Slökkvistarf langt komið við dekkjahaug Hringrásar við Sundahöfn um miðjan dag í gær. Haugurinn sést vel vinstra megin, en neðst fyrir miðju er rúst stálgrindarhússins, þar sem upptök eldsins eru talin hafa verið. Stórvirkar gröfur róta í haugnum til að au
Slökkvistarf langt komið við dekkjahaug Hringrásar við Sundahöfn um miðjan dag í gær. Haugurinn sést vel vinstra megin, en neðst fyrir miðju er rúst stálgrindarhússins, þar sem upptök eldsins eru talin hafa verið. Stórvirkar gröfur róta í haugnum til að au — Morgunblaðið/RAX
EFTIRLITSSTOFNANIR gripu ekki til aðgerða vegna dekkjahaugsins á lóð Hringrásar við Sundahöfn, þrátt fyrir að Eldvarnaeftirlitið hefði skrifað eigendum Hringrásar bréf í júní sl., þar sem bent var á hættuna sem af honum stafaði.

EFTIRLITSSTOFNANIR gripu ekki til aðgerða vegna dekkjahaugsins á lóð Hringrásar við Sundahöfn, þrátt fyrir að Eldvarnaeftirlitið hefði skrifað eigendum Hringrásar bréf í júní sl., þar sem bent var á hættuna sem af honum stafaði. Fyrirtækið stóð ekki við fyrirheit um að dekkin yrðu fjarlægð. Talið er að um tvö þúsund tonn af gúmmíi hafi verið í dekkjahaugnum sem brann.

Mjög alvarlegt mál

"Þetta er mjög alvarlegt mál. Við í umhverfisráðuneytinu höfum rætt við brunamálastjóra vegna málsins og erum að íhuga viðbrögð," segir Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra um eldsvoðann á athafnasvæði Hringrásar.

Þórólfur Árnason borgarstjóri segir nauðsynlegt að farið verði yfir á næstunni hvort Eldvarnaeftirlitið skorti heimildir til að grípa fyrr inn í ef öryggi er áfátt og ekki er eingöngu um starfsemi í húsnæði eða byggingum að ræða. Borgarstjóri segist hafa rætt við umhverfisráðherra um að sveitarfélögum og ríkinu beri að fara vel yfir alla söfnunarstaði úrgangs í landinu.

Valdi var ekki beitt

"Það er oft svo með mengunarvarnir og öryggismál að aðgerðir ganga svolítið á sitthvorn veginn," segir Davíð Egilson, forstjóri Umhverfisstofnunar. Hann segir samstarf Umhverfisstofnunar og Brunamálastofnunar mjög gott og ljóst sé að menn verði að fara yfir þetta mál á næstunni og sætta sjónarmið.

Skv. upplýsingum Morgunblaðsins hefði Eldvarnaeftirlitið getað komið í veg fyrir eldsvoðann hjá Hringrás með því að loka starfseminni strax eftir úttekt á dekkjahaugnum, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að almannahættuástand kynni að skapast ef kviknaði í haugnum. Því valdi var hins vegar ekki beitt þar sem það þótti ekki í anda góðra stjórnsýsluhátta að grípa inn í starfsemina með svo afgerandi hætti fyrr en Hringrás hefði fengið að tjá sig um athugasemdir Eldvarnaeftirlitsins.

Ef fyrirtækið hefði þverskallast við að sinna athugasemdunum hefði verið mögulegt að beita þvingunaraðgerðum, en Hringrás svaraði athugasemdunum og lofaði úrbótum. Þar sem hvorki var talin bráð eldhætta á ferð né ástæða til að rengja útskýringar Hringrásar var ekki beitt þvingunarúrræðum.

Fólk sem þurfti að yfirgefa hús sín vegna brunans fékk að fara heim síðdegis í gær. Alls skráðu um 600 íbúar sig hjá Rauða krossi Íslands sem haldið hefur úti fjöldahjálparstöð frá því í fyrrakvöld. Aldrei fyrr hefur þurft að rýma jafnmargar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og í fyrrakvöld.

Um 400 manns tóku þátt í slökkvistarfinu á Hringrásarsvæðinu og öðrum björgunarstörfum. Slökkvistarf stóð enn yfir á athafnasvæði Hringrásar í gærkvöldi þar sem slökkviliðsmenn voru að slökkva glæður í dekkjahaugnum. Þá stóð til að vakt yrði á svæðinu í nótt.