við Háskólann á Akureyri á fjórða ári. Verkefnið hlaut styrk úr nýsköpunarsjóði námsmanna auk mótframlags frá heilbrigðisráðuneytinu og voru Jóni Kristjánssyni, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, færðar sérstakar þakkir fyrir stuðninginn auk þess sem honum var færð skýrsla verkefnisins sem og öðrum ráðamönnum.

Reynt að koma á gagnvirkni

Valdís og Harpa segja verkefnið, sem unnið var í sumar, vera forkönnun sem styðjist við aðferðir eigindlegra rannsóknaraðferða til að fá fram viðhorf og reynslu notenda á geðheilbrigðisþjónustu. Fyrirmyndin sé norsk og var komið á fót til að auka m.a. áhrif geðsjúkra. Þær segja að markmiðið sé að skapa ný atvinnutækifæri fyrir geðsjúka í bata og koma á gagnvirku sambandi á milli þjónustuþega og þeirra sem veiti þjónustuna. Reynt sé því að draga fram það sem notendur séu ánægðir með eða vilja breyta og geti á þann hátt aðstoðað ráðamenn við ákvarðanatöku og stefnumótun í þessum málaflokki.

"Hugmyndin kom frá Þrændalögum í Noregi. Þar tóku þeir heilt ár í að undirbúa þetta verkefni, en við undirbjuggum og framkvæmdum verkefnið á einu sumri," segir Harpa Ýr. Hún segir að þetta hafi verið erfitt, en skemmtilegt og að þær myndu gera þetta aftur.

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur m.a. fram að auka þarf áhrif geðsjúkra, ekki bara til að hafa áhrif á eigin meðferð heldur þarf líka að efla áhrif þeirra í stefnumótun geðheilbrigðismála á Íslandi. Uppræta þurfi iðju- og hreyfingarleysi á geðdeildum, auka þurfi þátttöku í verkefnum sem geðsjúkir meta og bæta samskipti við starfsfólk svo eitthvað sé nefnt.

Vilja meiri tíma hjá læknum

Notendur vilja fá meiri athygli og aukna áherslu á einstaklingsmeðferð sem gefi tækifæri til að hafa áhrif á eigin bataferli. Notendurnir segjast almennt ósáttir með hversu lítinn tíma þeir fá í læknaviðtölum. Læknarnir vísi frekar á einhver lyf fremur en aðrar leiðir til bata. Auk þess kemur fram að viðmót starfsfólks sem vinni með geðsjúkum þurfi að vera gott og hlýlegt, því sumum notendum hefur þótt starfsfólk hafa verið með fordóma gagnvart þeim og hafi ekki áhuga á þeim.

Margret Guttormsdóttir, meðlimur Hugarafls, segir verkefnið hafa geysilega mikla þýðingu. "Sá sem hefur verið inni á geðdeild þekkir betur hvað er að gerast þar, og hann skilur betur þá sem eru þar," segir Margret og bætir því við að andrúmsloft verður afslappaðra, allir mætist á jafningjagrundvelli og þá sé minni hætta á misskilningi og traust sé meira. "Það er að fela valdið í hendur einstaklingnum, þannig getum við byrjað bataferlið," segir Valdís Brá.