— Morgunblaðið/Rax
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Það er minnisstæður dagur, einn sá minnisstæðasti sem ég hef lifað," segir Sigurbjörn Einarsson biskup um 12. október 1918, daginn sem Katla fór að gjósa. Sigurbjörn lýsti þessum eftirminnilega atburði fyrir Guðna Einarssyni og Ragnari Axelssyni.

Sigurbjörn átti heima hjá afa sínum og ömmu í Háu-Kotey í Meðallandi þegar Katla kom. Hann er fæddur 30. júní 1911 og var því á áttunda ári. Honum er gosdagurinn í fersku minni.

"Þá sá maður framan í náttúruna í miklum ham og hennar ægilegu glyrnur eins og þær geta orðið einna grimmastar. Náttúran þarna í sveitum er feikilega áhrifamikil og sterk: fjöllin, stórfljótin og brimið við ströndina. Allt orkaði þetta sterkt á ungan mann í uppvexti. En það var ekki neitt í námunda við áhrifin af Kötlu. Þvílíkt hamremmi og ofsi náttúrunnar og ógn er raunverulega ólýsanleg. Það er eitt af mörgu sem maður lifir en lýsir ekki."

Ekki orðið hræddari á ævinni

Sigurbjörn segir að gosið hafi bókstaflega dunið yfir úr heiðskíru lofti. "Það var skafheiður himinn þennan dag og blæjalogn. Haustið brosti við manni eins og það getur fegurst orðið. Bærinn var nánast mannlaus, bara amma mín og langamma voru heima auk mín. Hitt fólkið var allt við smölun og réttir. Konurnar voru báðar inni í bæ, ég var úti að dunda mér eins og ég var vanur. Svo fór ég að verða var við eitthvað sem ég kannaðist ekki við og vakti mér óhug. Vissi ekkert hvað það var. Það var eins og eitthvað væri að rymja einhvers staðar. Ég vissi ekki hvar, hvort það var uppi í fjöllunum fjarlægu eða undir fótunum á mér. Það vissi ég ekki. Frá sjónum var það ekki komið, því hann var í suðri en þetta var í öfugri átt við sjóinn. Ég fór inn til ömmu minnar og sagði að ég heyrði eitthvað skrýtið. Hún hafði ekkert heyrt. Svo ágerðist þetta."

Sigurbjörn segir að gamall maður af næsta bæ hafi komið vagandi með staf sinn vestan túnið. Hann var spurður hvort hann hefði orðið var við eitthvað. Það hafði hann ekki orðið svo þetta var afgreitt sem einhverjir órar í krakkanum. Þrátt fyrir orð gamla mannsins linnti ekki hinum dularfulla dyn.

"Þetta ágerðist og ég hef ekki orðið hræddari á ævinni en á meðan þetta var að gerast," segir Sigurbjörn. "Svo loksins kemur afi minn og hann er spurður. Þá segir hann umsvifalaust: Það hlýtur að vera eldur uppi. Annaðhvort í Kötlu eða Heklu. Viti menn, þá hverfur mér allur ótti. Úr því að afi vissi hvað um var að vera þá gat ekki verið neinn voði á ferð!

Í þessum svifum leyndi sér ekki mökkurinn sem stóð upp af Mýrdalsjökli. Mökkurinn bólgnaði út og reis hærra og hærra. Þá fór að heyrast þrumugnýr í jöklinum. Svo færðist mökkurinn yfir og hrakti heiðríkjuna í burtu."

Rymurinn sem Sigurbjörn segist hafa orðið var við í aðdraganda gossins telur hann að hafi komið frá jöklinum áður en hann sprakk fram. Sigurbjörn minnist þess ekki að hafa orðið var neinna jarðhræringa.

