Philip Roth The Plot Against America gerist í Bandaríkjunum á árunum 1940-1942. Repúblikanar hafa átt í erfiðleikum með að útnefna forsetaframbjóðanda gegn Franklin D. Roosevelt þegar flughetjan Charles A. Lindbergh gengur í salinn og hlýtur umsvifalaust ú
Philip Roth The Plot Against America gerist í Bandaríkjunum á árunum 1940-1942. Repúblikanar hafa átt í erfiðleikum með að útnefna forsetaframbjóðanda gegn Franklin D. Roosevelt þegar flughetjan Charles A. Lindbergh gengur í salinn og hlýtur umsvifalaust ú
Í The Plot Against America eftir bandaríska rithöfundinn Philip Roth er flugkappinn Charles A. Lindbergh látinn sigra Roosevelt í forsetakosningum og vingast við Hitler á Íslandi. Af hlýst fasískt andrúmsloft í Bandaríkjunum sem beinist einkum gegn gyðingum. Margir velta fyrir sér hvort Roth sé með þessari sögu að lýsa ástandi sem hann skynjar í samtímanum.

Helvítis karlinn! Þegar hann er orðinn að löggiltu gamalmenni og búinn að skrifa 25 bækur, gerir hann sér lítið fyrir og tekur nýja stefnu sem rithöfundur. Ekki það að hann hafi haldið sama kúrsinum alla tíð, síður en svo, hann hefur verið óhræddur við að gera alls kyns tilraunir í skáldskap sínum og iðulega verið á undan sinni samtíð, já og oftlega gengið fram af henni líka. Hann hefur t.d. fjallað af miklu hispursleysi og andríki um hræsni í bandarísku millistéttarsamfélagi, ekki síst í kynferðismálum, s.s. eins og skáldsögunum Portnoy's Complaint og Sabbath's Theater. Hann hefur skoðað samband lífs og listar gaumgæfilegar og af meira innsæi en flestir aðrir, bæði með því að búa sér til hliðarsjálfið Nathan Zuckerman, sem kemur fyrir í mörgum af þekktustu bókum hans, og eins með því að nota sögumanninn Philip Roth í skáldverkum sínum. Þá hefur hann fjallað um þjóðfélagsástandið í Bandaríkjunum á 20. öld af mikilli glöggskyggni og yfirsýn, m.a. í rómuðum þríleik frá 10. áratugnum þar sem hann tekur fyrir Víetnamstríðið, McCarthyismann og pólitískan rétttrúnað og sýnir áhrif þessara hræringa á líf venjulegs fólks. Nú fer hann inn á nýtt svið með því að breyta mannkynssögunni og skrifa fasisma inn í bandaríska stjórnmálasögu. Um leið vekur hann afar áleitnar spurningar um andrúmsloftið í Bandaríkjunum - og kannski víðar - nú um stundir.

Raunverulegt fólk

The Plot Against America gerist í Bandaríkjunum á árunum 1940-1942. Repúblikanar hafa átt í erfiðleikum með að útnefna forsetaframbjóðanda gegn Franklin D. Roosevelt þegar flughetjan Charles A. Lindbergh gengur í salinn og hlýtur umsvifalaust útnefningu. Lindbergh, sem var í raunveruleikanum einangrunarsinni og hafði sakað bandaríska gyðinga um að ota Bandaríkjunum í stríð við Hitler, sigrar síðan Roosevelt í forsetakosningunum og lætur það verða eitt af fyrstu verkum sínum í embætti að semja við Hitler um friðsamleg samskipti milli þjóðanna. Og það gerir hann hvergi annars staðar en á Íslandi, eins og frægt er orðið, sem minnir óneitanlega á hinn sögulega fund Reagans og Gorbachevs um árið.

