16. október 2004 | Aðsent efni | 863 orð | 1 mynd

Hvað er réttarríki?

Heimir Örn Herbertsson
Heimir Örn Herbertsson
Heimir Örn Herbertsson fjallar um það hvort Ísland geti talist í hópi réttarríkja: "Í máli því sem hér hefur verið gert að umtalsefni reyndi verulega á Hæstarétt að gæta mikilvægustu meginreglna réttarríkisins."
UNDANFARNA mánuði og misseri hefur mikið verið rætt um það, hvort Ísland geti talist í hópi réttarríkja. Deilt hefur verið um úrlausnir dómstóla í einstökum málum, um aðferðir við skipan Hæstaréttar og samspil misjafnra þátta ríkisvaldsins innbyrðis. Einn angi þessarar umræðu hefur lotið að meðferð dómstóla á viðkvæmum málaflokki sem er kynferðisbrot og einkum hvernig réttarreglur um sönnun í þeim málaflokki, eins og í öðrum sakamálum, skuli vera.

Tilefni hugleiðinga minna nú um þetta efni er öðrum þræði þær hugmyndir sem fram hafa komið um að stundum megi víkja frá þeirri meginreglu sem hingað til hefur verið talin einn hornsteina réttarríkisins, að maður teljist saklaus uns sekt hans er sönnuð og að allan vafa um sekt skuli meta sökunaut í vil. Og af því ég er starfandi lögmaður vakti mig einnig til umhugsunar grein sú er birtist í Morgunblaðinu hinn 14. október sl. frá dóttur manns sem sýknaður var af ákæru um að hafa brotið gegn henni kynferðislega. Mér dettur ekki í hug, að stofna hér til ritdeilu eða þrætu hér við hana. Hún og fjölskylda hennar öll eiga um sárt að binda vegna þess tiltekna máls sem hefur skilið eftir sig varanleg sár hjá öllum sem þar áttu hlut í máli. Greinin og þær almennu ályktanir sem ég dreg af henni og umræðunni undanfarið, um hlutverk lögmanna við meðferð mála af þessu tagi og um grundvöll dómsniðurstaðna í þeim, gefur mér hins vegar tilefni til svofelldra vangaveltna:

Ákærður maður nýtur þess stjórnarskrárvarða réttar að teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð. Regluna leiðir einnig af ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu. Jafnframt ber sökuðum manni sá réttur, að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi, með réttlátri málsmeðferð, fyrir óhlutdrægum dómstóli. Í því felst m.a. að sakaður maður fái notið aðstoðar verjanda, sem skipaður er úr hópi lögmanna. Frumskylda lögmannsins, að því gefnu að ákærði neiti sök, er að færa fram við rekstur sakamálsins þau sjónarmið sem eru þeirri niðurstöðu til stuðnings. Gagnvart lögmanninum blasir það eitt við, að skjólstæðingur hans neitar ásökunum um refsiverða háttsemi. Við þær aðstæður getur lögmaðurinn ekki látið eigin tilfinningar sínar til málsins ráða för. Hann hefur það hlutverk, að gæta réttar hins sakaða manns eins og hinn sakaði maður fullyrðir að hann sé.

Ef ákærður maður á í reynd að njóta þess réttar að teljast saklaus uns sekt er sönnuð leiðir af sjálfu sér að vafa um sekt hans verður að meta honum í vil. Að öðrum kosti glatar reglan þýðingu sinni. Í kynferðisbrotamálum er aðstaðan yfirleitt sú, að kærandi og ákærði eru ein til frásagnar um hvað hafi gerst. Ef framangreindum reglum er beitt við þær aðstæður verður niðurstaðan sú að sekt er ekki sönnuð, af þeirri augljósu ástæðu að lögfull sönnun getur aldrei falist í því einu, að einn einstaklingur ber annan sökum. Þessi aðferð er ekki fullkomin og hún getur leitt til þeirrar sársaukafullu niðurstöðu, að réttmætar ásakanir leiða ekki til sakfellis. En valkosturinn er óhugsandi, að málsmeðferðin sjálf geti leitt til þeirrar niðurstöðu að saklaus maður sé dæmdur. Í því er fólgið réttarmorð sem getur aldrei liðist í réttarríki. Og við getum heldur ekki leyft okkur að líta svo á, að sakaður maður sem sýknaður er, sé engu að síður sekur. Við verðum að una niðurstöðunni sem leiðir af meginreglum réttarríkisins.

Í því tiltekna máli sem að framan var vikið að var aðstaðan með þessum hætti. Lögfull sönnun var ekki færð fram fyrir sekt. Á henni lék vafi. Hinn sakaði maður var því sýknaður. Eftirmáli þeirrar dómsniðurstöðu er alkunnur. Fjölmargir aðilar tjáðu sig opinberlega á þann veg, að sýknaði maðurinn væri sekur. Við þær aðstæður tók lögmaður hans til varna fyrir hann á opinberum vettvangi, enda urðu engir aðrir til þess. Í umræðu hans um málið, m.a. á útvarpsstöðinni Bylgjunni, kom fram að í málinu væri um að ræða sakargiftir, sem enginn gæti vitað með vissu hvort væru sannar nema kærandinn og ákærði. Það er kjarni málsins. Í sýknudóminum felst ekki að kærandi segi ósatt heldur það eitt, að ásökun kæranda gegn neitun ákærða nægir ekki til sakfellingar. Vegna meginreglunnar, sem réttarríkið hvílir á.

Við meðferð þessa máls reyndi einnig á, hvort byggja mætti lögfulla sönnun á mati á trúverðugleika aðila. Við þær aðstæður að hvorki nýtur áþreifanlegra sönnunargagna né vitna, sem byggja má niðurstöðu á, hefur það æ oftar brugðið við hin síðari ár, að niðurstaða sé látin ráðast af því, hvor aðilinn, kærandi eða ákærði, þyki trúverðugri í framburði sínum. Þetta atriði skipti máli í þeirri niðurstöðu héraðsdóms að sakfella ákærða í framangreindu máli. Skylda verjandans við þær aðstæður hlaut að vera sú, að leiða fram upplýsingar sem skipt gátu máli við þetta mat, ákærða í hag.

Í máli því sem hér hefur verið gert að umtalsefni reyndi verulega á Hæstarétt að gæta mikilvægustu meginreglna réttarríkisins. Með sama hætti reyndi verulega á mikilvægustu skyldur lögmannsins sem var verjandi ákærða, að hjálpa honum við að koma á framfæri þeirri afstöðu til málsins sem var hans. Báðir stóðust prófið. Eftir stendur ekki og getur aldrei staðið fullvissa neins um hvað var rétt og hvað var rangt í málinu. Eftir stóð, að vegna framgöngu beggja en ekki þrátt fyrir hana hélt réttarríkið velli.

Heimir Örn Herbertsson fjallar um það hvort Ísland geti talist í hópi réttarríkja

Höfundur er lögmaður.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.