Fólk á flótta undan flóðinu

Þegar fór að rökkva sáum við fjölda fólks sem kom gangandi austur mýrina suðvestur af bænum og berandi börn sem ekki gátu gengið eða illa gengið. Þetta reyndist vera heimilisfólkið frá tveimur bæjum, Söndum, sem voru í hólma í Kúðafljóti, og frá Sandaseli á austurbakka Kúðafljóts. Fólkið á Söndum sá til flóðsins sem var þá komið í háskalegan námunda. Það tók sig upp í skyndi og fór austur yfir álinn sem skildi bæjarhólmann frá meginlandinu og það voru síðustu forvöð að það kæmist yfir. Það mátti heita að á hælana á þeim skylli flóðaldan fram. Fólkið í Sandaseli slóst þegar í förina með þeim. Þeim bæ hlaut líka að verða hætt ef flóðið hækkaði."

Háa-Kotey stóð nokkuð hærra en aðrir bæir á flatlendinu í Meðallandi. Þess vegna þótti fólki tryggara að láta fyrirberast þar. Flóttafólkinu var auðvitað vel tekið, að sögn Sigurbjörns. Skömmu síðar kom svo heimilisfólk frá Rofabæ að Háu-Kotey. "Þar í hópi var hreppstjóri sveitarinnar sem var þá rúmliggjandi og dó seinna þennan vetur. Svo það var þröngt í baðstofunni í Háu-Kotey. Þar rúmaðist ekki nema lítið brot af þessum mannfjölda."

Fólkið beið átekta, því enginn vissi hvað gat gerst. Með kvöldinu gerði mikið myrkur.

"Enginn sá neitt, nema eldingarnar sem leiftruðu hver um aðra. Svo heyrði maður niðinn í flóðinu sem von bráðar umlukti bæinn og hækkaði. Það var fylgst með því hvernig flóðið hækkaði, alltaf farið út öðru hverju og þreifað fyrir sér hvað var að gerast að því leyti. Nú, það gat að sjálfsögðu gerst að það hækkaði svo að bærinn fylltist. Þá hefðum við farið upp á þekjur á húsunum, því annað var ekki að flýja. Þarna urðum við að bíða og sjá hvað gerðist. Enginn tók á sig náðir á meðan allt var í óvissu."

Þegar vatnið var komið uppundir hlaðið hætti það að hækka. Þá hafði það fikrað sig upp kálgarðinn. "Þegar sýnt þótti að það myndi ekki hækka meira fór fólk að reyna að taka á sig náðir eftir því sem mögulegt var, á gólfum, í göngum, og í bæjarhúsum, skemmu, búri og eldhúsi og svo framvegis. Ég man að ég var dúðaður upp og afi minn tók mig og bar mig út í hlöðu. Þar lögðumst við fyrir í heyinu og þá var gott að sofna hjá afa sínum."

Varðveisla yfir öllum

Að morgni sáust verksummerkin. Flóðið var mikið til sjatnað en víða sást klakahröngl, sandur og eðja. En ógnin var afstaðin.

"Við þóttumst ekki vera í lífshættu lengur. Svo komu ákaflega skemmtilegir dagar fyrir mig. Þarna var fullt af krökkum og mikið fjör meðan svona margir gestir voru. Fólkið frá Söndum og Sandaseli dvaldi nokkra daga. Strax daginn eftir var brotist út að Söndum og skoðuð verksummerki. Jakar höfðu þá borist heim á tún og fjósið hálffyllst af vatni. Kýrnar stóðu þar í kvið. Einn hestur stóð á bæjarhólnum við hlöðugaflinn, ef ég man rétt. Annar fénaður fór mjög illa. Eitthvað fannst í jakahröngli með lífi, en annað dautt. Einn af góðhestum bóndans á Söndum rak vestur í Landeyjum. Bóndinn var ferðamaður mikill og átti góða hesta. Sjálfur var hann í kaupstaðarferð úti í Vík þennan dag. Hafði farið um morguninn. Þá var enginn sími og það leið drjúgur tími þar til nokkuð vitnaðist um afdrif hans. Hann slapp til Víkur. Eins var um fleiri sem voru á ferð þennan dag yfir Mýrdalssand og alveg í gininu á Kötlu. Það var varðveisla yfir þeim öllum og ekkert manntjón varð."

