Guðni Jón Guðbjartsson fæddist í vesturbænum í Reykjavík 29. júní 1916. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 20. okt. síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðbjartur Guðbjartsson vélstjóri og Halldóra Salóme Sigmundsdóttir. Guðni var yngstur 12 systkina, auk Guðna komust á legg Sigurður Pétur, Halldóra, Páll, Marsibil, Sigmundur og Sigþrúður, sem lifir systkini sín.

Guðni kvæntist 11. nóvember 1939 Ragnheiði Guðmundsdóttur frá Næfranesi í Dýrafirði, f. 10. júní 1913, d. 13. september 1995. Foreldrar hennar voru Guðmundur Guðmundsson útvegsbóndi og Guðmunda Kristjana Benediktsdóttir. Guðni og Ragnheiður eignuðust sex börn. Þau eru: 1) Halldóra Salóme, f. 2. des. 1940, gift Sigurði Inga Sveinssyni, f. 15. okt. 1936, börn: a) Ragnheiður Katrín, f. 26. okt. 1962, sambýlismaður Guðm. Torfi Gíslason, f. 14. apr. 1958, sonur: Jökull, f. 20. sept. 1991. b) Sveinn Ingi, f. 2. maí 1964, kvæntur Hólmfríði Ingu Guðmundsdóttur, f. 2. okt. 1954, börn hennar: María Ósk, f. 11. febr. 1975, sambýlismaður Níls Boeskov, f. 16. maí 1967, synir: Gabriel Christian, f. 17. maí 2001 og Ísak Snorri, f. 7. febr. 2003. Arnar Ingi, f. 22. nóv. 1976. Rakel Ósk, f. 22. mars 1985, dóttir: Alexia Rós, f. 15. júlí 2003. c) Þórunn Inga, f. 30. júní 1965, gift Borgari Jónsteinssyni, f. 19. maí 1960, dóttir: Rebekka Rut, f. 23. ágúst 1983. 2) Íris Bryndís, f. 7. nóv. 1943, gift Jóni Birgi Jónssyni, f. 3. maí 1943, synir hennar: a) Guðni Ragnar, f. 2. febr. 1961, börn: Anne Bryndís, f. 10. ágúst 1987, Björn Ragnar, f. 10. ágúst 1987 og Hilde Björk, f. 12. maí 1996. b) Erling, f. 2. maí 1964, kvæntur Guðrúnu Jónu Bragadóttur, f. 10. júní 1965, börn: Íris Una, f. 21. maí 1996 og Jón Máni, f. 3. ágúst 2000. 3) Guðmunda Kristjana, f. 12. okt. 1944, gift Baltasar Samper, f. 9. jan. 1938, börn: a) Ragnheiður Míreyja, f. 9. ágúst 1964, dóttir: Asra Rán Björt, f. 10. des. 1995. b) Baltasar Kormákur, f. 27. febr. 1966, kvæntur Lilju Sigurlínu Pálmadóttur, f. 10. des. 1967, börn hans: Baltasar Breki, f. 22. júlí 1989, og Ingibjörg Sóllilja, f. 17. mars 1996. Dóttir hennar: Stella Rín, f. 3. febr. 1993. Synir þeirra eru: Pálmi Kormákur, f. 7. júní 2000, og Stormur Jón Kormákur, f. 23. apríl 2002. 3) Rebekka Rán, f. 5. maí 1967, sonur: Baltasar Darri, f. 21. júní 2000. 4) Ásgeir, f. 22. febr. 1947, kvæntur Bryndísi Símonardóttur, f. 23. júlí 1956, börn: a) Dögg, f. 10. mars 1983, dóttir: Ýr, f. 26.mars 2000. b) Ösp, f. 22 maí 1983, sambýlismaður, Jón Grétar Leví Jónsson, f. 27. febr. 1981. 5) Sigþrúður Þórhildur, f. 10. apríl 1950, gift Árna Mogens Björnssyni, f. 30. ágúst 1946, börn: a) Björn Styrmir, f. 8. nóv. 1967, sambýliskona, Jakobína Sigvaldadóttir, f. 11. nóv. 1967, dóttir hans: Sara Dröfn, f. 26. des. 1990, sonur þeirra Guðbjartur Árni, f. 19. júlí 2003. b) Guðni Jón, f. 29. mars 1973, sambýliskona, Hrönn Ámundadóttir, f. 5. nóv. 1973, sonur hennar: Kristófer Máni, f. 18. des. 1997, synir þeirra: Anton Orri, f. 29. mars 1999 og Daníel Styrmir, f. 29. mars 1999. c) Árni Þór, f. 11. apríl 1975 kvæntur Soffíu Láru Hafstein, f. 23. jan. 1976, börn: Eva Örk, f. 26.okt. 1996 og Tara Sól, f. 17. maí 2000. d) Þyrí Huld, f. 1. júní 1987. 6) Ragnheiður Gunnhildur Gaihede, f. 18. júlí 1951, gift Ove Gaihede, f. 28. jan. 1950, börn: 1) Tabitha, f. 3. des. 1975 gift Troels Gaihede, f. 9. maí 1975, börn: Chili, f. 16. okt. 2000 og Sila- Lilje, f. 7. ágúst 2002. 2) Alexander, f. 2. okt. 1987. 3) Cecilie, f. 23. apríl 1990.

