Brain Police: Jónbi, Jenni, Höddi, Gulli.
Brain Police: Jónbi, Jenni, Höddi, Gulli.
ROKKSVEITIN Brain Police mun spila nýja breiðskífu sína, Electric Fungus , í heild sinni á Gauki á Stöng í kvöld en platan kom út fyrir stuttu og er þriðja plata hljómsveitarinnar.
ROKKSVEITIN Brain Police mun spila nýja breiðskífu sína, Electric Fungus, í heild sinni á Gauki á Stöng í kvöld en platan kom út fyrir stuttu og er þriðja plata hljómsveitarinnar. Platan kemur einnig út í takmörkuðu upplagi þar sem meðfylgjandi er mynddiskur sem inniheldur heimildarmynd um gerð plötunnar ásamt myndbandi við lagið "Coed Fever".

Brain Police hefur frá upphafi verið skipuð þeim Jóni Birni Ríkarðssyni, "Jónba" trommuleikara, Herði Stefánssyni bassaleikara og Gunnlaugi Lárussyni gítarleikara (og nú orgel- og píanóleikara). Eftir vandræðagang mikinn með söngvara slóst Jens Ólafsson (fyrrum Toy Machine) í hópinn fyrir tveimur árum og við það endurfæddist sveitin, styrktist til muna og í fyrra kom út önnur plata hennar, samnefnd sveitinni. Á henni voru Brain Police loks búnir að finna fótum sínum forráð og útkoman frábær rokkskífa.

Á Electric Fungus heldur sveitin áfram reiki sínu um lendur eyðimerkurrokksins ("stoner rock" á ensku) og eru sem fyrr innblásnir af Black Sabbath, Kyuss, Fu Manchu og skyldum sveitum.

"Síðasta plata var keyrð í gegn á skömmum tíma í hljóðverinu," segir Jónbi. "En við nostruðum meira við þessa og lágum lengur yfir henni." Hörður segir muninn á þessari og þeirri síðustu jafnframt liggja í því að nú unnu þeir náið með upptökustjóra, Axeli Árnasyni (fyrrum trymbill 200.000 naglbíta) og varð hann einn af hópnum.

Orgel, píanó og ýmis áhrifshljóð eru komin í hljóðmynd Brain Police og er Gunnlaugur gítarleikari að mestu ábyrgur fyrir þeim þætti. Liðsmenn viðurkenna fúslega að þeir hafi markmiðsbundið forðast að endurtaka síðustu plötu og hafi lagt sig í líma við að vinna áfram með formið, eyðimerkurrokkið, enda platan fjölbreyttara verk en það síðasta.

Útlönd heilla Heilalögguna að sjálfsögðu enda Íslandsmarkaðurinn fljótur að mettast. Sveitin hefur enda verið starfandi í sex ár. "Okkur langar auðvitað að fara út því það er fólk í röðum sem er að "fíla" svona tónlist," segir Jenni en sveitin hefur gert efni sitt aðgengilegt á vefsíðunni www.stonerrock.com og hefur Brain Police selst þar í tæpum tvö hundruð eintökum.

"Á þessari síðu er safn af mp3 skrám," segir Gunnlaugur. "Maður hefur verið að kanna þetta og það kom mér á óvart hvað mikið af þessu var ekkert sérstakt þó að það sé stök snilld inni á milli."

Brain Police ættu því að vera fyllilega samkeppnishæfir í þessum geira og alltént er andinn í herbúðum sveitarinnar jákvæður, allir sem einn klárir í slaginn.

"Brátt hrindum við af stað ákveðinni vinnuáætlun með útlönd í huga," segir Jónbi. "Við erum komin með einhver sambönd. Málið er að koma sér á einhvern túr með ráðsettari böndum eða þá böndum sem eru á svipuðum stað og við erum á núna. Þetta er allt í startholunum en við erum meira en tilbúnir að leggja á okkur þá vinnu sem þarf."

Útgáfutónleikar Brain Police hefjast klukkan 23.00 í kvöld og aðgangseyrir er 500 krónur. Einnig leika Solid I.V. og Ensími. www.brainpolice.net www.stonerrock.com

arnart@mbl.is