Þessir atburðir eru síðan settir í samhengi við venjulega gyðingafjölskyldu í Newark með því að láta hinn 7-9 ára gamla Philip Roth lýsa þeim (að baki honum stendur raunar þroskaður maður sem lítur um öxl og gerir hinn unga Philip fullbráðþroska á stundum). Stöldrum aðeins við þetta stílbragð áður en haldið er út á ólgusjó fasismans. Roth hefur nefnilega stundum verið legið á hálsi fyrir að nota sjálfan sig ótæpilega í eigin skáldskap, bæði með því að beita fyrir sig söguhetjum sem eiga margt sameiginlegt með honum sjálfum og eins með því einfaldlega að tefla fram söguhetjunni Philip Roth eins og hann gerir í nýju bókinni. Roth hefur bent á það - reyndar í gegnum persónur sínar - að ekki sé hægt að flytja raunverulegar manneskjur í heilu lagi yfir á pappír, þær breytist í meðförum. Auk þess hefur hann baunað því á lesendur að fagurfræði hins fávísa felist í að lesa skáldskap sem sannar játningar, það gerir hann m.a. í lok hinnar margslungnu Operation Shylock, sem ber undirtitilinn játning og skartar söguhetju sem heitir Philip Roth og á sér líka tvífara með sama nafni. Roth hefur hins vegar sagt í viðtölum að hann hafi aldrei notað fjölskyldu sína í skáldskap fyrr þó að hann hafi gert það í sjálfsævisögulegum bókum á borð við Patrimony - A True Story. Í einu viðtalinu segist hann ekki hafa getað notað foreldra sína í skáldskap vegna þess að þau hafi verið heiðvirt og vinnusamt fólk og það sé ekki áhugavert fyrir skáldsagnahöfunda. Hann hafi hins vegar óvart áttað sig á því að með því að láta erfiðleika steðja að þessu fólki væri komin saga. Og erfiðleikarnir sem hér steðja að foreldrum hans og bróður er uppskáldaður fasismi, sem þó lá að vissu marki í loftinu á sögutíma bókarinnar og liggur kannski í loftinu á öllum tímum.

The Plot Against America skartar með öðrum orðum "raunverulegu" fólki - og kunnugir hafa staðfest það - sem glímir við uppdigtaðar aðstæður. Sennilega er því oftar öfugt farið í skáldskap, uppdigtaðar persónur glími við raunverulegar aðstæður.

Umsátursástand skapast

"Óttinn ríkir yfir þessum minningum, stöðugur ótti," segir í upphafi bókarinnar. Þegar nasistasleikja er komin í Hvíta húsið verða bandarískir gyðingar órólegir, þeim er ógnað, og hinn ungi Philip verður þess áskynja með ýmsum hætti. Vinafólk fjölskyldunnar ákveður t.d. að flytja til Kanada til að flýja yfirvofandi ógn. Í áhrifamiklum kafla er sagt frá skoðunarferð fjölskyldunnar til Washington þar sem þeim er af óskilgreindum ástæðum neitað um gistingu á hóteli sem þau höfðu bókað sig á. Móðursystir Philips giftist rabbía sem er hallur undir Lindbergh og fer með honum í boð hjá forsetanum í tilefni af heimsókn þýska utanríkisráðherrans. Bróðir Philips fer í nokkrar vikur til Kentucky á vegum samtakanna Just Folks, sem starfa í skjóli forsetans, og hefur háar hugmyndir um Lindbergh þegar hann kemur til baka sem skapar eðlilega núning á heimili þar sem Lindbergh er álitinn stórhættulegur. Til að skerpa andstæðurnar enn frekar er munaðarlaus frændi Philips látinn fara til Kanada þar sem hann skráir sig í herinn og berst síðan á vígstöðvunum í Evrópu. Hann særist illa, missir annan fótinn, og er sendur heim þar sem hann sefur í sama herbergi og Philip litli um skeið. Við sjáum síðan Philip hjálpa honum að annast stúfinn og setja á sig gervifót; þannig er stríðið fært heim í stofu og í leiðinni er sýnt hvaða afleiðingar andúð fjölskyldunnar á Lindbergh hefur, hve mótsagnakennt lífið getur verið. Einn daginn gerist það svo að faðir Philips fær bréf frá vinnuveitanda sínum þar sem honum er "boðið" að flytjast inn í land. Þetta tilboð reynist vera að undirlagi stjórnvalda sem vilja dreifa gyðingum um allar jarðir og grafa undan samtakamætti þeirra. Þrengt er að málfrelsinu og smátt og smátt magnast andúð á gyðingum uns ráðist er gegn þeim og eigum þeirra sem minnir óneitanlega á kristalsnóttina í Þýskalandi árið 1938 en þá voru samkunduhús og verslanir gyðinga lögð í rúst. Þannig læsist hið fasíska andrúmsloft um þjóðina og leiðir til þess að gyðingum finnst þeir aðþrengdir sem tákngerist að lokum í því að nágranni lánar föður Philips skammbyssu til að verja sig með. Þarna er í rauninni komið umsátursástand og gyðingar fara alvarlega að hugsa sér til hreyfings.

Andrúmsloft á borð við þetta, sem einkennist m.a. af heiftýðgi og pólitískum rétttrúnaði, ríkir nú víðsvegar um heiminn og margir minnihlutahópar finna fyrir því. Andúð á innflytjendum er landlæg víða og tengist iðulega þjóðernishyggju, þannig að hinn "óraunverulegi" veruleiki sem Roth lýsir er kannski ekki eins óraunverulegur og ætla mætti og í því felst kynngimagn frásagnarinnar öðru fremur.