Guðni lauk vélsmíðanámi árið 1936, vélstjóranámi 1938 og námi frá rafmagnsdeild Vélskólans 1939. Eftir Vélskólanám var hann vélstjóri m.a. á Súðinni og hjá Ríkisskip og Landhelgisgæslunni. Á stríðsárunum var hann bæði á strandferðaskipum og varðskipum. Hann var vélstjóri á Esjunni er hún fór til Petsamó í Finnlandi og sótti þangað 258 Íslendinga sem þurftu að komast heim vegna stríðsins, og var sæmdur heiðursmerki Ríkisstjórnar Íslands 1940 vegna þeirra ferðar. Guðni tók einnig virkan þátt í björgun Persier sem strandaði við Vík í Mýrdal á stríðsárunum.

Guðni starfaði við Ljósafoss- og Sogsvirkjanir í 43 ár, fyrst sem vélstjóri en var síðan stöðvarstjóri á Ljósafossi, yfirvélstjóri Sogsvirkjana og var loks stöðvarstjóri Sogsvirkjana þar til að hann lét af störfum vegna aldurs. Þau Ragnheiður fluttu þá til Reykjavíkur og bjuggu í Dalalandi 4. Skömmu eftir að Ragnheiður lést árið 1995 flutti Guðni á Hrafnistu í Hafnarfirði og bjó þar síðan.

Útför Guðna fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 10.30.

Stundum þegar kallar fugl

eða vindur blæs í greinum

eða hundur geltir í fjarska

hlusta ég og þegi lengi.

Sál mín flýgur á þann stað

þar sem fyrir þúsund árum

fugl og vindur líktust mér

og voru mér sem bræður.

Sál mín verður að tré

og að dýri og skýjabakka

umbreytt og framandi snýr hún heim

og spyr mig. Hverju svara ég?

(Hermann Hesse.)

Tengdafaðir minn gaf mér þrjár gjafir og örlæti hans breytti lífi mínu. Guðni átti sterkt hjarta í mörgum skilningi, gjafmilt, ríkt að kærleika og þrautseigju, leitandi og síbreytilegt hjarta. Hann gat, eins og sálin í kvæði Hesse, ummyndast í blíðlegt ský, í storm, í harðan klett sem ekki varð hnikað eða verið hlýr, þjáll og mjúkur eins og sandur á suðurhafsströnd. Örlæti var einn af hans mörgu kostum. Hann gaf mér þær þrjár gjafir sem einn maður getur öðrum gefið stærstar: kæra dóttur sína, Kristjönu konu mína, fjölskyldu sína og þá tilfinningu að eiga föður sem ég hafði fyrir löngu týnt. Með afstöðu sinni til lífsins kenndi hann mér nægjusemi, að leita hófs fremur en munaðar, taka smekkvísi fram yfir tísku, bera höfuð hátt, leita öryggis en ekki auðs, hlusta á náttúruna, börn og öldunga með opnum huga, að hugsa mig vel um, bíða tækifæra, fara að öllu asalaust og með hreinskiptni.

Þegar við heimsóttum Ljósafoss fyrir margt löngu kynnti hann mér hestamennsku, hún var hans tómstundagaman og varð mitt einnig. Á vetrarkvöldum gengum við saman í myrkrinu til hesthúsa og töluðum um lífið á afskekktum stað eins og Ljósafoss var í þá daga. Við töluðum um bitran kulda og erfitt starf hans þar á næsta bæ við frosna auðn. Okkur gekk ekki vel að ná saman í fyrstu, við höfðum ekki hist oft, því í þá daga var langa leið að fara og vegir ekki greiðir. Ég þóttist sjá það af því hvernig kona mín og systkini hennar höfðu verið upp alin að þau Guðni og Ragnheiður væru áreiðanleg, starfsöm og auðug í anda eins og flestir af þeirra kynslóð, trúverðug og trúuð vel eins og flest fólk á landsbyggðinni. Ég var mjög langt að kominn, siðir mínir og gildi voru framandleg rétt eins og útlitið og það tók sinn tíma að koma á gagnkvæmum skilningi okkar í milli.

