Guðrún Lárusdóttir
Guðrún Lárusdóttir
KRISTNIBOÐSFÉLAG kvenna í Reykjavík var stofnað 9. nóvember 1904 og fagnar því um þessar mundir 100 ára afmæli. Af því tilefni er boðið til afmælishátíðar í Breiðholtskirkju í kvöld sem hefst með samkomu kl. 20.

KRISTNIBOÐSFÉLAG kvenna í Reykjavík var stofnað 9. nóvember 1904 og fagnar því um þessar mundir 100 ára afmæli. Af því tilefni er boðið til afmælishátíðar í Breiðholtskirkju í kvöld sem hefst með samkomu kl. 20. Þar mun Karl Sigurbjörnsson biskup flytja ávarp, Lilja S. Kristjánsdóttir rekja sögu félagsins í stuttu máli, Kanga-tríóið syngja og séra María Ágústsdóttir flytja hugleiðingu.

Félagið er með elstu kvenfélögum landsins og elsta kvenfélagið sem hefur það sérstaklega að markmiði að styðja við og byggja upp starf í fjarlægum löndum.

Það var Kristín Pétursdóttir, dóttir organistans í Dómkirkjunni og eiginkona séra Lárusar Halldórssonar sem var prestur í Fríkirkjunni, sem stóð fyrir stofnun félagsins á sínum tíma en hún hafði kynnst samtökum kristniboðsfélaga kvenna þegar hún dvaldi um tíma í Danmörku. Félagið var stofnað á heimili Guðrúnar, dóttur Kristínar og Lárusar, og eiginmanns hennar, Sigurbjörns Á. Gíslasonar. Auk þeirra mæðgna voru stofnendur félagsins Valgerður, dóttir Kristínar og systur hennar, þær Anna Thoroddsen, Kristjana og Guðrún Pétursdætur.

"Eftir því sem ég best veit hafa fundir félagsins allt frá upphafi verið haldnir hálfsmánaðarlega nema yfir sumartímann," segir Kjellrun Langdal sem starfað hefur með félaginu í um tvo áratugi, en hún gekk í félagið eftir að hafa sjálf starfað sem kristniboði bæði í Eþíópíu og Keníu. "Raunar hefur verið samvera vikulega síðustu hundruð árin, því aðra hverja viku eru haldnir fundir og hina hverja vikuna eru Biblíulestrar eða bænastundir."

Spurð um starfsemi félagsins segir Kjellrun hana litlum breytingum hafa tekið á þeim hundrað árum sem félagið hefur starfað. "Við höfum ætíð haft það að markmiði að styrkja og fræða um kristniboðið. Nú til dags fer kristniboðið fram í Eþíópíu og Keníu, en um árabil fór það líka fram í Kína, en þar styðjum við enn útvarpssendingar. Auk þess styðjum við sjónvarpssendingar með kristilegt efni í Mið-Austurlöndum."

Að sögn Kjellrunar felst stuðningurinn bæði í formi fyrirbæna og fjárframlaga, en á hverjum fundi fara fram samskot auk þess sem félagið stendur fyrir basar fyrir hver jól, er með kaffisölu 1. maí og matarmarkað á haustin, svo eitthvað sé nefnt.

Þær konur sem ganga í félagið ganga ekki úr því aftur

Kjellrun áætlaði að á fimmta tug kvenna starfi í félaginu nú á 100 ára afmælinu.

"Mjög margar félagskonur hafa starfað með félaginu áratugum saman. Því þær konur sem ganga í félagið fara ekkert úr í því aftur, enda er einstaklega gott að starfa í þessum hópi. Það er líka greinilegt að konurnar sem ganga í félagið og fara að starfa á vegum þess hafa sérstaka köllun. Þeim finnst mikilvægt að starfa fyrir kristniboðið og breiða út fagnaðarerindið."