Kötlugosið kom í sláturtíðinni. Fé var rekið til sláturhúss í Vík úr öllum sveitum sýslunnar. Kjötið var saltað í tunnur. En nú varð tunnulaust í Vík, enda oft erfitt að skipa upp vörum þar vegna brims. Því varð að fresta slátrun í bili. Að sögn Sigurbjörns áttu Síðumenn að vera á Mýrdalssandi með fjárrekstur sinn daginn, sem gosið hófst, en hraðboði hafði verið sendur austur til þess að tilkynna, að þeir yrðu að fresta för að sinni. Þeir sluppu því við að vera með sláturfé sitt á Sandinum þennan dag, en það hefði verið ófýsilegt í meira lagi. En ýmsir áttu samt leið um þar sem flóðið ruddist fram og sluppu naumlega.

"Maður frá Hrífunesi í Skaftártungu, Jóhann Pálsson, var að fara suður í Álftaver í réttir. Álftveringar voru þá að koma af fjalli. Á leiðinni sér hann hvað er að gerast og hleypur til baka upp að Hólmsá. Þá er árgljúfrið fullt og flæðir yfir brúna. Brúin var í tveimur hlutum og klettur í miðri ánni sem skipti brúnni í tvennt. Hann stökk út á brúna og það var tvísýnt mjög, enda fór helmingurinn af brúnni fyrir aftan hann þegar hann kom á klettinn. Hann hélt áfram og komst yfir og þá fór brúin öll. Smalahundurinn hans var á hælum hans en fór í flóðið. Hundgreyið kom reyndar fram eftir nokkra daga og var þá illa haldið. Hafði borist fram í Kúðafljót og einhvern veginn getað bjargað sér upp á land.

Álftveringar, sem voru að koma með fjársafnið af afréttinum, áttu fótum fjör að launa má segja. Flóðið geystist fram alveg á hælunum á þeim. En þeir náðu austur í hóla og hæðir norður af Álftaveri þar sem þeir höfðust svo við til bráðabirgða. Einn garpurinn úr þeim hópi braust til byggða til að segja heimafólki að þeir væru allir á lífi. Svo það var nú áhyggjusamt lífið á bæjunum þarna í sveitunum á þessu dægri. Enginn lifði það sem ekki minntist þess síðan alla tíð, þó að flest færi betur en ætla hefði mátt."

Sigurbjörn segir að öskufalls hafi ekki gætt mikið í Meðallandi. Vindáttin réð því að askan barst meira til fjalls.

Minningar frá Heklugosi 1845

Aðspurður segist Sigurbjörn ekki minnast þess að eldra fólk hafi talað að ráði um fyrri Kötlugos. En langamma hans mundi Heklugosið 1845 og heyrði Sigurbjörn hana segja frá því.

"Hún var þá léttastúlka á heiðarbýli uppi í Skaftártungu. Henni sagðist svo frá að það hefði verið rosasumar, sífelldar rigningar framundir höfuðdag. Þá rýkur hann upp á útnorðan og gerir brakandi þerri. Það var mikið hey í sæti. Um morguninn snemma, um leið og tekið var af jörðinni, var farið að breiða og breitt í óðaönn. Svo var skroppið heim að fá sér matarbita meðan heyið var að taka sig. Þá dimmdi allt í einu eins og hann væri að bresta á. "Við út og í heyið og þá sáum við hvers kyns var. Þá dundi askan yfir á vetfangi. Við flúðum aftur inn í bæ."

"En hvað varð um heyið?" Spurði einhver.

"Það er óhirt enn," sagði langamma."