Sagan og samtíminn

Roth segist hafa fengið hugmyndina að bókinni þegar hann las sjálfsævisögu Arthurs Schlesingers en þar kemur fram að hægri armur Repúblikanaflokksins hafi látið sér detta í hug að útnefna Hitlersvininn Lindbergh sem forsetaframbjóðanda gegn Roosvelt árið 1940. Roth segist hafa skrifað á spássíuna: "Hvað ef hann hefði farið fram?"

Það er nánast óhugnanlegt hvað sagan sem af þessari spurningu spinnst er trúverðug. Atburðarásin styðst að svo miklu leyti við þekktar staðreyndir og hugmyndirnar eru svo kunnuglegar að maður gleymir næstum því að margt af þessu er uppspuni. Og veit reyndar ekki alltaf hvað er uppspuni og hvað ekki, því sumt af þessu er jú byggt á raunverulegum atburðum eða að minnsta kosti raunverulegum ummælum. Það er engu líkara en Roth hafi fundið sér nýjan vinnustað á jarðsprengjubeltinu milli staðreynda og skáldskapar, eitthvert órætt svæði sem ekki gengur bara út á líkinguna við hans eigið líf heldur líka við líf þjóðar.

Í bókinni er hvergi komið inn á ástand þjóðmála í Bandaríkjunum um þessar mundir. Henni fylgir hins vegar ítarlegur eftirmáli þar sem höfundur tíundar heimildir sínar og rekur ýmis atriði í ævi raunverulegra persóna sem við sögu koma, s.s. Lindberghs, Roosevelts og Henrys Ford, og tilfærir ummæli sem tengjast bókinni, m.a. ræðu sem Lindbergh hélt árið 1941 þar sem hann mælti gegn því að Bandaríkin blönduðu sér í heimsstyrjöldina: "Þegar þetta stríð hófst í Evrópu var ljóst að bandaríska þjóðin var mótfallin því að blanda sér í það. Hvers vegna hefðum við ekki átt að vera það?" (386). Þarna gefst áhugasömum kostur á að skoða muninn á sannleika og skáldskap og spyrja með Roth: Hvað ef sum af þessum sjónarmiðum hefðu orðið ofan á? Við blasir að ekki hefði þurft ýkja mikið til og allt hefði það sem Roth skáldar upp getað gerst. Ef tekið er mið af orðum Roths um Bush Bandaríkjaforseta, sem hann virðist hafa álíka lítið álit á og sögupersónur hans á Lindbergh, liggur í loftinu tilboð til lesandans um að lesa bókina með hliðsjón af straumum og stefnum samtímans. Reyndar er það nánast óhjákvæmilegt þegar tekið er mið af umræðum síðustu mánaða og ára, s.s. um þátttöku Bandaríkjanna í stríðsrekstri og ýmsu alþjóðastarfi. Eins hlýtur sú sterka þjóðernishyggja sem gætt hefur í Bandaríkjunum eftir árásirnar á Tvíburaturnana, og m.a. hefur komið fram í andúð á öðrum þjóðum og einstökum minnihlutahópum, að vekja lesendur til umhugsunar um mörkin milli sterkrar þjóðernishyggju, sem rekja má allt aftur til sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjamanna, og nasisma eða fasisma, ekki síst þegar hugsað er til öfgastrauma á borð við McCarthyisma sem blossað hafa upp vestanhafs. Nú þegar repúblikanar hafa öll tögl og hagldir hljóta spurningarnar sem bókin vekur að verða enn áleitnari.

Roth er þó nógu klókur til þess að viðra engar af þessum spurningum með beinum hætti í bókinni. The Plot Against America er ekki heldur allegoría þar sem einstök svið bókarinnar eiga sér beina samsvörun í veruleikanum. Höfundur eftirlætur lesandanum að komast að niðurstöðu en fær honum jafnframt í hendur ýmis áhöld til þess. Það er í þessu samspili skáldskapar og veruleika sem meginafrek höfundarins liggur.

Heimildir:

Al Alvarez : "The Long Road Home",

http://books.guardian.co.uk.

Paul Berman: "What if It Happened Here?",

The New York Times Book Review, 3. okt. 2004.

Adam Mars-Jones: "A fascist in the Oval Office?

Fancy that, http://books.guardian.co.uk.

Blake Morrison: "The Relentless Unforeseen",

http://books.guardian.co.uk.