Vilji manna mótar heiminn öðru fremur og Guðni átti sterkan vilja. Leiðrétta mætti þá gömlu skólaspeki, nihil volitum quin praecognitum, ekkert getum við viljað nema það sem við þegar þekkjum, með því að segja: nihil cognitum quin praevolitum, ekkert getum við vitað án þess að vilja fyrst. Guðni átti þessa þörf fyrir að vita, að þekkja hið sanna um marga hluti. Honum var það allt satt sem hvatti til örlætis í vilja og verki, lygi var honum það sem drekkir góðum hvötum og skapar andlaus skrímsli. Sagt er að af ávöxtunum skuli mennina þekkja og hann gerði sér að traustustu sannindum þá trú sem fær okkur til að gera lífið auðugra en það ella væri. Hvenær og í hvaða tilefni sem við heimsóttum heimili hans að Ljósafossi mátti sjá og heyra að skylda og ábyrgð voru efst í hans huga. Aldrei vísaði hann á aðra til verka sem hann gat unnið sjálfur, hann var manna fyrstur til að taka áhættu, láta næða um sig úti í hörðu frosti, vinna einatt langt fram á nætur við að halda rafstöðinni í gangi og lýsa upp jólaborð Reykvíkinga. Honum var það sjálfsagður hlutur að sýna hugprýði og kjark, stefna lífi sínu í háska ef með þurfti. Hann vildi gefa sjálfan sig allan í starfi sínu, í sinni borgaralegu köllun. Segja má að starf hafi í huga hans haft hina latnesku merkingu, officium - þjónusta og skylda í senn.

Allt til okkar síðustu funda fékk ég að njóta góðs af samræðum við greindan mann og hjartahlýjan. Þegar slíkur maður er kvaddur vitum við að öll höfum við mikils misst. Og væri gott að hyggja á endurfundi ef Guð lofar.

Í litlu þorpi í nánd við Bilbao er þessar hendingar að finna á legsteini:

Aunque estamos en polvo convertidos,

en ti, Señor, nuestra esperanza fía,

que tornaremos a vivir vestidos

con la carne y la piel que nos cubría.

(Þótt við breytumst í duft er sú von okkar bundin þér, Drottinn,

að við snúum aftur til lífs, klæddir holdi og húð sem við vorum hjúpuð.)

Já, í þeim líkama og með þeirri sál sem var þín. Þar til svo verður, faðir...

Baltasar.

Þegar ég skrifa hér kveðjuorð til Guðna J. Guðbjartssonar, tengdaföður míns og vinar, hverfur hugurinn austur í sveitir til Ljósafoss, þegar ég hitti hann fyrst. Þá var ég ungur maður að hitta tilvonandi tengdaforeldra í fyrsta sinn og var að reyna að standa mig eins og maður frammi fyrir þessum fasmikla og ákveðna manni sem Guðni var.

Á þeim tíma kynntist ég því hvað Guðni var traustur, heilsteyptur og ráðagóður maður og þeim mannkostum prýddur, sem ég síðan reyndi að hafa mér til fyrirmyndar. Hann var fróður og víðlesinn. Guðni tók þátt í öllu í félags- og menningarlífi í sveitinni og lét sig velferðar- og öryggismál sveitanna varða í Grímsnesi, Grafningi og Þingvallasveit. Guðni stofnaði Slysavarnadeild innan Slysavarnafélags Íslands í sveitinni og var einnig slökkviliðsstjóri í sveitunum þremur.

Þær urðu margar ferðirnar austur að Ljósafossi þegar árin liðu, við hjónin og börnin okkar eigum ógleymanlegar minningar frá lengri sem skemmri dvalarstundum sem við áttum hjá Guðna og Ragnheiði á Ljósafossi. Oft var farið um sveitirnar í nágrenninu og þá eru eftirminnilegastir reiðtúrarnir á hestum þeirra Guðna og Ragnheiðar, en þau stunduðu hrossarækt og áttu marga góða hesta.

Guðni hafði ótrúlegt minni og skýra hugsun alla tíð, þrátt fyrir að sjónin og líkaminn þyrftu að láta undan síðustu árin. Helgina áður en Guðni lést fórum við með honum austur að Sogi, en það höfðum við gert nokkrum sinnum undanfarin ár og dvöldum í Orlofshúsi Landsvirkjunar við Steingrímsstöð og áttum þar með honum ómetanlegar samverustundir. Fórum að Ljósafossstöð, stöldruðum þar við um stund og rifjuðum upp gamlar minningar. Þessa samverustund við Sogið þökkum við fyrir, hún verður góð minning.

Um leið og ég kveð minn kæra tengdaföður með söknuði votta ég börnum hans og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð.

Það hillir upp eyjar og útnes

sem æskunnar vonadraum.

Það kliðar í laufi og limi.

Það ljómar á tjarnir og straum.

Og særinn er fljótandi silfur

og svellið á tindunum gull,

öll sveitin í titrandi tíbrá,

af töfrum og dásemdum full.

(Örn Arnarson.)

Árni Mogens Björnsson.