Sigurbjörn minnist þess að hafa heyrt talað um að í svonefndri Krukksspá hefði því verið spáð að þegar Kötluhlaup kæmist austur í Auðnublá í Meðallandi, (blá er tjörn með blástör og var mikið um slíkar tjarnir í Meðallandi), mundi Meðalland taka af í næsta Kötluhlaupi á eftir. Bærinn Auðnir og bláin, sem við hann var kennd, er löngu komin í sand, en hlaupið 1918 náði þangað, að sögn Sigurbjörns, en bætir við að Meðallandið sé nánast komið í eyði nú án þess að Kötlu verði um kennt.

Ekki fjasað um Kötlu

Sigurbjörn segist ekki minnast þess að fólk hafi talað um Kötlu sem uggvænlegan nágranna.

"Það var miklu meira talað um "Eldinn" - Skaftárelda - það var eini eldurinn sem orð var á gerandi. Önnur eldgos voru ekki söguleg á borð við Skaftárelda. Þá var eyðingin svo ofboðsleg og hörmungarnar sem leiddi af því. Það var svo miklu atkvæðameira gos en öll önnur sem sögur fóru af. Auðvitað vissu menn af Kötlu en voru aldrei að fjasa um hana, ekki fremur en aðra sjálfsagða hluti. Mýrdalssandur var alfaraleið, kaupstaðarleiðin okkar. Áður varð að fara alla leið út á Eyrarbakka, það var ekki farið að versla í Vík fyrr en undir aldamótin 1900. Það breytti miklu fyrir fólk, kaupstaðarferð þurfti nú ekki að taka nema þrjá daga en minnst hálfan mánuð að fara með lest út á Eyrarbakka. Það gerðu menn ekki nema einu sinni á ári, "fóru í ferðirnar", eins og komist var að orði - það voru ekki nema einar "ferðir" til!

Fólk kunni sögur af Kötluhlaupum, spennandi sögur. Og kunnugt var það að forynjan í Mýrdalsjökli hafði eytt blómlega byggð, skóginn mikla, sem þrælar Hjörleifs sögðu mannskæð bjarndýr leynast í, og höfuðból eins og Dynskóga, þar sem voru 50 hurðir á járnum. Og æsileg var sagan af ráðskonu ábótans á Þykkvabæjarklaustri, sem hét Katla og átti galdrabrók, sem gerði henni fært að skálma dagleið í tveimur skrefum. Smalamaður hennar, Barði, tók brókina traustataki þegar hann þurfti að finna týndar kvíaær, en Katla komst að því og drekkti Barða í sýrukeri. En þegar fór að "brydda á Barða" í kerinu, sem ausið var af handa munkum og vinnuhjúum vetrarlangt, tók Katla brók sína, stökk upp á Mýrdalsjökul og steypti sér í gjá þar sem síðan heitir Kötlugjá og fór að gjósa um leið og nornin var komin þar niður."

Gosið var mörgum erfið reynsla

En sat reynslan af Kötlugosinu ekkert í fólki?

"Að sjálfsögðu var gosið minnisstæð reynsla. og mörgum erfið reynsla. Sumir urðu fyrir þungum búsifjum, svo sem hjónin á Söndum, Þuríður og Jóhannes. Þar var fjölmennt heimili og dugmikið fólk. Sandar voru góð jörð en spilltist svo af völdum flóðsins, að ábúendur fluttust þaðan. En fjölskylda ofan úr Skaftártungu, Páll og Margrét, sem urðu að flýja býli sitt vegna öskufalls, líka dugnaðarfólk, leitaði athvarfs á Söndum og vegnaði þar vel, þegar frá leið. Bæði þar og annars staðar í Meðallandi náði jörð sér furðu fljótt eftir gosið. Árið eftir Kötlu var mjög grasgefið. Mýrarnar og engjarnar spruttu vel. Jökulvatnið virtist hafa góð áhrif. Það var þurrkasumar sumarið eftir og ákaflega mikið ryk í þurrkum. Ég man vel eftir því. Það rauk mikið, mikið mor eins og við kölluðum það. Þess gætti mikið sumarið 1919. Það var fyrsta sumarið sem ég fór á engjar og fékk hrífu í hönd."

