17. nóvember 2004 | Minn staður | 251 orð | 3 myndir

Fimleikafélag Akureyrar stofnað í kvöld

Sífellt fleiri börn og ungmenni æfa fimleika

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EITT stærsta íþróttafélagið á Akureyri verður stofnað í kvöld, miðvikudagskvöldið 17. nóvember, en það er Fimleikafélag Akureyrar með rétt tæplega 400 iðkendur.
EITT stærsta íþróttafélagið á Akureyri verður stofnað í kvöld, miðvikudagskvöldið 17. nóvember, en það er Fimleikafélag Akureyrar með rétt tæplega 400 iðkendur.

Fram til þessa hefur verið starfandi fimleikaráð, sérráð innan Íþróttabandalags Akureyrar, ÍBA. Tímabært þótti að stíga skrefið nú, að sögn Fríðu Pétursdóttur formanns enda fimleikaráð orðið með stærri íþróttafélögum í bænum.

Þá mun ÍBA fagna 60 ára afmæli í næsta mánuði og því kannski ekki seinna vænna fyrir fimleikaráð að yfirgefa foreldrahúsin og hefja sjálfstæða starfsemi.

"Starfið hefur vaxið að umfangi á síðastliðnum árum," sagði Fríða, en iðkendum hefur fjölgað jafnt og þétt. Voru um 200 fyrir 4-5 árum og eru nú helmingi fleiri eða tæplega 400. "Þetta hefur gengið mjög vel, við höfum við heppin með þjálfara og það hefur eflaust sitt að segja um vinsældir fimleikanna," sagði Fríða.

Yngstu iðkendurnir eru á leikskólaaldri og þeir elstu um 19 ára gamlir.

Æfingar fara fram í íþróttahúsi Glerárskóla og nú í haust fengust helmingi fleiri æfingatímar en áður hafa verið í boði fyrir fimleikafólk.

Þá hefur verið skrifað undir samning við Akureyrarbæ um uppbyggingu starfseminnar og mun félagið fá 70 milljónir króna á næstu þremur árum, eða frá 2005 til 2008 til að byggja upp betri aðstöðu. Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvað byggt verður upp, en hugmyndir verið viðraðar um að það verði við íþróttahús Glerárskóla.

Þá yrði byggt við núverandi hús, komið þar á keppnisgólfi og gryfju og öðru því sem til þarf. Fríða sagði því að vissulega væru bjartir tímar framundan hvað fimleikana varðaði á Akureyri.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.