24. nóvember 2004 | Bókmenntir | 566 orð | 2 myndir

BÆKUR - Félagsfræði

Hvað gera íslenskir félagsfræðingar?

Íslensk félagsfræði, Landnám alþjóðlegrar fræðigreinar

Helgi Gunnlaugsson
Helgi Gunnlaugsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ritstjórar: Þóroddur Bjarnason og Helgi Gunnlaugsson. 351 bls. Háskólaútgáfan, Reykjavík 2004.
ÍSLENSK félagsfræði hefur að geyma 14 greinar sem fjalla um sögu íslenskrar félagsfræði og helstu viðfangsefni hérlendra félagsfræðinga um þessar mundir. Þetta er vandað rit að öllum frágangi, greinunum er fylgt úr hlaði með ítarlegum formála og í lokakafla eða einskonar eftirmála bókarinnar rekja ritstjórar hennar í stuttu máli helstu atriði í uppbyggingu félagsfræði sem háskólagreinar á Íslandi, og velta vöngum yfir veikleikum hennar og styrk.

En hvað er íslensk félagsfræði? Væntanlega merkir það hugtak einfaldlega félagsfræði sem stunduð er hér á landi og tekur til íslenskra viðfangsefna. Íslenskir félagsfræðingar eru ekki kenningasmiðir (nema ef vera skyldi Guðmundur Finnbogason sem fjallað er um í fyrstu grein bókarinnar) og framlag þeirra til greinar sinnar því fyrst og fremst fólgið í því að draga rannsóknir á íslensku samfélagi inn í alþjóðlega félagsfræðilega umræðu. Í ritinu er að finna úttekt á stöðu félagsfræðinnar frá tveimur sjónarhornum. Í fyrri hluta bókarinnar eru sex greinar sem lýsa því hvernig félagsfræði hefur orðið til hér á landi sem sjálfstæð fræðigrein og hvernig stofnanir hafa byggst upp í kringum hana. Í síðari hluta hennar eru hinsvegar átta greinar sem fjalla um mismunandi svið íslenskrar félagsfræði. Þessi síðari hluti er tvímælalaust áhugaverðari en sá fyrri. Allar greinarnar í fyrri hlutanum hafa birst áður og sumar þeirra eru komnar til ára sinna. Þær eru aðeins í meðallagi áhugaverðar fyrir hinn almenna lesanda, þó að fólki sem hefur menntað sig í félagsfræði hér á landi eða sérstökum áhugamönnum um stöðu og þróun greinarinnar kunni að þykja fengur að því að hafa þessar greinar á einum stað. Grein Jóhanns Haukssonar um Guðmund Finnbogason stingur reyndar dálítið í stúf við hinar greinarnar í fyrsta hlutanum því að hún er ekki beint stofnanasaga félagsfræðinnar hér á landi heldur hluti af bók sem Jóhann ritstýrði fyrir nokkrum árum um Guðmund og hafði þann tilgang að "endurreisa Guðmund Finnbogason sem einn helsta frumherja félagsvísinda á Íslandi" (bls. 44). Hvort Jóhann náði fyllilega þessu endurreisnarmarkmiði sínu skal ósagt látið en grein hans er bæði fróðleg og yfirveguð hugleiðing um starf Guðmundar og stöðu í fræðasamfélaginu hér á Íslandi fyrstu áratugi aldarinnar.

Greinarnar í síðari hluta bókarinnar fjalla hver um sig um sérstakt svið félagsfræðinnar og þó að auðvitað sé ekki hægt að gera öllu skil er dregin upp áhugaverð og fjölbreytt mynd af því sem félagsfræðingar hér á landi fást við um þessar mundir. Greinarnar eru allar sérlega vel skrifaðar, læsilegar og aðgengilegar fyrir almenna lesendur. Þær geta bæði gegnt því hlutverki að kynna fyrir fólki starf félagsfræðinga í íslensku umhverfi og að kynna nokkur lykilsvið félagsfræðinnar fyrir óinnvígðum. Höfundar greinanna leggja sig allir fram um að fjalla bæði um einstök vandamál sem telja má miðlæg í greinum þeirra og að skýra grundvallarhugtök. Að öðrum ólöstuðum þykja mér þó greinar Helga Gunnlaugssonar og Þorgerðar Einarsdóttur best heppnaðar. Þorgerður lýsir áhrifum femínisma í félagsfræði ásamt því að gera grein fyrir því hvernig femínismi í fræðum og pólitík hefur þróast síðustu áratugi. Þessi umfjöllun er ekki bundin við félagsfræði því að femínismi hefur leikið stórt hlutverk á mörgum sviðum hug- og félagsvísinda. Grein Helga er hinsvegar vönduð kynning á viðfangsefnum og meginkenningum afbrotafræðinnar.

Það kann að vera misráðið af ritstjórum bókarinnar að ætla sama lesendahóp að hafa áhuga á hvorutveggja, sögu félagsfræðikennslu á Íslandi og meginviðfangsefnum félagsfræðinnar. Fyrri hlutinn skyggir nokkuð á þann síðari, sem stendur alveg fyrir sínu sem sjálfstæð bók og ágætur inngangur að því sem er efst á baugi í félagsfræði samtímans.

Jón Ólafsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.