Sigurbjörn segir að sér þyki sérstaklega uggvænlegt ef Katla fer að brjótast út annars staðar en hún er vön. "Það þykir mér skelfileg tilhugsun. Hún er búin að eyðileggja það sem hún getur eyðilagt að austanverðu, en fari hún að rjála við Mýrdalinn, Eyjafjöll eða Þórsmörk þá líst mér ekki á. Hún hefur náttúrlega látið bíða eftir sér lengi núna og þess saknar enginn. Hins vegar getur hugsast að hún verði þá svolítið svæsnari en ella - búin að sækja í sig veðrið svo lengi. En ekki vildi ég vera staddur á Mýrdalssandi þegar hún brýst út næst. Þetta fór maður ríðandi iðulega, eins og Katla væri ekki til."

Lofar Guð fyrir lúpínuna

Sigurbjörn minnist þess þegar hann fór fyrst í bíl yfir Mýrdalssand. "Þá var ég hreinlega sneyptur þegar ég kom að Hólmsá, að afgreiða þetta svona og lifa bara ekki neitt! Maður lifði svo mikið að tosast á hesti yfir þessa gífurlegu auðn, klukkutíma eftir klukkutíma. Þó að ekkert kæmi fyrir. Ég var aldrei að vetrarlagi þarna á ferð. En það var ekkert gaman að lenda þarna í byljum, ég tala ekki um í sandbyljum sem voru herfilegir bæði fyrir menn og skepnur. Það eru sumir að agnúast út í lúpínur og aðrar innfluttar jurtir. Ég lofa Guð fyrir lúpínu og beringspuntinn þegar ég fer um Sólheimasand og Mýrdalssand. Að sjá þessar gróðurbreiður á þessari eyðimörk! Það er dásamlegt. Og að vita að þessar jurtir hefta sandfokið. Það eru fáir nú sem vita hvað það er að lenda í sandfoki og gera sér grein fyrir hvað sandurinn er ægilegt eyðingarafl. Það vitum við sem ólumst upp þarna. Sandurinn vofði yfir byggðinni. Meðalland til dæmis - skömmu fyrir mitt minni fór fjöldi jarða í sand. Sumar bestu og blómlegustu jarðirnar í sveitinni fóru ýmist undir hraun eða undir sand. Hins vegar óx melurinn í sandinum, blessaður, og hann var mikið bjargræði í Meðallandi og Álftaveri. Ég man ekki þá tíð. Það var hætt að skera melinn og nýta melkornið þegar ég fór að muna eftir mér. Eftir að verslunin hófst í Vík og útlendur kornmatur varð ódýrari en hann hafði verið, borgaði sig ekki að fara í kornskurðinn enda var það mikið erfiði."

Sigurbjörn segir að melurinn hafi verið skorinn með sigð og man hann eftir sigð á bernskuheimili sínu. "Fólk batt melinn í bundin og hendur sem kallað var. Svo var hann þurrkaður og kjarninn eða kornið slegið úr honum. Það var kynt bál í sofnhúsum til að losa kjarnann úr hýðinu. Svo var þetta malað og notað í grauta og brauð, deig svokallað, og þótti kjarnafæða. Melurinn hefur áreiðanlega átt sinn ríka þátt í að halda lífi í fólki þarna í harðbýlli sveit. Melstöngin var nytjuð og höfð í þekjur á húsum. Hún hélt úti regninu mjög vel. Hún var líka höfð í meljur, reiðinga. Meljur voru jafnvel útflutningsvara úr Meðallandi. Þær fóru svo vel með hestana, annars voru notaðar reiðingstorfur undir klyfberana."