SYSTURFÉLAG Atlantsskipa, Transatlantic Lines, hefur skrifað undir 1,3 milljarða króna samning við bandaríska sjóherinn um flutninga hersins milli Singapúr og eyjunnar Diego Garcia í Indlandshafi. Samningurinn tekur gildi nú í desember og er til fimm...

SYSTURFÉLAG Atlantsskipa, Transatlantic Lines, hefur skrifað undir 1,3 milljarða króna samning við bandaríska sjóherinn um flutninga hersins milli Singapúr og eyjunnar Diego Garcia í Indlandshafi. Samningurinn tekur gildi nú í desember og er til fimm ára. Hefur Transatlantic Lines fest kaup á 370 gámaeininga skipi sem mun annast þessa flutninga en kaupverð þess er um 500 milljónir. Transatlantic Lines er einnig með samning við varnarliðið vegna flutninga þess milli Íslands og meginlands Evrópu en þetta er hins vegar fyrsti samningurinn sem fyrirtækið fær við bandaríska sjóherinn.

Eigendur Atlantsskipa og Transatlantic Lines og Atlantsolíu einnig eru þeir Guðmundur Kjærnested og Bandaríkjamaðurinn Brandon Rose.

"Þetta styrkir stoðir Transatlantic Lines sem um leið hlýtur að styrkja stoðir okkar þegar heildarmyndin styrkist," segir Birgir Örn Birgisson, markaðsstjóri Atlantsskipa. Hann segir þetta mjög mikilvægan samning, ef menn standi sig vel geti það opnað frekari tækifæri til vaxtar og möguleika á frekari samningum við bandaríska sjóherinn. "Það að þeir leiti aftur og aftur til okkar segir að við hljótum að vera að gera hlutina þannig að þeim líki. Við erum virkilega ánægðir með þennan samning."

Fyrr á árinu endurnýjuðu Transatlantic Lines og flutningadeild bandaríska landhersins samning um flutninga varnarliðsins milli Íslands og Bandaríkjanna og er sá samningur einnig til fimm ára.